Meira ógagn en gagn að nýjum hæfisskilyrðum um skipan í kjörstjórnir

Ný kosningalög hafa valdið uppnámi á nokkrum stöðum á landinu. Í ljós hefur komið að breyting á ákvæði um hæfiskröfur til setu í kjörstjórnum skapar vandræði við mönnun þeirra.

Í gömlu lögunum var kveðið á um að það útilokaði setu í kjörstjórn ef foreldrar, systkini, börn eða maki væru í framboði. Í nýju lögunum á fulltrúi í kjörstjórn að víkja „ef einstaklingur er í kjöri sem er eða hefur verið maki hans, sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða skyldur eða mægður honum í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar“.

Í greinargerð með frumvarpinu sagði aðeins um þetta ákvæði að það byggðist „á markmiði frumvarpsins um að viðhalda trausti á framkvæmd kosninga, fagmennsku þeirra og að ásýnd kosninga sé hafin yfir allan vafa“. Því væri rétt að gera strangari kröfur en áður hefðu verið í gildi.

Í frétt í Morgunblaðinu á þriðjudag var tekið sem dæmi um hvað þetta ákvæði þýddi að það gæti valdið vanhæfi fulltrúa til setu í kjörstjórn ef maki systur maka hans væri á framboðslista.

Þetta ákvæði virðist ætla að valda vandræðum við að skipa í kjörstjórnir víða um land og þýðir einnig að mikilvæg reynsla getur horfið úr kjörstjórnum vegna þess að skipta þarf út fulltrúum út af hinum nýju hæfiskröfum.

Þá er sérstaklega til marks um að lögin hafi ekki verið hugsuð til enda að í þeim er hvergi talað um hvað sé til bragðs þegar kosningar eru óhlutbundnar. Þá eru nærri allir íbúar sveitarfélags í framboði hafi þeir kjörgengi. Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri landskjörstjórnar, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta hefði mátt vera skýrara. Skilningur landskjörstjórnar sé hins vegar sá að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að útiloka óbundnar kosningar, en sú hefði verið raunin ef allir íbúar sveitarfélags væru sjálfkrafa vanhæfir til setu í kjörstjórn. Augljóst er að þessi túlkun gæti leitt til kærumála að loknum kosningum. Löggjafinn þyrfti því að taka af allan vafa.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í viðtali við Morgunblaðið að sambandinu hefði yfirsést hvaða afleiðingar breyttar reglur myndu hafa þegar kosningalögin voru í umsagnarferli og er á því að breyta þurfi lögunum. „Það þarf að taka þetta til endurskoðunar. Þetta er allt of víðtækt,“ segir Aldís í viðtalinu og bendir á að ekki sé aðeins hætta á að áhrifa af þessu gæti í litlum sveitarfélögum því í Reykjavík séu hátt í 500 manns í framboði. Víða geti því orðið vanhæfi.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segir í samtali við mbl.is að málið hafi verið tekið upp í nefndinni og niðurstaðan verið að of seint væri að grípa inn í núna vegna þess að kjörstjórnir hefðu tekið til starfa og frestur væri að renna út, en ekki væri útilokað þetta yrði skoðað að loknum sveitarstjórnarkosningum. „Þessar hæfisreglur eru ekki settar inn að ástæðulausu en það kann að vera að ekki hafi verið hugsað til enda hvers kyns vandræði þetta gæti skapað í okkar litlar samfélagi,“ sagði Þórunn.

Þetta er varlega orðað hjá Þórunni því nokkuð augljóst er að málið hafi ekki verið hugsað til enda. Vissulega er mikilvægt að hér ríki traust til þess hvernig staðið er að kosningum. Uppákoman sem varð í Borgarnesi í kringum kosningarnar í haust var ekki til þess að ýta undir slíkt traust. Hins vegar má ekki gleyma því mikilvæga atriði að það klúður var ekki vegna þess að reglurnar væru gallaðar, heldur út af því að ekki var farið eftir þeim.

Vitaskuld er góðra gjalda vert að vilja bæta heiminn og þarft að endurskoða reglulega þær reglur sem við setjum okkur. Á Íslandi hefur þátttaka í kosningum verið mikil og framkvæmd þeirra notið trausts. Mikilvægt er að svo verði áfram.

Þegar gera á breytingar þarf hins vegar að vera vit í þeim og hugsa til enda hvaða afleiðingar þær muni hafa í för með sér. Það kann að hafa litið vel út á blaði að breyta hæfisskilyrðum til setu í kjörstjórnum með þessum hætti, en í reynd skapar breytingin glundroða. Verði þessi breyting í þokkabót til þess að dýrmæt reynsla hverfi úr starfi kjörstjórna með þeim sem nú verða vanhæfir gæti hún jafnvel leitt til þess að vegna reynsluleysis verði meiri hætta á mistökum í framkvæmd kosninga en áður.