Ólöf Borghildur Veturliðadóttir fæddist 24. febrúar 1948. Hún lést 5. apríl 2022. Útför hennar fór fram 13. apríl 2022.

„Eru þetta ekki litlu stelpurnar á Úlfsá,“ sagði fullorðinn maður sem við Lóa systir hittum á förnum vegi fyrir mörgum árum. Við vorum að vonum ánægðar yfir því að vera kallaðar litlar stelpur rígfullorðar konurnar, en litlu stelpurnar voru systurnar Lóa og Munda. Það var aðeins rúmt árið á milli okkar í aldri og ég var fljót að ná henni í stærð. Við áttum heima á Úlfsá sem þá tilheyrði Eyrarhreppi hinum forna, en Holtahverfinu á Ísafirði í dag. Það var bara dásamlegt að alast upp inni í firði, sem var sveit í þá daga.

Við vorum átta systkinin og afi og amma áttu heima hjá okkur. Það var gott og samheldið samfélag í firðinum á þeim tíma. Við vorum meira að segja með barnaskóla og þurftum ekki að fara út í bæ í skóla fyrr en farið var í Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Afi var með 20-30 kindur og 2 kýr þannig að það þurfti að heyja fyrir skepnunum á sumrin. Æskan leið hjá við leik og störf, pabbi hafði byggt fyrir okkur Lóu dúkkukofa sem afi kallaði Hrakhóla því að hann sagði að við hefðum altaf verið með dúkkudótið okkar á hrakhólum (við vissum ekkert hvað það þýddi að vera á hrakhólum með eitthvað). Í einni haustlægðinni fauk hann út í buskann og sáum við mikið eftir honum. Margar minningar koma upp í hugann þegar maður hugsar til baka, t.d. afmælin okkar, við áttum tvo afmælisdaga sögðum við því að amma gaf okkur báðum alltaf pakka. Eins áttum við góðar stundir úti að leika, í berjamó, sofa í tjaldi úti á túni, í fyrstu Reykjarvíkurferðinni okkar með Valdísi systur, hún nýorðin 17 og átti að keyra bíl fyrir pabba heim. Við Lóa 10 og 11 ára fengum að fara með, flogið var suður, stoppað þar, síðan var keyrt heim á tveimur dögum og var það mikið ævintýri hjá okkur systrum. Svona væri hægt að halda áfram en ég læt hér staðar numið.

Litlu stelpurnar urðu fullorðnar og eignuðust börn og buru, Lóa mín töluvert á undan mér. Fjölskyldu þinni sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Munda systir,

Guðmunda Inga

Veturliðadóttir.

Lóa systir mín var fjórða elst af okkur átta systkinum frá Úlfsá. Við ólumst upp við gott atlæti foreldra okkar í sveitinni í botni Skutulsfjarðar þar sem nú er Holtahverfi.

Á þeim tíma var þetta sveit og þar var mikið líf og mörg börn á næstu bæjum. Við vorum með eigin barnaskóla þar sem einn kennari kenndi öllum börnunum, það var ekkert sjónvarp, engar tölvur og engir farsímar, aðeins sveitasíminn og hringingin okkar var tvær stuttar löng og stutt. Við vorum með smá búskap sem afi sá um og dugði fyrir mannmargt heimili, en á heimilinu voru einnig móðurafi okkar og amma. Það var oft þröng á þingi, en samt upplifði maður ekki nein sérstök þrengsli og allir undu glaðir við sitt.

Úr þessum jarðvegi kemur hún Lóa systir mín. Hún lærði ung að taka til hendinni, hvort sem það var við heyskap, heimilisstörf eða að hjálpa til með yngri systkini sín, það er okkur yngri bræðurna þrjá.

Lóa gekk í barnaskólann í Firðinum, hún var bráðger og gekk henni strax vel í námi, var færð upp um bekk og byrjaði einu ári fyrr en jafnaldrar hennar í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði.

Ég naut þess að búa hjá henni þegar ég var í fyrsta bekk í gagnfræðaskóla. Það fór vel á með okkur eins og alltaf enda aldursmunur ekki mikill. Hún var þá aðeins sautján ára gömul, en komin með eiginmann og tvö börn. Eiginmaðurinn Guðmundur Einarsson var þá vélstjóri á Mími frá Hnífsdal.

Á þessum árum var mikið um skipskaða og þegar óveður skall á var stundum erfitt fyrir unga móður með tvö lítil börn að bíða eftir að eiginmaðurinn kæmi í land.

Lóa og Mundi bjuggu á nokkrum stöðum á Ísafirði eins og gengur með ungt fólk sem er að byrja að búa. Ég man vel eftir að einn veturinn í miklu óveðri slitnuðu rafmagnslínur og þá voru íbúar rafmagnslausir og flest hús köld. Þá bjuggu ungu hjónin á Seljalandsbúinu og þar var kolakynding. Þar vorum við Jón bróðir duglegir að höggva í eldinn og kynda. Það fór vel um okkur öll í hlýjunni hjá Lóu systur.

Síðar byggja þau sér einbýlishús við Móholt og var mér, þá rétt skriðinn úr skóla, treyst fyrir að gera allar verkfræðiteikningar. Þetta hús var með þeim glæsilegri í hverfinu og bar það vitni um smekkvísi þeirra hjóna. Garðurinn var einstaklega fallegur og vel hirtur auk þess sem þau ræktuðu grænmeti og fleira.

Um nokkurt árabil rak Lóa verslunina Krismu ásamt öðrum. Þar fannst mér hún njóta sín vel og náði vel til viðskiptavina með sinni ljúfu og góðu framkomu. Maður var virkilega stoltur af þessari flottu systur í búðinni.

Hin síðari ár átti systir við heilsuleysi að stríða. Það var aðdáunarvert að sjá hvað hún tók þessum veikindum af miklu æðruleysi og ótrúlegt hvað hún náði sér oft vel eftir mjög alvarleg veikindi.

Nú er mín kæra systir farin í sumarlandið. Hennar er sárt saknað og við yngri bræðurnir Jón og Magni þökkum henni fyrir allt það góða sem hún gerði fyrir okkur.

Guðmundi, Huldu Salóme, Hjálmari, Steingrími og Kristínu og fjölskyldum þeirra sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu okkar kæru systur.

Stefán B. Veturliðason.

Þá er Lóan, mín góða vinkona Ólöf Borghildur, flogin brott af þessu tilverustigi. Flugið var fyrirvaralaust en ekki óviðbúið, því hún hafði barist við illvígan sjúkdóm síðustu árin. Leiðir okkar Ólafar lágu fyrst saman um páska 1964, þegar við Mundi vorum að sýna hvor öðrum kærusturnar okkar. Fundurinn var í forstofuherbergi, sem Mundi leigði í Málarablokkinni. Lóa var föl á vanga og uppburðarlítil, enda kona ekki einsömul. Seinna bættust þrjú börn í hópinn. Þetta var upphafið að ævilöngum vinskap okkar Aju og þeirra hjóna Lóu og Munda. Ekki ónýtt fyrir brottfluttan Ísfirðing að eiga bestu vini í heimaliðinu, sem ávallt var hægt að leita til, þegar höfuðstaður Vestfjarða var sóttur heim. Kvöldverð með heitreyktum silungi með öllu, bæði föstu og fljótandi, er erfitt að toppa nema kannski með súrmatnum á þorranum. Dinnerinn hófst með því að veiða silunginn í Dýrafirði og gera að honum í garðinum í Móholtinu. Ólöf var fögur kona, smekkleg og listræn. Hún sá hluti bæði úr jurta- og steinaríkinu og gerði þá að listmunum. Heimili þeirra var eins og listasafn. Ólöf stundaði um tíma verslunarrekstur og vann með bónda sínum að útgáfu skipsbóka og námsbóka.

Minnisstæðastar eru mér þó hinar mörgu sameiginlegu utanlandsferðir. Þar var slappað af, stundum djammað, en ávallt séð til þess að menningar væri notið. Í London voru það að jafnaði tveir nýuppsettir söngleikir sem urðu fyrir valinu ásamt veitingastöðum frá framandi löndum. Í Köben nýlistasafnið Luisiana o.s.frv.

Góða ferð, kæra Lóa, og skilaðu kveðju til Aju minnar.

Munda og börnum þeirra og ættingjum votta ég mína dýpstu samúð.

Sigurjón Norberg.

Elsku yndislega, fallega og skemmtilega mamma mín. Mér finnst erfitt að koma orðum að því hversu mikið ég sakna þín og hversu mikils virði þú ert mér. Ég elskaði að koma vestur til þín að dekra við þig og eiga yndislegar samverustundir sem við báðar lifðum á lengi á eftir. Alltaf var stutt í húmorinn hjá þér og það var alltaf mikið hlegið. Þú varst mikil mömmustelpa eins og ég og fannst okkur gaman að tala um gömlu dagana.

Þú gerðir sumrin að ævintýrum, hvort sem var í Leirufirði, á Spáni eða heima í Móholti. Þú kenndir mér að dást að haustlitunum á haustin. Gerðir jólin að hátíð með því að skreyta allt hátt og lágt og bakaðir allar heimsins sortir. Á áramótafögnuðum vorum við með litskrúðuga hatta til að fagna nýju ári. Þér fannst notalegt þegar lóan lét sjá sig með vorið handan við hornið og þú naust þess að hlusta á fuglasönginn og gættir þess að smáfuglarnir hefðu alltaf nóg að éta.

Það var alltaf eintóm gleði í kringum þig og þú kvartaðir aldrei. „Verra gat það verið,“ sagðir þú oft. Ég horfði mikið upp til þín og vildi vera eins og þú, enda fetaði ég í fótsporin þín þegar ég stofnaði Snyrtistofuna Krismu. Fólk spurði mig oft fyrir hvað nafnið stæði og ég svaraði Kris er Kristín og Ma er mamma. Við opnun stofunnar fannst þér mjög gaman að koma að hjálpa mér að velja vörur og að sjá að ég hélt Krismunafninu á lífi. Ég mun alltaf hugsa til þín með gleði í hjarta. Þú varst vön að segja mér að þú værir með mér í anda og mun ég alltaf finna fyrir þér í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Ég elska þig, elsku besta mamma mín.

Þín dóttir,

Kristín.