Ingólfur fæddist í Vestmannaeyjum 1. nóvember 1926, en ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Hann lést 7. mars 2022.

Foreldrar Ingólfs voru Sigurður Guðmundsson, f. 16.7. 1900, d. 21.8. 1989, og Rannveig Runólfsdóttir, f. 28.11. 1897, d. 1.10. 1968.

Bróðir Ingólfs var Ragnar, f. 16.7. 1929, d. 17.7. 2019, var kvæntur Júlíu Hrefnu Viggósdóttur, f. 28.9. 1947, og áttu þau saman sex börn, auk þess sem Ragnar átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi.

Uppeldissystir Ingólfs var Selma S. Gunnarsdóttir, f. 5.6. 1936, d. 30.11. 2006.

Ingólfur kvæntist 6.1. 1949 Sveinbjörgu Guðmundsdóttur, f. 19.10. 1929, d. 13.10. 2020. Þau skildu.

Síðar kvæntist hann Sonju B. Helgason, f. 6.11. 1918, d. 13.7. 2010. Þau skildu.

Ingólfur kvæntist 20.10. 1973 Elínu Adolfsdóttur, f. 29.1. 1929, d. 11.3. 2013. Hún var dóttir Ársæls Jóhannssonar og Elínar Jónsdóttur.

Börn Ingólfs og Sveinbjargar eru: 1) Bjarni, f. 29.6. 1950, kvæntur Þórunni Kristjónsdóttur, f. 15.11. 1951, og eiga þau saman þrjú börn. 2) Guðmundur, f. 4.7. 1953, kvæntur Auði Marinósdóttur, f. 17.1. 1953, og eiga þau saman tvö börn. 3) Gunnhildur, f. 18.2. 1955, og á hún fjögur börn.

Dóttir Ingólfs og Elínar er Anna María, f. 20.10. 1972, sambýlismaður hennar er Bjarni Stefánsson, f. 1961, og eiga þau eitt barn.

Fósturbörn Ingólfs eru: 1) Guðrún Hanna Gunnsteinsdóttir, f. 26.5. 1952, gift Richard Gallop, f. 22.5. 1948, og eiga þau tvö börn. 2) Adolf Ársæll Gunnsteinsson, f. 23.4. 1954, var kvæntur Elínu Birnu Harðardóttur, f. 17.5. 1955, d. 15.10. 2014, þau áttu saman tvö börn. 3) Steinar Már Gunnsteinsson, f. 31.7. 1957, kvæntur Sigrúnu Sæmundsdóttur, f. 9.4. 1959, og átti Steinar tvö börn frá fyrra sambandi. 4) Ingvar Jóel Ingvarsson, f. 2.4. 1963, og á hann tvö börn. 5) Berglind Nína Ingvarsdóttir, f. 23.10. 1964, og á hún eitt barn.

Barnabörnin eru 10 og níu skáafabörn og 20 langafabörn.

Útför Ingólfs fór fram í kyrrþey 29. mars 2022 í Fossvogskirkju, að hans ósk.

Þú varst besti pabbi í heimi. Yndislegar og eftirminnilegar minningar rifjast upp og þá sérstaklega okkar dýrmætu samverustundir eftir að mamma lést 2013.

Minningin lifir og ég er sátt í hjarta mínu, við vorum í daglegum samskiptum síðan mamma kvaddi. Ég veit að þú hlakkaðir alltaf til að fá mig í heimsókn á kvöldin með hundana mína og horfa á fréttirnar með þér. Þetta var svona fastur sess í lífi mínu síðustu árin og hundarnir mínir vissu nákvæmlega hvert þær voru að fara á hverju kvöldi, enda alltaf góðar móttökur hjá „þeim gamla“.

Þið mamma fluttuð í Selásinn rétt eftir að Linda Björk, einkadóttir mín, fæddist. Þið voruð stoð og stytta í okkar lífi. Linda Björk fór til ykkar eftir skóla og kynntist ykkur mjög vel. Hún á margar góðar minningar í hjarta sínu um ömmu og afa. Þú kenndir henni að spila á spil og mannganginn í skák, eins og flestum þínum barnabörnum, og áttuð þið margar góðar stundir saman.

Eftir að mamma kvaddi ákvaðst þú að vera áfram í hverfinu, en minnka við þig húsnæði og fluttir í næstu blokk. Þú varst duglegur að fara í þína daglegu göngutúra eins lengi og þú treystir þér til, flestir í hverfinu þekktu þig og þú þá.

Þú varst sjálfstæður og keyrðir mikið og fóruð þið Raggi bróðir þinn og besti vinur í mörg ferðalög saman. Þegar þú varðst 90 ára gamall ákvaðstu að hætta að keyra en draumurinn um ferðalög var enn fyrir hendi.

Þegar þú varðst 90 ára var þinn æðsti draumur að fara í þyrluflug; „ég verð að fá að fara í þyrluflug áður en ég dey“ sagðir þú, svo þið bræður fóruð saman í eftirminnilegt þyrluflug þegar þú varst 90 ára, sem þú lifðir lengi á.

Ingi bróðir var duglegur að fara með þig í bíltúr á hverjum sunnudegi síðustu árin og veit ég vel hvað þú hlakkaðir alltaf til sunnudagsbíltúranna með Inga, eða nafna þínum eins og þú kallaðir hann.

Þú vildir alls ekki fara á hjúkrunarheimili og ákváðum við saman að ég myndi aðstoða þig eftir bestu getu meðan heilsan leyfði, að búa sem lengst heima, og með aðstoð Heimahjúkrunar og Heimaþjónustunnar síðustu ár gekk það vel. Ég veit að þú vildir deyja heima. En svo varðstu fyrir því óláni að detta fyrir utan heimili þitt 14. nóvember sl. og mjaðmagrindarbrotna og þá varð ekki aftur snúið og eftir þriggja mánaða erfiða spítalalegu, sem endaði á hjúkrunarheimili, dróst þú síðasta andardráttinn 7. mars sl., eftir tæplega þriggja vikna dvöl á hjúkrunarheimilinu.

Þú áttir góða ævi og góð 95 ár og lést drauminn rætast, varst heilsuhraustur og elskaðir ferðalög og að keyra, enda með bullandi bíladellu og fyrrverandi atvinnubílstjóri. Þið bræður fóruð saman til Kúbu, en áður hafðir þú ferðast til Kína og Japans, svo ég tali ekki um öll hin ferðalögin um Norðurlöndin, Evrópu og Íslands-hringina sem eru óteljandi.

Nú ert þú væntanlega að ferðast um í ævintýralandinu með öllum þínum nánustu og ég veit að þú ert bílstjórinn, enda besti bílstjóri sem uppi hefur verið.

Þín verður sárt saknað.

Þín dóttir,

Anna María og fjölskylda.

Það hefur verið í kringum 1970 eða fyrr sem Ingólfur fór að gera hosur sínar grænar fyrir mömmu. Mér þótti það ekki leiðinlegt, nýfermdum, að fara í bíltúr með honum á Bronco eða Weapon. Mér er enn þá minnisstæð ferð sem við fórum í febrúar 1972 norður á Hvammstanga, þegar Ingólfur skutlaði manni sem var að fara til sjós á bát sem Raggi bróðir hans gerði út. Heimferðin tók hálfan sólarhring, það gerði snarvitlaust veður á Holtavöruheiðinni og við vorum 10 tíma að fara hana. Ársæll bróðir labbaði heiðina meira og minna á undan bílnum því ekki sást fram fyrir húddið. Ég, 15 ára þá, hélt í alvöru að þetta væri mitt síðasta, en Ingólfur hélt ró sinni allan tímann sem betur fer.

Svo var það veturinn 1973 að Ingólfi bauðst að kaupa Vöku af Hjalta Stefánssyni, en auðvitað vissi maður ekki þá að þetta fyrirtæki ætti eftir að verða starfsvettvangur minn næstu áratugi en þannig var það.

Við Ingólfur og mamma rákum fyrirtækið saman allt til ársins 1993, en þremur til fjórum árum áður hafði Bjarni sonur Ingólfs keypt sig inn í fyrirtækið. Ingólfur var samt ekki hættur afskiptum af Vöku og vann með okkur Bjarna í mörg ár eftir þetta, og keyrði með bílhræ til förgunar fram yfir áttrætt.

Við Ingólfur ferðuðumst mikið saman í gegnum árin, og fór ég í mína fyrstu utanlandsferð til Hollands með honum, auk margra innanlandsferða. Öll árin okkar saman í Vöku bar engan skugga á samstarf okkar, enda Ingólfur gull af manni. Þegar Ingólfur var kominn undir nírætt fann hann að það var orðið erfitt að keyra bíl svo hann lagði inn ökuskírteinið.

Þetta fannst mér alveg magnað að hann skyldi gera vegna þess hversu gaman honum þótti að keyra. En núna síðustu árin hefur Ingvar bróðir sannarlega reynst Ingólfi vel og tekið hann með sér í bíltúr á hverjum sunnudegi, þrjár til fjórar klukkustundir í senn, og á hann miklar þakkir skilið fyrir það.

Að lokum þakka ég fyrir allt Ingólfur minn. Mamma tekur örugglega vel á móti þér í sumarlandinu góða.

Steinar Már

Gunnsteinsson.