Lamb x chili Þetta er blanda sem nauðsynlegt er að prófa en hér leikur broddkúmenið aðalhlutverkið ásamt chili sem hefði ábyggilega komið einhverjum undarlega fyrir sjónir hér á öldum áður en tónar svo skemmtilega við dásamlega bragðgott lambakjötið.
Lamb x chili Þetta er blanda sem nauðsynlegt er að prófa en hér leikur broddkúmenið aðalhlutverkið ásamt chili sem hefði ábyggilega komið einhverjum undarlega fyrir sjónir hér á öldum áður en tónar svo skemmtilega við dásamlega bragðgott lambakjötið. — Ljósmynd/Íslenskt lambakjöt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það eru komnir páskar og fátt er meira viðeigandi á veisluborðum landsmanna en góð lambasteik. Hér getur að líta nokkrar útgáfur af lambi sem allar eiga það sammerkt að bragðast ótrúlega vel. Gott lambakjöt klikkar aldrei og með góðri sósu og geggjuðu meðlæti er páskamáltíðin gulltryggð.

Það eru komnir páskar og fátt er meira viðeigandi á veisluborðum landsmanna en góð lambasteik. Hér getur að líta nokkrar útgáfur af lambi sem allar eiga það sammerkt að bragðast ótrúlega vel. Gott lambakjöt klikkar aldrei og með góðri sósu og geggjuðu meðlæti er páskamáltíðin gulltryggð.

Lambalundir

Lambalundir

Um 1 kg lambalundir

3 msk. Bezt á lambið-krydd

3 msk. ólífuolía

Veltið lundunum upp úr olíu og kryddi, plastið og leyfið að marinerast að minnsta kosti í klukkustund (yfir nótt væri líka í lagi).

Grillið síðan á vel heitu grilli í 5-8 mínútur, fer eftir þykkt lundanna.

Hvílið síðan í að minnsta kosti 10 mínútur áður en kjötið er skorið.

Sveppasósa

60 g smjör

300 g sveppir

2 hvítlauksrif

3 msk. hvítvín

1 msk. sítrónusafi

400 ml vatn

400 ml rjómi

30 g parmesan

1 msk. timían

salt og pipar

2 x Toro-sveppasósubréf

Steikið sveppina upp úr smjöri þar til þeir mýkjast. Saltið og piprið eftir smekk og rífið hvítlaukinn saman við í lokin og steikið aðeins áfram.

Hellið hvítvíninu yfir sveppina og leyfið því að sjóða niður (gufa upp) og bætið þá restinni af hráefnunum í pottinn og pískið sósubréfin saman við.

Leyfið að malla og smakkið til með salti og pipar.

Sætkartöflumús

1.100 g sætar kartöflur

60 g smjör

3 msk. hlynsíróp

1 tsk. salt

½ tsk. pipar

½ tsk. cheyennepipar

60 g saxaðar döðlur

100 g saxaðar pekanhnetur

1 krukka fetaostur (bara osturinn)

Sjóðið kartöflurnar. Mér finnst best að flysja þær fyrst og skera í jafna bita, þá eru þær fljótari að sjóða.

Setjið síðan kartöflubitana ásamt smjöri, sírópi og kryddi í hrærivélarskálina og blandið saman.

Færið næst yfir í eldfast mót og dreifið döðlum, pekanhnetum og fetaosti yfir og bakið við 190°C í um 10-15 mínútur eða þar til osturinn bráðnar og hneturnar fara að gyllast.

Berglind Hreiðars á Gotteri.is býður hér upp á lambalundir af bestu gerð sem hún ber fram með sveppasósu og algjörlega geggjaðri sætkartöflumús.

Hvítlauks- og piparkyddlegið lambalæri

Hvítlauks og piparkryddlegið lambalæri frá SS

Aðferð:

Takið lærið út úr kæli og leyfið því að standa við stofuhita í 2-3 tíma.

Kveikið á ofninum og stillið á 160°C.

Setjið lærið í eldfast mót ásamt timíani og rósmaríni og setjið kjöthitamæli inn í miðjuna á kjötinu, bakið þar til kjarnhiti nær 60°C (meðalsteikt), tími fer eftir hversu stórt lærið er og hversu kalt það var þegar það fór inn í ofninn, en við erum alltaf að tala um klukkutíma +.

Rjómasveppasósa

½ laukur

250 g sveppir

2 msk. smjör

3 hvítlauksrif

500 ml rjómi

vökvinn sem fellur til af nautakjötinu inni í ofninum

2 stk. nautakraftsteningar eða eftir smekk, fer eftir því hversu mikið af vökva fellur til af kjötinu.

1 dl rauðvín

svartur pipar og salt eftir smekk

1 msk. gráðostur

sósulitur eftir smekk

Aðferð:

Skerið laukinn fínt niður og steikið hann upp úr örlitlu smjöri.

Skerið sveppina niður og bætið þeim út á pönnuna ásamt restinni af smjörinu, steikið þangað til mesta vatnið af sveppunum er gufað upp.

Pressið þrjú hvítlauksrif út á og steikið létt í 1-2 mín., hellið svo rjómanum út á. Bætið kraftinum sem féll af nautakjötinu út í sósuna ásamt teningum, rauðvíni, smá pipar og salti og gráðosti.

Látið sósuna sjóða svolítið og bætið svo meira af kjötkrafti, salti og pipar, rauðvíni og gráðosti við eftir smekk.

Marineraðir tómatar

4 stórir tómatar

½ rauðlaukur

1 hvítlauksgeiri

1 dl hágæða jómfrúarólífuolía

2 msk balsamedik með hunangi

1 lúka ferskt basil

salt og pipar

Aðferð:

Skerið tómatana í frekar þykkar sneiðar, ca 1 cm, dreifið þeim á fallegan disk.

Skerið rauðlauk og hvítlauksgeira mjög smátt og setjið í skál ásamt ólífuolíu og balsamediki.

Skerið basil niður og setjið út í skálina ásamt salti og pipar, blandið öllu vel saman og hellið yfir tómatana.

Gott að gera með smá fyrirvara og leyfa þessu aðeins að taka sig áður en þetta er borið fram.

Smjörsteiktir sveppir með timían

250 g kastaníusveppir

100 g smjör

u.þ.b. 5 greinar ferskt timían

Aðferð:

Bræðið smjörið á pönnu og setjið sveppina út á ásamt timían, leyfið að malla við vægan hita þar til sveppirnir eru eldaðir í gegn.

Hér fer matarbloggarinn Linda Ben mikinn og leikur sér með dýrindis lambalæri sem er hvítlauks- og piparkryddlegið. Meðlætið er dýrindis sósa, marineraðir tómatar og smjörsteiktir sveppir.

Lambalæri með broddkúmeni og chili

Lambalæri

1,5 kg lambalæri á beini

½ dl olía

1 tsk. broddkúmen (e. cummin)

1 tsk. paprikuduft

2 hvítlauksrif, maukuð í hvítlaukspressu

2 appelsínur, rífið börkinn af og skerið síðan í fernt

2 tsk. salt

1½ tsk. nýmalaður svartur pipar

2 msk. fersk basilíka, grófsöxuð

Bakað grasker, maís og paprika

1 grasker, skrælt og skorið í grófa báta,

2 rauð chili

1 rauð paprika, skorin til helminga

2 maísstönglar, skornir í fjóra bita

2 msk. smjör

salt og nýmulinn pipar

Leiðbeiningar

Lambalæri, grænmeti og sósa

Ofureinföld uppskrift þar sem allt er eldað í sama bakkanum eða ofnpotti.

Hitið ofn í 200°C. Blandið olíu, broddkúmeni, paprikudufti, rifnum berki af appelsínum, salti og pipar í skál og penslið vel yfir allt lærið.

Látið lærið og restina af hráefnunum í steikarpott eða á ofnbakka og eldið allt saman í 15 mínútur, takið lærið út og ausið soðinu vel yfir. Lækkið hitann í 120°C og eldið áfram í 1-1½ klst. Ausið soðinu annað slagið yfir kjötið. Takið út og látið jafna sig í u.þ.b. 15 mínútur, setjið álpappír yfir á meðan. Sáldrið saxaðri basilíku yfir áður en lærið er borið fram.

Berið fram með soðsósunni úr ofnskúffunni, bragðbætið og þykkið eftir þörfum.

Meðlæti

Allt grænmetið er skorið gróft kryddað og sett með lærinu í eldun.

Hér getur að líta uppskrift þar sem lambalærið er kryddað á heldur óhefðbundinn hátt og útkoman er algjör veisla fyrir bragðlaukana. Meðlætið er heldur ekki af verri endanum en hér er það einfaldleikinn sem ræður og útkoman er ótrúlega skemmtileg og spennandi.

Fyllt lambalæri og dýrindis piparsósa

Fyllt lambalæri

1 úrbeinað læri

3-4 msk. Bezt á lambið-krydd

1 blaðlaukur

2-3 sveppir

5 hvítlauksrif

1 salatfetakubbur

10 ferskar döðlur

2 msk. olía

salt og pipar

handfylli timían (2 tsk. þurrkað)

2 msk. Bezt á lambið-krydd

Stillið ofn á 180°C.

Leggið úrbeinaða lærið á bretti og skerið í kjötið til að fletja það eins vel út og hægt er.

Blandið þá blaðlauk, sveppum og hvítlauk saman í matvinnsluvél og setjið í skál. Myljið ostinn saman við, bætið olíunni saman við. Skerið döðlurnar niður og blandið öllu saman. Kryddið þá með salti og pipar, timían og Bezt á lambið-kryddinu.

Byrjið á því að krydda kjötið með Bezt á lambið, takið þá fyllinguna og leggið á lambið og dreifið vel yfir. Rúllið þá kjötinu upp og bindið þétt með bandi sem þolir eldun, kryddið kjötið vel að utan með Bezt á lambið. Setjið í eldfast mót og inn í ofn í 30 mín.

Eftir 30 mín. setjið þið lok eða álpappír yfir kjötið, hægt er að halda áfram að elda það á 180°C í 1-2 klst. í viðbót eða lækka hitann niður í 150°C og leyfa því að hægeldast í 3-4 klst.

Piparostasósa

100 ml rjómi

300 ml vatn

½ piparostur

1 pk. Toro-piparsósa

Setjið rjóma og 100 ml af vatni í pott ásamt piparosti, gott er að skera ostinn niður til að hann sé fljótari að bráðna. Þegar osturinn er bráðnaður, hristið þá saman 200 ml vatn og 1 pk. Toro-piparsósu í krukku t.d. og hellið út í pottinn. Leyfið sósunni að malla í örfáar mínútur. Flóknara er það ekki!

Guðrún Ýr á Döðlum & smjöri á heiðurinn af þessari uppskrift en hér er lærið úrbeinað, sem býður upp á skemmtilega fyllingu. Guðrún notar bæði salatost og ferskar döðlur, ásamt sveppum og hvítlauk. Útkoman er upp á tíu!