Þórarinn Björnsson fæddist 11. júlí 1940. Hann lést 23. mars 2022.

Útför Þórarins fór fram 2. apríl 2022.

Þá er gamall góður vinur búinn að kveðja þennan heim. Þótt aldursmunurinn á okkur hafi verið yfir 20 ár þá vorum við ótrúlega góðir vinir og er ég afar þakklátur fyrir að hafa kynnst Þórarni, eða Tóta eins ég gjarnan kallaði hann. Við störfuðum báðir fyrir Alþjóðalíftryggingafélagið og vorum umboðsmenn eða sölumenn, ég byrjaði 1984 og hann ári seinna. Þeir voru ófáir sölutúrarnir sem við félagar fórum í og við nánast þræddum landið endilangt, gistum ýmist á hótelum eða gistiheimilum eða bara í tjaldi. Margt skemmtilegt gerðist í þessum sölutúrum og mér er mjög minnisstætt eitt sumarið, líklega 1987, þegar við vorum á Vestfjörðum. Við vorum þá nýlega komnir á Þingeyri og ég bið Tóta að tékka okkur inn á hótelið og kanna símamálin í leiðinni því mikilvægt var að ná sambandi við viðskiptavini og ræða tryggingamál áður en maður legði leið sína á fund. Á þessum tíma voru farsímar ekki til. Tóti spyr eiganda hótelsins hvort hann gæti komist í símaaðstöðu um kvöldið. Eigandinn svarar: „Já, að sjálfsögðu, síminn er hér á neðstu hæðinni.“ Tóti segir mér svo að við séum komnir með þessa fínu símaaðstöðu án þess að hafa séð hana, alveg í essinu sínu þannig við ættum að geta haft gott næði til að hringja um kvöldið. Þegar við ætluðum að hringja í nokkra viðskiptavini sama kvöld þá röltum við niður og spyrjum hvar síminn sé. „Hann er hér til hægri inni í matsalnum segir hótelstjórinn.“ Við fórum inn og þá horfðum við á stóran ferkantaðan viðarsíma hangandi upp á vegg með hringskífu, einu heyrnartóli á hliðinni og lúðri sem átti að tala í. Þetta var inni í miðjum matsalnum sem var fullur af fólki. Við fengum þvílíkt hláturkast og þegar ég rifja þetta upp núna er ég viss um að Tóti brosir með mér. Þessi saga er mér mjög minnisstæð því Tóti minntist oft á hana. Við áttum svo margar skemmtilegar og fyndnar minningar úr sölutúrum okkar.

Þórarinn var mjög andlega sinnaður maður og kannski þess vegna sem við náðum vel saman sem vinir. Hann fór ekki bara um landið til að selja tryggingar. Hann vann einnig við gerð útvarpsþátta á RÚV sem var eitt helsta áhugamál hans. Það að taka viðtöl við eldra fólk og fá það til að segja reynslusögur sínar eða tala um lífshlaup sitt. Hann tók fjölmörg góð viðtöl sem hann síðar gaf út á geisladiskum. Á milli þess að selja tryggingar og taka viðtöl, gaf hann sér gjarnan tíma til þess að fara á líknardeild Landspítalans til þess að lesa sögur fyrir þá sem lágu fyrir dauðanum.

Ég kveð þig gamli góði vinur og nú þarftu ekki að þjást lengur í veikindum þínum. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér í andlega heiminum og þetta er leiðin sem við förum öll og vonandi eigum við eftir að hittast aftur.

Guð geymi þig Tóti minn. Þinn vinur Ómar og fjölskylda, við vottum aðstandendum samúð.

Ómar Einarsson.