Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Eftir Gunnar Björnsson: "Og umfram allt þökkum við Guði fyrir það, að hann gaf okkur einkason sinn að óumræðilegri gjöf og fyrirmynd og reisti Hann upp frá dauðum."

Upprisa Jesú Krists merkir, að endurlausnarverk Guðs okkur mönnum til frelsunar og fórnin, sem Jesús færði til þess að afmá misgjörðir okkar, eru eitt og hið sama.

Upprisuna boðar kirkja Krists sem sögulegan atburð, viðburð sem vissulega átti sér stað. Á þriðja degi eftir krossfestinguna reis Jesús Kristur upp frá dauðum, og það á alveg ákveðnum stað: af gröf Jósefs frá Arímaþeu, „staðnum þar sem þeir lögðu hann“.

Um leið er ljóst, að upprisa Jesús Krists er ekki sögulegur atburður í nákvæmlega sama skilningi og aðrir viðburðir sögunnar, sem okkur er kunnugt um.

Hann er af ætt hinna hinstu raka (eskatólógískur) og því er ekki unnt að færa sönnur á hann með vísindalegum aðferðum.

Þessi tvíveðrungur einkennir þær heimildir, sem í guðspjöllunum er að finna. Frásagnir þeirra af upprisunni eru lokanótan í sögu guðspjallamannanna af lífi og dauða Jesú Krists. Samkvæmt þeim bera postularnir kennsl á Jesú, þegar þeir sjá hann upprisinn frá dauðum. Hins vegar verður að viðurkenna, að upprisan er ekki hluti af ævisögu Jesú með sama hætti og viðburðirnir í lífi hans frá vöggu til grafar.

Ekkert mannlegt auga sá sjálfa upprisuna. Vitni að henni voru annars vegar manneskjur, sem sáu gröfina tóma, og hins vegar fólk, sem sá Jesú upprisinn.

Var Páli postula kunnugt um tómu gröfina? Hann nefnir hana að minnsta kosti ekki. En hann ritar: „Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum, og hann var grafinn, og reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum.“ Þessi orð Páls er erfitt að skilja öðru vísi en svo, að þau vísi til tómu grafarinnar. Sú áhersla, sem Páll leggur á greftrun Jesú, hlýtur að merkja að hann hafi skilið upprisuna sem bókstaflega, líkamlega upprisu.

Í stuttu máli ber öllum kristnum frumheimildum saman um það, að hinn krossfesti Jesús frá Nasaret lifi að eilífu með Guði föður, og það sé Hann, sem von okkar, kristinna manna, beinist að. Höfundar Nýja testamentis eru meira en fullvissir um það, að sá sem deyddur var á krossinum hafi verið reistur upp frá dauðum, og hver sá maður, sem fylgir honum og heldur sér fast við Hann, muni og lifa.

Þessi upprisa er sama og að deyja í Guði. Upprisutrúin er bjargföst trú, full trúnaðartrausts, sem treystir því, að Guð upphafsins, Skaparinn, sé einnig Guð endalokanna. Upprisutrúin er því í sérstökum skilningi alefling trúarinnar á Guð sem Skapara. Í upprisunni vinnur Skaparinn sigur á dauðanum. Þeim hinum sama Guði felur hinn trúaði allt á hendur, allt, sem hann á í vonum, og allt, er veldur sorg. Dauðinn er endalokin, en um leið nýtt upphaf. Sá almáttugi Guð, sem skapað hefur allt af engu, er einnig fær um að kalla okkur mannfólkið frá dauðanum til lífsins.

Það er því ærið tilefni til þess að gleðjast á páskum! Tökum fagnandi á móti geislum glampandi páskasólar, sem vekur allt með kossi! Og umfram allt þökkum við Guði fyrir það, að hann gaf okkur einkason sinn að óumræðilegri gjöf og fyrirmynd og reisti Hann upp frá dauðum við geisla morgunsólar árla á páskamorguninn forðum, sem frumgróða þeirra, sem sofnaðir eru. Því ættum við að reyna að gæða líf okkar eiginleikum upprisulífsins í Kristi, lífs hinnar komandi aldar, þar sem Guð verður allt í öllu, hvert tár þerrað og harmur og kvöl ekki framar til!

Gleðilega páska!

Höfundur er pastor emeritus.

Höf.: Gunnar Björnsson