Elías Snæland Jónsson, rithöfundur og ritstjóri, er látinn, 79 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum 8. apríl síðastliðinn. Elías fæddist á Skarði í Bjarnarfirði á Ströndum 8. janúar 1943.

Elías Snæland Jónsson, rithöfundur og ritstjóri, er látinn, 79 ára að aldri. Hann lést á Landspítalanum 8. apríl síðastliðinn.

Elías fæddist á Skarði í Bjarnarfirði á Ströndum 8. janúar 1943. Foreldrar hans voru Jón Mikael Bjarnason og Hulda Svava Elíasdóttir. Ungur flutti Elías með foreldrum sínum suður í Njarðvík og ólst þar upp. Stundaði nám við Samvinnuskólann á Bifröst og lauk þaðan prófi árið 1962. Í framhaldi af því fór hann til náms í blaðamennsku í Noregi, sem markaði braut hans til framtíðar. Elías var blaðamaður á Tímanum 1964-1973 og ritstjóri Nýrra þjóðmála 1974-1976. Hann var blaðamaður og ritstjórnarfulltrúi á Vísi 1975-1981 og í framhaldi af því ritstjóri Tímans 1981-1984. Fór svo til starfa á DV sem aðstoðarritstjóri og var til 1997. Var síðan ritstjóri á Degi til 2001.

Jafnhliða blaðamennsku skrifaði Elías fjölda bóka af ýmsum toga. Leikritið Fjörubrot fuglanna var frumsýnt í Borgarleikhúsi ungs fólks í Dresden ( Theater Junge Generation ) í þýskri þýðingu 1999. Hann hlaut Í slensku barnabókaverðlaunin fyrir Brak og bresti 1993 og saga hans Návígi á hvalaslóð, sem kom út árið 1998, var á heiðurslista barnabókasamtakanna IBBY . Skáldsagan Draumar undir gaddavír kom út 1996.

Einnig skrifaði Elías ýmislegt um söguleg efni. Tók meðal annars saman bókina Möðruvallahreyfingin , en það var klofningsbrot úr Framsóknarflokknum. Er sú bók einnig lýsing á mörgu í samfélagi þess tíma. Þá skrifaði Elías bókina Síðasta dagblaðið á vinstri vængnum sem fjallaði um útgáfu Dags í ritstjóratíð hans. Sem ungur maður var Elías virkur í starfi Framsóknarflokksins og síðar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Þá var hann formaður Blaðamannafélags Íslands 1972-1973.

Eftirlifandi eiginkona Elíasar er Anna Kristín Brynjúlfsdóttir, rithöfundur og fyrrverandi latínu- og stærðfræðikennari. Synir þeirra eru þrír og barnabörnin fjögur.