Hulda Guðrún Filippusdóttir fæddist 29. júní 1924. Hún lést 29. mars 2022. Hulda var jarðsungin 7. apríl 2022.

Nú er hún föðursystir mín farin í stóra ferðalagið til sumarlandsins. Þar getur hún haldið áfram að hlúa að blómunum með honum Árna sínum. Á tímum eins og þessum hrúgast minningarnar að. Foreldrar mínir og við systur þrjár, amma og afi og Hulda frænka bjuggum öll í Selási 3, húsinu sem afi reisti fyrir fjölskylduna. Ein fyrsta minning mín, en þá var ég þriggja ára, en þá var Gunna ljósa komin í húsið því frænka var að fara að fæða. Ég stóð niðri í holi og beið eftir að heyra hvort ég fengi frænku eða frænda en það urðu tvær frænkur sem skírðar voru Guðrún og Kristín eftir ömmum sínum.

Það var alltaf mikið um að vera því stórfjölskyldan kom oft í kaffisopa, pönnukökur og kleinur til ömmu og afa. Hulda frænka sagði okkur frænkum margar sögur.

Ein sagan er mér mjög minnisstæð. Sagan var um tígulega álfkonu í bláum síðum kjól sem bjó í klettahæðinni. Hún hengdi hvítan þvott út á snúru. Stóð ég mig oft að því að horfa upp í hæðina og athuga hvort ég sæi hana.

Þegar ég óx úr grasi fór Hulda að taka mig með í skíðaferðir upp í Jósepsdal og man ég líka eftir skemmtilegri sumarferð í Landmannalaugar þar sem við gengum m.a. á Löðmund. Ég var með frænku þegar hún kynntist Árna sínum en það hafði nauðlent sviffluga uppi á flatlendinu í Bláfjöllum og flugbjörgunarsveitin mætti til að bjarga flugunni og var frænka stödd á Sandskeiðinu og tók Árni að sér að hjálpa okkur frænku upp skarðið í Jósepsdalnum en þar var flugunni komið niður.

Hulda og Árni byggðu sitt hús í Hlaðbænum en þar komu þau upp margverðlaunuðum skrúðgarði.

Þar fæddust börn þeirra tvö, Guðbjörg og Árni Þór. Þau voru mikið ferðafólk og ferðuðust mikið um landið sitt Ísland og fengu börn þeirra þennan áhuga beint í æð.

Hulda frænka var ótrúlega heilsuhraust og hafði eiginlega aldrei lagst inn á sjúkrahús fyrr en hún var komin á síðasta kaflann á lífsgöngu sinni. Hún var mér mikill mentor því þegar ég hafði stofnað heimili þá bjuggum við saman í Selásnum og kenndi hún mér að elda og baka og leiðbeindi mér um margt annað. Ég þakka henni samfylgdina og sendi börnum, tengdabörnum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristín Sjöfn Helgadóttir.

Það var ósjaldan sem auglýst var að garðurinn að Hlaðbæ 18 í Árbæjarhverfi hjá Huldu og Árna væri opinn almenningi á garðaskoðunardegi Garðyrkjufélags Íslands. Áhugasamir gróðurræktendur flykktust hundruðum saman í garðinn til að gleðja auga og ylja hjarta.

Fólk var komið saman til að skoða og fræðast enda alltaf margt að sjá. Tegundafjöldi mikill, margar fáséðar plöntur, skemmtilegt litaval og ræktun í gróðurskála. Góð nærvera þeirra hjóna færði manni ró og gleði í yndislegum garði.

Ég hef þekkt Huldu frá því að ég man eftir mér. Hulda og Árni voru góðir félagar foreldra minna en það voru skíði og fjallamennska sem sameinaði þau. Ef nafn Huldu bar á góma fylgdi alltaf nafn Árna Kjartans á eftir og svo öfugt. Þau hjón voru samrýn en Árni féll frá árið 2017.

Þegar ég tók að starfa hjá Garðyrkjufélagi Íslands, fyrst sem formaður 1999 og síðar starfsmaður, varð ég svo lánsamur að fá að kynnast þeim hjónum upp á nýtt og þá í gegnum blómin. Við fórum saman í fjölda ferða til að skoða garða á vegum félagsins eða sátum fræðslufundi og þá fann maður hve vel þau nutu sín og voru þekkt meðal garðyrkjufólks. Fyrir tæpum þremur árum fór ég í síðasta sinn með Huldu í hópferð og þá um Suðurnesin til að skoða garða og aðra menningarstaði.

Þrátt fyrir háan aldur gaf hún okkur sem vorum talsvert yngri lítið eftir í yfirferð um garðana og dáðist ég að elju hennar og þrautseigju að taka þátt í krefjandi ferð frá morgni og fram á kvöld. Hún sótti sér fróðleik í ferðinni og miðlaði jafnframt af sinni þekkingu og reynslu til annarra.

Hulda var mjög mikil ræktunar- og blómakona. Hún vann mikilvægt starf við eflingu garðræktar í landinu og á miklar þakkir skilið. Hulda og Árni fengu heiðursmerki Garðyrkjufélags Íslands árið 2013.

Nú er Hulda hans Árna Kjartans fallin frá og það verður án efa spennandi að fá að komast í garðaskoðun hjá þeim hjónum í öðrum heimi þegar að því kemur.

Ég færi fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristinn H. Þorsteinsson.