Ellefu Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu í Bregenz og hefur nú skorað 268 mörk í 88 landsleikjum fyrir Ísland.
Ellefu Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu í Bregenz og hefur nú skorað 268 mörk í 88 landsleikjum fyrir Ísland. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2023 Gunnar Egill Daníelsson gunnaregill@mbl.

HM 2023

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik kom sér í prýðisstöðu í umspilinu um laust sæti á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi með fjögurra marka sigri gegn Austurríki, 34:30, í fyrri leik liðanna sem fór fram í Bregenz í Austurríki í gær.

Ísland var með undirtökin stærstan hluta leiksins, leiddi til að mynda með fimm mörkum í hálfleik, 18:13, og komst mest sjö mörkum yfir um miðjan síðari hálfleik, 27:20. Þá fór að vísu í hönd afleitur kafli hjá íslenska liðinu þar sem Austurríki skoraði sjö mörk á móti einu hjá Íslandi og minnkaði þannig muninn niður í aðeins eitt mark, 28:27. Vondri skotnýtingu Íslendinga í dauðafærum og slökum varnarleik var þar mest um að kenna.

Bjarki skoraði ellefu mörk

Það sem stefndi í að verða afskaplega þægilegur sigur Íslands varð því að ansi snúinni rimmu. Sem betur fer tók íslenska liðið sig þó saman í andlitinu, sleit sig aftur vel frá Austurríkismönnum og vann flottan sigur. Vinstri hornamaðurinn Bjarki Már Elísson fór á kostum í liði Íslands og skoraði 11 mörk, þar af átta úr jafnmörgum skotum í fyrri hálfleik. Óðinn Þór Ríkharðsson lét þá vel að sér kveða er hann leysti Sigvalda Björn Guðjónsson, sem er meiddur, af hólmi í hægra horninu og skoraði sjö mörk.

Björgvin Páll Gústavsson kom inn á undir lok síðari hálfleiks, stóð sig prýðilega og varði alls sjö skot. Markvarsla og varnarleikur íslenska liðsins var þó á heildina litið ekki sem bestur en sóknarleikurinn gekk hins vegar að langmestu leyti vel upp. Helst náðu Austurríkismenn að loka á stórskyttuna Ómar Inga Magnússon, sem skoraði minna en hann á að sér, en hann brást einfaldlega við því með því að leggja upp nokkur mörk fyrir liðsfélaga sína ásamt því að skora þrjú mörk.

Síðari leikur liðanna fer fram næstkomandi laugardag, 16. apríl, á Ásvöllum. Ef mið er tekið af leiknum í gær má ljóst má þykja að Ísland er með talsvert sterkara lið en Austurríki. Slaki Íslendingar hins vegar eitthvað á þar sem of mikil linkind er sýnd í vörninni og nokkur dauðafæri í röð klúðrast, líkt og gerðist á afar slæmum kafla í síðari hálfleik í gær, gefur það þó augaleið að hættunni yrði boðið heim.

Þarf að laga varnarleikinn

Líklegra þykir mér þó að Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari muni vinna hörðum höndum að því að lagfæra það sem aflaga fór í leiknum. Guðmundur talaði enda í þá veru í samtali við mbl.is í gær, sagði Íslendinga hafa verið of passíva á köflum í vörninni þar sem Austurríkismenn fengu of auðveld skot fyrir utan og úr hægra horni.

Verði það lagfært og takist að losa aðeins meira um Ómar Inga í sókninni ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Ísland sýni fram á góða frammistöðu á laugardaginn, nái fram góðum úrslitum fyrir fullum Ásvöllum og tryggi sér þar með sæti á HM í sjöunda skiptið í röð.

AUSTURRÍKI – ÍSLAND 30:34

Bregenz, umspil fyrir HM karla, fyrri leikur, miðvikudag 13. apríl 2022.

Gangur leiksins : 1:2, 4:5, 8:8, 9:12, 11:16, 13:18 , 15:21, 19:24, 20:27, 27:28, 28:31, 30:34 .

Mörk Austurríkis : Nikola Bilyk 6, Boris Zivkovic 6, Julian Ranftl 5, Lukas Hutecek 4, Robert Weber 4/2, Tobias Wagner 3, Sebastian Frimmel 2/1.

Varin skot : Ralf Häusle 6, Constantin Möstl 5.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk Íslands : Bjarki Már Elísson 11/4, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Aron Pálmarsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Ómar Ingi Magnússon 3, Elvar Örn Jónsson 1, Elvar Ásgeirsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Janus Daði Smárason 1.

Varin skot : Björgvin Páll Gústavsson 7/1, Viktor Gísli Hallgrímsson 2.

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Dejan Markovic og Marko Boricic, Serbíu.

Áhorfendur : 2.000.