Ég væri til í að sjá skilnaðartíðnina hjá íslenskum dómurum í stærstu boltagreinunum. Lykillinn að góðu hjónabandi eða ástarsambandi yfirhöfuð er að gefa aðeins eftir og þá sérstaklega þora að viðurkenna mistök.
Ég væri til í að sjá skilnaðartíðnina hjá íslenskum dómurum í stærstu boltagreinunum. Lykillinn að góðu hjónabandi eða ástarsambandi yfirhöfuð er að gefa aðeins eftir og þá sérstaklega þora að viðurkenna mistök. Það eru ekki margir dómarar sem þora að viðurkenna eigin mistök. Á ennþá eftir að hitta hann held ég.

Ég er alltaf að viðurkenna mistök heima fyrir. Aðallega þegar ég þarf að vera aðeins lengur í vinnunni en ég ætlaði mér. Samband mitt við sambýliskonu mína er líka mjög gott og það er lítið vesen.

Kannski þurfa íslenskir dómarar að lúffa svo mikið heima fyrir að þeir fá mikilmennskubrjálæði þegar komið er inn á keppnisvöllinn. Öll gremjan sem þeir upplifa heima fyrir brýst út þegar einhver leikmaður eða þjálfari úti í bæ vogar sér að véfengja ákvörðun þeirra.

Ég vona samt að fólk sem les þetta sé ekki að taka mig of alvarlega né þessa pælingu. Einn af mínum betri vinum er knattspyrnudómari og hann er bara hinn besti dómari, þótt hann sé ekki mikið að viðurkenna eigin mistök, en það á jafnt við um dómgæsluna og varnarmistök í tölvuleiknum FIFA.

Vissulega gefur þessi Bakvörður öðrum fjölmiðlum tækifæri til þess að skrifa brakandi frétt sem myndi vafalaust snúa að því að „blaðamaður Morgunblaðsins hati íslenska dómara“. Það er alls ekki þannig. Þetta er meira bara létt áminning klædd í, vonandi, ágætlega kómískan búning.

Enginn dómari , enginn leikur. Úrslitakeppnin er í fullum gangi í körfunni og að hefjast í handboltanum. Fótboltinn er líka að byrja og þetta er skemmtilegasti tími ársins fyrir íþróttaunnendur. Dómararnir eru risastór hluti af leiknum en þeir eiga ekki að vera í aðalhlutverki.