Guðný Björnsdóttir fæddist 20. júlí 1925. Hún lést 25. mars 2022. Útför hennar fór fram 12. apríl 2022.

Ég kveð elsku mömmu með miklum trega og söknuði um leið og ég gleðst yfir því að hún hafi loks fengið að kveðja okkur. Hún var svo tilbúin að fara og hitta fólkið sitt hinum megin. Það var erfitt að horfa upp á mömmu síðustu árin svona stolta og sjálfstæða upp á aðra komna, það var ekki alveg hennar stíll. En hún tók þessu öllu með jafnaðargeði og léttri lund. Mamma ólst upp á Ísafirði til 7 ára aldurs en fluttist þaðan eftir andlát föður hennar til Akureyrar með móður sinni og Magga bróður. Mamma sagði okkur margar sögur frá æsku sinni, minnisstæðust var frásögn hennar af Magga sem svaf í kommóðuskúffu og Ídu ráðskonu sem ekki þorði að sofa ein og gisti uppi í hjá þeim vegna myrkfælni. Mamma vann lengi á Símstöðinni á Akureyri og eignaðist hún þar margar góðar vinkonur sem að héldu hópinn alla tíð. Mamma kynntist pabba á Símstöðinni á Akureyri þegar hann kom þangað í afleysingar. Þau bjuggu á Seyðisfirði í eitt ár en fluttu svo til Reykjavíkur. Við erum sex systkinin og ólumst við upp á Laugarnesvegi 102, 4. hæð til vinstri. Í hverri íbúð í stigaganginum voru fjölskyldur með 3-6 börn. Ég minnist mömmu í hagkaupsslopp, sýsla í eldhúsinu, fara niður til Emmu og Kristrúnar í kaffi og setja rúllur í hárið. Mamma varð ekkja 56 ára gömul og bjuggum við systurnar þá hjá henni. Mamma hóf störf á leikskólanum Laugaborg eftir andlát pabba og vann hún þar til sjötugsaldurs. Mamma var trúuð, starfaði í kvenfélagi Laugarneskirkju og sat þar heillengi í stjórn. Einnig sótti hún flestar athafnir í Laugarneskirkju eins lengi og hún gat. Mamma naut þess að taka þátt í kirkjustarfinu og hefði örugglega sungið í kórnum ef hún hefði ekki verið með öllu laglaus. Hún lét það þó ekki aftra sér að syngja börn sín og barnabörn í svefn og sá söngur er greyptur í minni okkar allra. Mamma var einstök með mikið jafnaðargeð og oftast í góðu skapi, en auðvitað fékk maður alveg að heyra það ef henni misbauð. Mamma var sjálfstæðiskona, kaus og vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn alla tíð. Helstu deilur okkar mömmu voru tengdar pólitík en á unglingsárum mínum snerust deilur okkar oft um klæðaburð minn. Flóin var ekki í eins miklu uppáhaldi hjá henni og dótturinni. Mamma flutti í Strandasel 3 þegar hún gat ekki lengur gengið upp stigana á Laugarnesveginum og þar hélt hún þeirri hefð áfram að bjóða sístækkandi fjölskyldunni í bollu- og aðventukaffi. Mamma var mjög félagslynd og þegar hún flutti í þjónustuíbúð í Norðurbrún stofnaði hún gönguhóp sem hittist daglega á röltinu, inn á milli hvíldu þau sig og þá var stundum dreginn upp peli. Mamma las mikið og krossgátur voru hennar yndi. Hún elskaði að fara í leikhús, og átti hún lengi vel leikhúsvinkonu en þegar hún féll frá, tókum við dóttir mín við keflinu. Þegar hún gat ekki lengur farið sjálf í leikhúsið þá fylgdist hún vel með og hafði gaman af að hlusta á gagnrýni á leikverkum. Mamma tók mikinn þátt í uppeldi dóttur minnar og var mín stoð og stytta alla tíð. Elsku mamma, nú ertu komin á góðan stað. Guð blessi þig.

María Ingibjörg.