Guðni Einarsson Eggert Skúlason Sú bylgja Ómíkron-afbrigðis nýju kórónuveirunnar sem nú stendur yfir er enn á mikilli niðurleið hér á landi, að sögn sóttvarnalæknis. Þetta gerist þrátt fyrir að engar opinberar sóttvarnir hafi verið í gildi frá 25.

Guðni Einarsson

Eggert Skúlason

Sú bylgja Ómíkron-afbrigðis nýju kórónuveirunnar sem nú stendur yfir er enn á mikilli niðurleið hér á landi, að sögn sóttvarnalæknis. Þetta gerist þrátt fyrir að engar opinberar sóttvarnir hafi verið í gildi frá 25. febrúar sl. Daglega greinast nú um 100-200 manns sem skýrist að einhverju leyti af færri teknum sýnum en áður.

„Aðalástæða færri smita nú en áður er líklega sú, að í íslensku samfélagi hefur náðst víðtækt ónæmi gegn Covid-19 eða svokallað hjarðónæmi. Víðtækt ónæmi hefur fyrst og fremst náðst vegna útbreiddra smita í samfélaginu en einnig vegna góðrar þátttöku í bólusetningum. Bólusetning kemur fyrst og fremst í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum Covid-19 og hefur útbreidd bólusetning þannig gert okkur kleift að standast útbreiddan faraldur með lágmarks alvarlegum afleiðingum,“ segir í frétt sóttvarnalæknis.

Til þessa hafa um 184.000 manns greinst með Covid-19 hér á landi. Líklega hafa enn fleiri smitast án þess að greinast. Sóttvarnalæknir hefur staðið fyrir mælingum á mótefnum gegn Covid-19 í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu (ÍE) til að kanna raunverulega útbreiðslu smita. Fyrri kannanir bentu til þess að allt að tvöfalt fleiri hefðu í raun smitast en greindust. Ný rannsókn sóttvarnalæknis og ÍE stendur yfir á höfuðborgarsvæðinu á mótefnastöðu. Niðurstöður eru væntanlegar á næstu vikum.

Þótt staða faraldursins sé nú góð hér á landi ríkir nokkur óvissa um þróun hans á næstu mánuðum.

Heilaþoka, mæði og verkir

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, segir að ekki liggi fyrir staðfestar tölur um fjölda þeirra sem glíma við langvinn einkenni eftir Covid-smit, þar á meðal heilaþoku, skort á einbeitingu, mæði, skert starfsþrek o.fl. Aðrir finna til verkja eins og t.d. liðverkja, staðbundinna verkja, höfuðverks og sársaukastingja. Hann telur að þessi hópur geti verið 10-15% þeirra sem smitast.

Þetta kemur fram í viðtali við Stefán í Dagmálum. Þátturinn í heild er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is.