[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alberta A. Tulinius fæddist 14. apríl 1952 í Bolungarvík en ólst upp í Neskaupstað og á Eskifirði til fermingaraldurs en flutti þá til Reykjavíkur með foreldrum sínum og systrum.

Alberta A. Tulinius fæddist 14. apríl 1952 í Bolungarvík en ólst upp í Neskaupstað og á Eskifirði til fermingaraldurs en flutti þá til Reykjavíkur með foreldrum sínum og systrum.

„Ég er ættuð að vestan en kjörafi var Marsellíus Bernharðsson skipasmiður sem þekktur var víða um land á sínum tíma. Kristján afi fórst með mótorbátnum Rask þegar mamma var á öðru ári. Amma Alberta átti þá þrjú börn en tók saman við Marsellíus sem gekk börnunum í föðurstað. Saman eignuðust þau 10 börn en misstu tvö á unga aldri.

Ég er einnig ættuð úr Reykjavík og Danmörku en þaðan kemur Tulinius-nafnið. Afi minn Hallgrímur Axel var kaupmaður í Reykjavík en hann missti ömmu Hrefnu í hræðilegu bílslysi þegar pabbi var 10 ára og afleiðingar slyssins settu mikinn svip á fjölskylduna um ókomin ár.

Ég ólst upp á ástríku heimili með þremur systrum en við misstum föður okkar of fljótt því hann dó aðeins 58 ára gamall. Mamma varð ekkja 53 ára en stóð sig eins og hetja að halda fjölskyldunni saman og tók virkan þátt í öllu sem gerðist. Hennar er sárt saknað.“

Alberta lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1968 og hóf nám í Kennaraskóla Íslands sama ár. Hún útskrifaðist sem kennari 1972 og starfaði sem kennari í Eskifjarðarskóla skólaárið 1972-73. Skólaárið eftir vann hún sem stundakennari í Laugarnesskóla og í æskulýðsstarfi í Bústaðakirkju. Árið 1974 flutti hún til Egilsstaða og réð sig sem kennara við Egilsstaðaskóla. Næstu tuttugu og sjö árin starfaði hún við skólann sem umsjónarkennari. „Starfsárið 1989-90 fylgdi ég eiginmanni mínum í námsleyfi hans til Reykjavíkur og var það ár textílkennari í Álftamýrarskóla.“

Sumarið 2001 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur og varð Alberta þá umsjónarkennari við Laugarnesskóla. Fljótlega eftir flutninginn suður fór hún í framhaldsnám í sérkennslu. Árið 2010 lauk hún meistaranámi í sérkennslu en hafði áður tekið við starfi sem deildarstjóri í sérkennslu við skólann. „Síðastliðið vor lauk ég formlega störfum við skólann en starfa við lestrargreiningar í skólanum á yfirstandandi skólaári.“

Alberta hefur unnið að ýmsum félagsmálum, aðallega að barnaverndar- og jafnréttismálum en einnig komið að störfum fyrir kennarastéttina. Hún sat í stjórn Kennarasambands Austurlands og sat þing og ráðstefnur á vegum Kennarasambands Íslands.

Helstu áhugamál Albertu tengjast uppeldis- og kennslumálum. „Framtíð íslenskunnar og velferð barna eru mér hjartfólgin. Heilbrigt líferni og umhverfismál skipa líka stóran sess í mínu lífi. Ég hef mikla ánægju af að lesa góðar bókmenntir og nýti mínar frístundir í lestur og listsköpun.

Það vill til að í fyrrinótt, 13. apríl, eignuðust yngri sonur minn, Stefán Þór og tengdadóttir mín, Karen María, son. Á morgun, föstudaginn langa, á Karen María líka stórafmæli en hún verður þrítug. Við erum því þrjú í stórfjölskyldunni sem eigum afmæli í röð, 13., 14. og 15. apríl.

Jafnframt eru í ár liðin 50 ár frá því ég hóf störf við kennslu og við Helgi eigum sömuleiðis 50 ára brúðkaupsafmæli. Við byrjuðum saman þegar ég var 13 ára og hann 14 ára, en við kynntumst á jólaballi hjá Kvenfélaginu á Eskifirði. Það er eiginlega meira afrek að vera í hjónabandi í hálfa öld heldur en að vera kennari í 50 ár. En hvort tveggja hefur gengið vel og verið skemmtileg lífsreynsla.“

Fjölskylda

Eiginmaður Albertu er Helgi Halldórsson, f. 22.4. 1951, fyrrverandi skólastjóri. Þau eru búsett í Goðatúni í Garðabæ. Foreldrar Helga voru hjónin Halldór Friðriksson, f. 5.11. 1918, d. 7.1. 2009, framkvæmdastjóri, húsvörður, kvikmyndasýningarstjóri, sjómaður og fleira, og Þóra Magnea Helgadóttir, f. 15.2. 1915, d. 17.5.1988, húsmóðir og verkakona. Þau bjuggu saman allan sinn búskap á Eskifirði.

Börn Albertu og Helga eru 1) Axel Hrafn, f. 6.7. 1973, deildarstjóri hjá Jónum Transport, búsettur í Garðabæ. Maki: Margrét Þorleifsdóttir, f. 25.5. 1974, kennari og flugfreyja. Synir þeirra eru Helgi Hrafn, f. 2002, Hlynur, f. 2006, og Hilmir, f. 2009; 2) Þóra Magnea, f. 5.5. 1981, félagsráðgjafi, búsett í Reykjavík. Maki: Guðmundur Þorkell Guðmundsson, f. 28.5. 1979, ráðgjafi hjá PwC. Börn þeirra eru Berta María, f. 2008, og Guðmundur Axel Þorkelsson, f. 2013; 3) Stefán Þór, 19.2. 1989, sviðsstjóri hjá Ríkiskaupum, búsettur í Kópavogi. Maki: Karen María Magnúsdóttir, f. 15.4. 1992, vörustjóri hjá Kaptio. Synir þeirra eru Bjarki Steinn, f. 2019, og óskírður, f. 2022.

Systur Albertu eru Hrefna Tulinius, f. 31.10. 1950, kennari, búsett í Kaupmannahöfn; Guðrún Halla Tulinius, f. 7.4. 1954, kennari, búsett í Reykjavík, og Helga Tulinius, f. 11.7. 1955, jarðeðlisfræðingur, búsett í Reykjavík.

Foreldrar Albertu voru hjónin Áslaug Kristjánsdóttir Tulinius, f. 30.5. 1923, d. 9.10. 2012, lengst af húsfreyja en vann einnig sem skólaliði og verslunarmær, og Axel Valdimar Tulinius, f. 4.4. 1918, d. 22.11. 1976, lögfræðingur og starfaði lengst af sem bæjarfógeti og sýslumaður. Þau bjuggu í Bolungarvík, Neskaupstað, á Eskifirði og í Reykjavík.