Rússland, Rússakjarninn og evrópska sléttan.
Rússland, Rússakjarninn og evrópska sléttan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jónas Elíasson: "Að baki innrás Rússa í Úkraínu er gömul og úrelt heimspólitísk kenning sem Stalín gamli hélt upp á."

Í greininni Vandi Pútíns 7.4. '22 í Mbl. var gerð grein fyrir orsökinni fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Tæplega er vafi á að það sem þar er sagt er ástæðan fyrir tímasetningu innrásarinnar. En ýmis atriði í heimspólitíkinni benda til að innrásin hefði komið fyrr eða síðar. Sú skoðun byggist á heimspólitík, eða „geópólitík“ sem var vinsæl fræðigrein hér áður og fyrrum.

Í þessari fræði er lítt þekkt kenning, svokölluð „Heartland theory“ eða miðsvæðiskenningin eftir Bretann Halford John Mackinder frá 1904. Þar er heiminum skipt í heimseyjuna (World Island), sem er Evrópa, Asía og Afríka, svo eru Bretland og eyjaklasinn í Suðaustur-Asíu (Japan, Indónesía, Filippseyjar o.fl.), kallað strandeyjar (Offshore Islands), en afgangurinn af heiminum er kallaður úteyjar (Ameríka, Ástralía o.fl.). Sjálf kenningin er að sá sem ræður miðsvæðinu, sem er í aðalatriðum Rússland og Austur-Evrópa, geti stjórnað heimseyjunni og þar með ráðið heiminum öllum.

Þessi kenning er líklega sprottin upp úr Krímstríðinu 1853-1856. Hún hljómaði ágætlega 1904 en er auðvitað tómt bull miðað við heimspólitíska stöðu og hernaðarmátt ríkja dagsins í dag. Hún væri gleymd og grafin ef ekki væri fyrir þann mann sem var kallaður af fylgismönnum sínum vinur okkar allra, Jósef Stalín.

Leið til heimsyfirráða

Miðsvæðiskenningin passaði Stalín mjög vel. Hann fékk Austur-Evrópu á silfurfati á fundi sínum með Churchill í Moskvu í október 1944. Þá réð hann miðsvæðinu og var því í stöðu til að tryggja sér heimsyfirráð, og ekki er annað hægt að segja en hann hafi gert sitt besta. En úteyjarnar, sem áttu ekki að ráða neinum úrslitum samkvæmt hinni upprunalegu kenningu, stöðvuðu hann. Krakkarnir eiga orðtæki fyrir þetta, en það er ekki prenthæft í virðulegu blaði allra landsmanna.

Herfræði Rauða hersins

Rauði herinn er alinn upp við þessa kenningu og einvaldar Rússlands eftir Stalín erfðu hana. Til viðbótar kemur herfræðileg staða miðsvæðisins. Þar skiptir sköpum evrópska sléttan sem myndin sýnir. Eftir henni hafa allir herir sem hafa ráðist inn í Rússland farið; víkingar Garðaríkis, Gústaf Adolf Svíakóngur, Napóleon Bónaparte og Adolf Hitler.

Evrópska sléttan byrjar sem græna svæðið á myndinni, hún er svo með brúnum lit í Rússlandi sjálfu. Norðurmörk hennar eru Eystrasaltið, suðurmörkin Karpatafjöllin og Svartahafið. Ef Rússland þarf að verja landamæri sín í vestri fyrir herjum frá Evrópu þá er varnarlínan milli græna og brúna svæðisins 2.000 kílómetra löng. En inni á græna svæðinu er lítill rauður blettur. Það er Kalíníngrad, sem tilheyrir Rússlandi. Fjarlægðin þaðan og suður í Karpatafjöll er ekki nema 600 kílómetrar, og sú varnarlína styttist niður í 400 kílómetra ef Pólland væri með í miðsvæðinu eins og það var undir Stalín.

Varnir Rússlands

Það er skiljanlegt að rússneskir herforingjar hafi áhyggjur af þessu. Til að bæta gráu ofan á svart er Rússakjarninn (Russian Core) á myndinni það svæði sem helst þarf að verja, þar er mestallur iðnaður Rússlands og meginhluti fólksins. Rauði herinn barði Hitler til baka og hefði unnið stríðið einn og sjálfur hefðu herir Breta og Bandaríkjamanna (BNA) ekki ráðist inn í Evrópu í júní 1944.

En velgengni rauða hersins varð ekki til af sjálfu sér. Hún varð til vegna láns- og leigulaganna í BNA (Lend-Lease Act). Samkvæmt þeim fóru 78 skipalestir frá Bretlandi og Hvalfirði til Rússlands með bandarísk hergögn til Rússa. Þrisvar sinnum meiri flutningar voru til Vladívostok og með Íransjárnbrautinni. Án þessa hefði Rússum lítið gengið.

Nútímaviðhorf

En í dag er þetta öfugt. Það er Úkraína sem nýtur láns- og leigukjara núna, Rússar ekki. Úkraína hefur fengið t.d. léttar stýriflaugar sem hafa nánast haldið rússnesku vélaherdeildunum niðri svo nú er verið að gera róttæka breytingu á hernaðaráætlun Rússa, héðan í frá verða fallbyssurnar látnar tala. Það þýðir langt stríð og miklar hörmungar.

Það sem hér er sagt ber að þeim brunni að Rússar vilji Úkraínu alla, ekki bara austurhlutann. Hugsanlega eru þeir til í einhverja vopnahléssamninga, en bara til skamms tíma. Þeir munu taka Úkraínu og Transnistríu og Moldóvu ef fram fer sem horfir. Mun einhver koma í veg fyrir það? NATO verður að gera það segja einhverjir. En NATO getur ekkert gert, einhver verður að ráðast á NATO til að NATO geti hreyft sig. Andspyrna úkraínska hersins er aðdáunarverð, en að endingu verða þeir að láta undan síga. Í Rússakjarnanum er miklu meiri kraftur en hjá þeim. Til Rússlands er mikið streymi fjármagns, því ESB er ennþá í vandræðum með að finna sinn stað í veröldinni og eys peningum í Rússa í skiptum fyrir olíu og gas. Rússnesku ólígarkarnir stela því öllu eins og er, Pútín er sjálfur orðinn ríkasti maður heims á þeim viðskiptum að sumir telja. En til að ná í skottið á ólígörkum Rússlands og peninga þeirra líka getur hann kannski fengið ráðleggingar hjá ríkisstjórn Íslands, um hvernig á að semja neyðarlög sem halda fyrir erlendum dómi, eins og gert var hér 2008.

Höfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com