Þuríður Júlíusdóttirfæddist á Hellissandi 25. febrúar 1933. Hún lést 24. mars 2022 á Hrafnistu Sléttuvegi 25.

Foreldrar Þuríðar voru Júlíus Alexander Þórarinsson, sjómaður og verkalýðsforingi á Hellissandi, f. 1889, d. 1964 og Sigríður Katrín Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 1895, d. 1969. Börn þeirra voru fimm: Jón, Guðmundur, Hrefna, Þuríður og Þórður en Þuríður var ein eftirlifandi þeirra systkina. Eina hálfsystur átti Þuríður, Lilju Jónsdóttur.

Árið 1958 giftist Þuríður Grétari Hinrikssyni og eignuðust þau þrjá syni: Hinrik, f. 1956, Eldór, f. 1957, sem er látinn, og Sigurð, f. 1959.

Fyrir átti Þuríður dótturina Ólöfu Bettý, f. 1951. Barnabörnin eru 7 og barnabarnabörnin eru 10.

Þuríður ólst upp á Sólheimum á Hellissandi og byrjaði snemma að vinna fyrir sér í vist og þrifum. Hún fór ung frá Hellissandi að vinna fyrir sér aðeins 16 ára. Hún vann ýmis störf m.a. á veitingastöðum, saumastofu á hóteli á Siglufirði og í frystihúsi í Innri-Njarðvík. Einnig bjó hún í Eyjafirðinum í nokkur ár.

Þuríður flutti með fjölskyldunni til Svíþjóðar 1970 og vann við heimilisþjónustu. Keypti litla fiskbúð í Orsa og bjó til ólíka fiskrétti. Fjölskyldan bjó á hinum ýmsu stöðum þar í landi.

Þuríður menntaði sig í vinnu fyrir geðfatlaða þá í Malmö. Kunni hún því starfi vel.

Fjölskyldan flutti aftur til Íslands 1986 og sótti hún sér þá réttindi í sjúkraliðanum og vann áfram við að sinna geðfötluðum á Hringbraut til 68 ára aldurs.

Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Mamma mín sofnaði svefninum langa 89 ára að aldri.

Hún átti við veikindi að stríða síðustu æviárin. Mamma var ekki aðeins mamma mín heldur einnig besti vinur minn. Hún var yndisleg amma, full af ást og umhyggju. Mamma mátti ekkert aumt sjá og var hjarta hennar stórt og fallegt og umhyggja fyrir öllum.

Við ferðuðumst víða og alltaf var skemmtilegt og gott að vera nálægt henni. Ýmis óvænt atvik komu upp sem gerðu ferðirnar minnisstæðar.

Hún var ein af þeim sterkustu, duglegustu og sjálfstæðustu manneskjum sem ég hef kynnst á ævinni. Hún vildi alltaf vera fínt klædd, með varalit og ilmvatn enda glæsikona þar á ferð.

Hún elskaði matarboð og bauð oft í veislur og þá var ekkert til sparað. Hún var sannarlega mikil félagsvera.

Mamma mín, ég kveð þig að þessu sinni með þeim orðum sem alltaf voru sögð og einnig þau síðustu sem þú gast sagt síðasta daginn sem þú lifðir: Love you.

Lífið verður fátækara núna án þín. Takk fyrir allt.

Þín dóttir,

Ólöf Bettý.

Elsku amma mín. Ég mun aldrei gleyma gleði þinni, hjartahlýjunni og innilegu knúsunum þínum. Það að vera í kringum þig var alltaf fjör og gaman, ást og samvera og þú varst kletturinn minn þegar ég þurfti á að halda. Alltaf til staðar, hlustaðir og gafst góð ráð og endalaust af ást.

Ég mun aldrei gleyma þegar við fífluðumst og dönsuðum þangað til við grétum úr hlátri hvort sem það var á Spáni eða á elsku Hlíðarveginum í Kópavogi. Ég man ófáar ferðir okkar á markaðina í Taílandi að skoða endalaust glingur og dót sem við þurftum alls ekkert á að halda, en samt, þú gast ekki staðist það því þú elskaðir allt sem glitraði og var af gulli. Þú keyptir nánast allan lagerinn af plastblómum af götusalanum þegar hann stoppaði hjá okkur á veitingastaðnum eitt kvöldið þar og ég held hann hafi brosað alla leiðina heim til sín.

Það var endalaust gaman að koma þér á óvart því viðbrögðin þín og gleðin voru stórkostleg að upplifa og góðu minningarnar eru endalausar og yndislegar og mun ég alltaf bera þær í hjarta mínu.

„Love you too, amma Lou.“

Þótt ég sé látinn harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, sál mín lyftist upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur. Og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Höf. óþekktur)

Rebecca og fjölskylda.

Þura frænka, ömmusystir mín, var ein af uppáhaldsfrænkum mínum, orkumikil, hress og kát. Þegar ég var lítil í heimsókn hjá ömmu bað ég ömmu oft um að hringja í Þuru til að bjóða henni í heimsókn svo þær gætu farið „að leika“. Ekki var um hefðbundinn leik að ræða heldur settu þær amma á svið heilu leikþættina þegar þær rifjuðu upp gamlar minningar og léku atriði úr eigin lífi eða komu með hinar bestu eftirhermur af hinum og þessum, svo skellihlógu þær báðar og við öll með. Þura frænka var með æðislegan hlátur og svo gaman að hlæja með henni.

Þura var líka óspör á hrósið, einhvern tímann þegar við maðurinn minn komum að sækja hana sagði hún eitthvað á þessa leið: „Mikið er þetta æðislegur bíll, en hvað þetta er fallegt mælaborð, en hvað þú ert frábær bílstjóri.“ Samantekið á blaði virkar þetta e.t.v. kómískt eða innantómt en svona var Þura, hún var óspör á lýsingarorðin og jákvæð með eindæmum. Því sá ég mikið eftir þegar heilsu hennar hrakaði, en þá varð stundum erfiðara fyrir hana að halda þessari jákvæðni.

Á háskólaárum mínum var ég svo heppin að búa við hliðina á henni og þótti mér vænt um að geta leitað til hennar og kynnst henni betur.

Þegar litið er yfir æviskeið Þuru er ekki annað hægt en að dást að þrautseigju hennar, hún var algjör nagli, hugrökk og dugleg þrátt fyrir allskyns mótlæti. Samt sem áður kom það mér á óvart að hún skyldi á áttræðisaldri skella sér í fallhlífarstökk en þegar ég spurði hana hvernig hefði verið svaraði hún: „Æðislegt en alltof stutt.“

Ég kveð þig með þakklæti í huga fyrir fallegar og góðar minningar, elsku frænka. Takk fyrir sögurnar og hláturinn, þú varst æðisleg eins og lýsingarorðin þín. Þið amma getið nú slegið upp leiksýningu og hlegið saman á ný.

Halla Tinna Arnardóttir

Þura frænka var alltaf glæsileg til fara og Tiger-stíllinn einkennandi hjá henni enda átti hún ófáar slíkar flíkur. Þá fór hún ekki út úr húsi nema að varalita sig. Hún var hrókur alls fagnaðar, elskaði veislur og alltaf tilbúin að taka þátt þar sem var fjör. Þegar hún lýsti einhverju voru lýsingarorðin allsráðandi, allt svo stórkostlegt, æðislegt, glæsilegt og frábært og hún meinti það svo sannarlega.

Þura gladdist alltaf þegar vel gekk hjá fólkinu hennar. Hún bjó í Svíþjóð í um 20 ár en flutti þá heim til Íslands. Öðru hvoru saknaði hún Svíþjóðar en fyrst og fremst barnanna sinna sem þar bjuggu. Í Svíþjóð menntaði hún sig til að vinna með geðveika eins og hún sagði og hóf starfsferil sinn þar. Þegar heim kom munaði Þuru ekki um að bæta menntun sína því sænska menntunin var ekki metin á Íslandi svo hún kláraði sjúkraliðaskólann og vann síðan alla tíð með geðfötluðum og líkaði vel. Þegar hún bjó í Svíþjóð heimsótti ég hana og við þvældumst um og hún lét sig hafa það að fara með mér í rússíbana í Tívolíi í Kaupmannahöfn svo ég færi ekki ein. Allt gerði hún svo við gætum notið dvalarinnar.

Hrefna móðir mín og Þura, systir hennar, voru mjög nánar og mikið stuð þegar þær hittust. Þegar þær lýstu einhverju voru leikrænir tilburðir óspart notaðir og mikið hlegið. Þær gerðu margt saman svo þegar heilsa Hrefnu bilaði missti Þura mikið og einnig þegar vinkonur hennar kvöddu ein af annarri, henni fannst hún vera ein eftir.

Þura naut þess að ferðast bæði innanlands og erlendis. Hún bjó um tíma á Spáni og í Taílandi og líkaði mjög vel. Eftirminnileg er ferð sem við fórum saman til Orlando. Það var mikið ævintýri að heimsækja skemmtigarða og verslunarmiðstöðvar og ferðin ógleymanleg ekki síst vegna hástemmdra lýsingarorða hjá henni því allt var svo æðislegt og frábært. Hún fór einnig til Rio í Brasilíu og fleiri landa en Spánn og sérstaklega Kanarí heillaði hana alltaf og hún hlakkaði til að heyra ferðasögur hjá þeim sem fóru þangað.

Um tíma bjuggum við Þura hlið við hlið á Hlíðarvegi í Kópavogi en þá var oft glatt á hjalla og mikill samgangur milli okkar og borðuðum við oft saman. Síðustu tvö árin dvaldi hún á Hrafnistu á Sléttuvegi en þá hafði heilsu og sjón hennar hrakað svo mikið að hún gat ekki búið áfram í Bólstaðarhlíð þar sem henni leið vel. Hún saknaði þess stundum að hafa flutt úr Kópavogi en þar var heilsan betri og hún gat lifað því lífi sem hún vildi. Hún var alltaf ósátt við að tapa svona sjóninni en þá bjargaði henni að geta hlustað á hljóðbækur, reglulega fékk ég að heyra að ég yrði að lesa þessa eða hina bókina, hún lifði sig svo inn í sögurnar sem hún hlustaði á.

Þuríður er síðust systkina sinna að kveðja þetta jarðlíf. Henni leiddist að vera ein eftir og þráði hvíldina. Síðustu orðin sem hún sagði við okkur Bettý dóttur sína voru „Love you“. Þannig kvaddi hún iðulega okkur nánasta fólkið sitt. Um leið og ég þakka Þuru frænku samfylgdina og óska henni góðrar ferðar í sumarlandið, sendi ég innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. Love you.

Brynja Kristjánsdóttir.