Ennisbraut Gangbraut er við hraðahindrun við grunnskólann í Ólafsvík. Börnin eru öruggari vegna minni hraða.
Ennisbraut Gangbraut er við hraðahindrun við grunnskólann í Ólafsvík. Börnin eru öruggari vegna minni hraða. — Morgunblaðið/Alfons
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Gagnvirk hraðahindrun sem Vegagerðin setti upp á þjóðveginum í gegnum Ólafsvík hefur virkað vel, að mati verkfræðings hjá Vegagerðinni og bæjarstjórans í Snæfellsbæ.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Gagnvirk hraðahindrun sem Vegagerðin setti upp á þjóðveginum í gegnum Ólafsvík hefur virkað vel, að mati verkfræðings hjá Vegagerðinni og bæjarstjórans í Snæfellsbæ. Mjög hefur dregið úr hraða ökutækja sem fara um kaflann en hann er við grunnskólann í Ólafsvík og flestir halda sig vel innan marka um hámarkshraða. Verið er að huga að því að koma slíkum búnaði víðar upp.

Búnaðurinn er sænskur og hefur verið í notkun þar í tólf ár og hefur jafnframt verið komið fyrir víðs vegar um heiminn.

Skynjari á háum staur mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina ef ekið er of hratt. Við það fellur hleri sem búið er að koma fyrir í yfirborði vegarins niður um nokkra sentímetra svo högg kemur á hjól bílsins. Gagnvirk hraðahindrun hefur þann kost umfram hefðbundnari hraðahindranir með upphækkun að ökumenn þurfa ekki að hægja á bílum sínum áður en farið er yfir hindrunina og því hægt að stuðla að jöfnum hraða, að sjálfsögðu innan leyfilegra marka.

Hraðahindrunin í Ólafsvík var sett upp síðastliðið sumar og var virkjuð í haust. Eru hindranir á báðum akreinum á Ennisbraut við grunnskólann í Ólafsvík en Ennisbraut er þjóðvegurinn í gegnum Ólafsvík og til Rifs og Hellissands,

„Búnaðurinn hefur skilað góðum árangri, við erum mjög ánægð með hann. Hann hefur einnig þann kost að hann safnar upplýsingum um umferð og umferðarhraða,“ segir Kristín Halldórsdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, sem unnið hefur að tilraunaverkefninu.

Mælingarnar sýna að aðeins 6% ökutækja aka svo hratt að platan fellur. Það þýðir að 94% allra ökumanna sem fara þarna um aka á löglegum hraða. Þá sýna þær að meðalhraðinn við hraðahindrunina er 37-39 km á klukkustund hjá þeim sem aka í vesturátt, út úr bænum, og 41-45 hjá þeim sem aka í austurhátt en þar liggur leiðin niður brekku. Hámarkshraðinn er 50 km á klukkustund.

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, er sömu skoðunar, segir að hraðahindrunin hafi virkað vel. Hann segir að bæjaryfirvöld hafi viljað ná niður hraðanum á þjóðveginum við grunnskólann, ekki síst vegna öryggis barnanna. Hann segir að búnaðurinn sé áberandi og hafi ákveðinn fælingarmátt. Spurður hvort menn finni fyrir höggi á hjólin þegar þeir aka of hratt tekur Kristinn fram að hann hafi ekki reynt það á sjálfum sér, þeir sem aki á löglegum hraða finni ekki fyrir hindruninni. Kristín kannast ekki við að skemmdir hafi orðið á ökutækjum vegna hraðahindrunarinnar og fyrirtækið sem framleitt hefur þennan búnað frá árinu 2010 hafi engar slíkar tilkynningar fengið.

Til athugunar að setja búnaðinn upp víðar

Hraðahindrun af þessu tagi er dýr og ekki við því að búast að hún komi í stað hefðbundinna hraðahindrana. Búnaðurinn í Ólafsvík kostaði um 16 milljónir króna með uppsetningu og öllu en Kristín telur að áætla megi að framvegis muni kostnaðurinn á hverjum stað verða um 12 milljónir.

Búnaðurinn í Ólafsvík var tekinn á leigu í eitt ár og nú er búið að ákveða að kaupa hann. Verið er að huga að framhaldinu. Kristín telur ekki ólíklegt að slíkur búnaður verði settur víðar upp. Nefnir sem dæmi að starfsmenn Reykjavíkurborgar hafi fylgst með tilrauninni í Ólafsvík.