— Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson
„Ólafur Tryggason, sem er glöggur fuglaskoðari og fylgist vel með fuglalífinu hér í Eyjum, hringdi í mig og sagði að það væri einstaklega skrautleg önd á Daltjörninni,“ sagði Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari í Vestmannaeyjum.

„Ólafur Tryggason, sem er glöggur fuglaskoðari og fylgist vel með fuglalífinu hér í Eyjum, hringdi í mig og sagði að það væri einstaklega skrautleg önd á Daltjörninni,“ sagði Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari í Vestmannaeyjum. Hann dreif sig strax inn í Herjólfsdal og sá þar litfagran mandarínandarstegg. Steggurinn undi sér vel á tjörninni og við hana. Sigurgeir vissi ekki til þess að þessi tegund hafi áður sést á Heimaey.

Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur sagði að mandarínandarsteggir komi oft hingað á vorin, líkt og svartir svanir og fleiri tegundir. Mandarínönd er á stærð við rauðhöfðaönd. Einnig hafa komið kollur og pör en ekki er vitað til þess að þau hafi reynt varp hér. Endurnar eru kínverskar að uppruna og oft hafðar í andagörðum í Bretlandi og víðar. Fuglar sem flækjast hingað hafa líklega sloppið úr haldi í þessum görðum.

gudni@mbl.is