Guðrún María Þorleifsdóttir fæddist 27. október 1930. Hún lést 13. mars 2022. Útför hennar fór fram 25. mars 2022.

Elsku amma mín, Guðrún María, hefur yfirgefið þessa jarðvist. Þann 13. mars 1995 var hún viðstödd fæðingu mína á HSS þegar ég tók minn fyrsta andardrátt. Sléttum 27 árum seinna, þann 13. mars 2022, fékk ég að halda utan um hana þegar hún tók sinn síðasta andardrátt á HSS.

Líf fæðist og líf kveður, þetta er hringrás lífsins. Það er mér mikill heiður að fá að deila þessum degi og stærstu tímamótum lífsins með þér, elsku amma mín.

Amma hafði þann einstaka eiginleika að láta öllum líða vel. Þeir sem heimsóttu ömmu og afa í Hrauntúnið og seinna í Kjarrmóa geta vottað fyrir það að tekið var á móti öllum með opnum örmum, á snyrtilegt heimili og eldhúsborðið yfirfullt af kræsingum. Til ömmu Gunnu var alltaf gott að koma, sama hver bankaði upp á. Amma var alltaf jafn hissa þegar ég bað hana um að gefa mér kaffibolla. Það var sko sannarlega ekki ellin sem spilaði þar inn í, mamma mín og amma hafa átt það sameiginlegt til dagsins í dag að finnast skrýtið að litla stelpan þeirra sé byrjuð að drekka kaffi, þó svo ég sé orðin 27 ára. Amma afsakaði sig líka oft ef sunnudagstertan var ekki nýbökuð. Hún sagði mér oft að ég og Gunni ættum það sameiginlegt að finnast hún bragðast best köld eftir að hafa verið inni í ísskáp og glassúrinn orðinn harður. Þannig fannst mér hún best, amma mín. Það var erfitt fyrir ömmu að gefa afkomendum sínum uppskrift að sunnudagstertunni, uppskriftin var bara „dass af þessu og dass af hinu“. Ég veit að þú fylgist brosandi með okkur öllum keppast við það að ná henni eins og þú gerðir hana, en það kemur með tíma og æfingu. Ég veit að mikilvægasta innihaldsefnið var ástin sem þú settir í hana, amma mín.

Mér eru minnisstæðar allar þær umræður sem teknar voru um hin ýmsu mál í Kjarrmóanum, umræður um fólk í bænum, íþróttir og pólitík svo eitthvað sé nefnt. Afi, ásamt þeim sem voru í heimsókn hverju sinni, héldu samræðunum gangandi á meðan amma var önnum kafin í eldhúsinu, en manneskjan sem vissi alltaf mest um mál málanna var amma. Amma var alltaf með allt á hreinu, sem dæmi mundi hún afmælisdaga allra sem hún þekkti, hún var með nöfn íþróttamanna á hreinu hvort sem það var fótbolti, golf, box eða handbolti og hún hafði mikla skoðun á hæfni þeirra. Það var alltaf bara best að hlusta á ömmu í einu og öllu, allt sem kom úr hennar munni voru staðreyndir. Í hinum ýmsu samræðum sem áttu sér stað í Kjarrmóanum hlustaði hún, fyllti í eyðurnar og leiðrétti staðhæfingar, á meðan hún hellti upp á kaffi og gekk frá í eldhúsinu á sama tíma. Hún var lifandi sönnun fyrir því að konur geta gert fleiri en einn, tvo eða þrjá hluti á sama tíma með heilum hug, og það gerði hún fram að síðasta degi á 92. aldursári.

Það sem einkenndi ömmu var opinn faðmur, hjartahlýja, einstök nærvera, fallegt heimili, hógværð, viska og dugnaður. En nú fá lúnar hendur þínar sem unnið hafa mikið verk í 92 ár loksins að hvílast.

Elsku amma mín, takk fyrir að kenna okkur að elska og takk fyrir að elska okkur öll svona heitt.

Þín nafna,

María Ósk.

Þú valdir fallegan sunnudagsmorgun til að kveðja þessa jarðvist elsku mamma. Falleg fjallasýn í fjarlægð en þannig fannst þér gott að horfa á þau eftir að hafa alist upp með fjöllin í mikilli nálægð við þig.

Fyrsta minningin um þig er þegar þú ert að hjálpa mér og leiðbeina með hlýju röddinni þinni að fara niður tröppurnar á Hrauntúninu.

Allar bænirnar og versin sem þú kenndir mér, ég tala nú ekki um að biðja fyrir öllu og öllum, meira að segja fyrir flugum og köngulóm. Bænastundin okkar gat orðið löng þrátt fyrir mikið annríki hjá þér.

Þú lagðir mikla áherslu á gott íslenskt mál og rétta stafsetningu. Ég man eftir gömlu þreyttu stafsetningarbókinni þinni sem þú fórst í ef þú varst ekki viss um stafsetninguna þegar þú varst að hjálpa mér við námið.

Við urðum trúnaðarvinkonur eftir ferminguna mína og héldum því alla tíð. Eftir skóla kom ég heim, þú sast við eldhúsborðið að gera handavinnu, með þessa hlýju nærveru. Þá voru tekin mörg trúnaðarsamtölin, sum erfið en flest voru mjög góð.

Þú varst ekki alveg viss í þinni sök þegar ég dró Bóa minn með mér frá Mallorca, þangað sem við vinkonur fórum að sóla okkur. Hann átta árum eldri, ég aðeins 18 ára. Hann álitinn villingur úr Sóltúninu, fráskilinn og átti eitt barn. Fljótlega sást þú að þetta var gott val hjá mér og þið pabbi hafið elskað dóttur hans, Ellen Mörk, eins og okkar alla tíð síðan.

Ég bað þig um að vera viðstödd fæðingu yngri barna okkar. Þú varst ekki viss um að þú myndir treysta þér. Mikið varstu ánægð þegar fæðing var yfirstaðin og þú orðið vitni að þessu kraftaverki. Við fæðingu yngsta barnsins var Mæja systir einnig viðstödd og fékk hún nafnið María Ósk í höfuðið á okkur mæðgum.

Hjónaband ykkar pabba var traust, fallegt, ástríkt og tek ég margt þar til fyrirmyndar. Þú heimakær, ástrík, mikil fjölskyldumanneskja, traustur vinur, réttsýn, ljóðelsk og söngelsk. Villi frændi sagði að þú hefðir verið efni í óperusöngkonu, svo falleg fannst bróður þínum rödd þín vera. Pabbi kom með kossa, knús og faðmlög, stríddi þér oft þegar hann var að koma úr hesthúsinu, faðmaði þig og knúsaði því hann vissi að þú þoldir ekki hestalyktina en þú hafðir samt lúmskt gaman af þessu.

Flökkueðlið hans pabba míns sem þú segir að ég hafi erft frá honum mun fylgja mér að eilífu. Fiðrildið í honum fékk ykkur til að ferðast um víða veröld og kynnast undrum alheimsins sem þið þreyttust aldrei á að rifja upp. Það var gaman fyrir okkur systurnar að fá að ferðast með ykkur til Parísar og í siglingu um Miðjarðarhafið. Einnig var dásamlegt að vera með ykkur í sumarhúsi á Spáni þar sem þú tókst fram reiðhjól eftir fjörutíu ára hlé og fórst bunur í vatnsrennibrautum.

Mamma hafði gott auga fyrir textum og ljóðum sem hún klippti úr Lesbók Morgunblaðsins. Eftirfarandi ljóð rataði í hendurnar á mér þegar ég var að meðhöndla þennan fjársjóð.

Hinsta kveðja

Nú er sál þín rós

í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum

þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós

blikna að hausti.

(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir)

Hvíldu í friði elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Ingunn Ósk.