Reynd Karen Knútsdóttir hefur leikið 104 A-landsleiki.
Reynd Karen Knútsdóttir hefur leikið 104 A-landsleiki. — Morgunblaðið/Eggert
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta leikur í kvöld síðasta heimaleikinn í undankeppni Evrópumótsins þegar það mætir Svíum á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 19.45.

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta leikur í kvöld síðasta heimaleikinn í undankeppni Evrópumótsins þegar það mætir Svíum á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 19.45.

Í þessari næstsíðustu umferð mætast einnig Tyrkland og Serbía en staðan er þannig að Svíþjóð er með sex stig, Serbía fjögur, Ísland fjögur og Tyrkland tvö stig.

Svíar mæta Tyrkjum í lokaumferðinni og þá leikur Ísland gegn Serbíu í Belgrad. Tvö efstu liðin fara á EM og Svíar eru með annað sætanna í hendi sér en ljóst er að viðureign Serba og Íslendinga verður hreinn úrslitaleikur um sæti á EM, hvernig sem fer í kvöld.

Takist íslenska liðinu að ná stigi eða stigum af firnasterku liði Svía í kvöld myndi það að sjálfsögðu styrkja stöðuna. Þá gætu Serbar hæglega lent í vandræðum í Tyrklandi en íslenska liðið tapaði óvænt þar fyrr í vetur.

Ísland vann heimaleikinn gegn Serbíu en Serbarnir unnu hinsvegar sinn heimaleik gegn Svíum.

Ísland tapaði útileiknum gegn Svíum, 30:17, en sænska liðið hafnaði í fimmta sæti á heimsmeistaramótinu á síðasta ári og í ellefta sæti á síðasta Evrópumóti.

„Ég held að úrslitin í þessum riðli sanni að það sé erfitt að segja eitthvað fyrir fram. Við ætlum bara að selja okkur dýrt. Það er mjög gaman að keppa við eitt besta lið í heimi,“ sagði Karen Knútsdóttir, ein af reyndustu landsliðskonum Íslands, en viðtal við hana og Arnar Pétursson þjálfara er að finna á mbl.is/handbolti.

Enginn aðgangseyrir er að leiknum, í boði Icelandair.