Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Formenn stjórnarflokkanna tilkynntu í gær að ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður og innleitt verði nýtt fyrirkomulag til að halda utan um eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Reyndar hefur ríkisstjórnin ekki ákveðið neitt í þessum efnum, því málið hefur ekki verið rætt þar. Látum það þó liggja á milli hluta, formennirnir þrír eru það fólk sem vissulega stýrir þessu.

Þessi ákvörðun ber þess þó merki að vera tekin í flýti, jafnvel í nokkurs konar örvæntingu, og tilgangur hennar er með öllu óljós. Það er enn fjölmörgum spurningum ósvarað. Hvað felst til dæmis í því að leggja „áherslu á ríkari aðkomu Alþingis“ eins og það var orðað í yfirlýsingu formannanna? Á að auka pólitísk afskipti af fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins? Geta þingmenn nú krafist þess að vextir bankanna verði svona og hinsegin, að lánaskilyrðum verði breytt eða að fá að ráða launum starfsmanna? Var Bankasýslan ekki einmitt stofnuð til þess að koma í veg fyrir slíkt?

Sá sem hér glamrar á lyklaborðið er stuðningsmaður þess að leggja niður óþarfar ríkisstofnanir. Í fullkomnum heimi ætti ríkið engin fjármálafyrirtæki og þá væri vissulega engin þörf á sérstakri ríkisstofnun til að halda á og sýsla með þá eignarhluti. En heimurinn er ekki fullkominn og þá er stofnun eins og Bankasýslan illskásti kosturinn.

Lögum um Bankasýsluna var breytt í febrúar 2019 og sú viðbót gerð að stofnunin yrði lögð niður þegar verkefnum hennar væri lokið. Verkefnunum er þó ekki lokið og ríkið á enn tæplega einn og hálfan banka sem það þarf ekki að eiga. Í yfirlýsingu formannanna í gær kom þó fram að ekki yrði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að sinni heldur yrði það rætt á Alþingi þegar þar að kemur. Það verður að teljast ólíklegt að það gerist á þessu kjörtímabili. En ríkisstjórnin fann þó lægsta samnefnarann.