Valgerður Anna Jóhannesdóttir fæddist á Akranesi 16. ágúst 1954. Hún lést 9. apríl 2022 á líknardeildinni í Kópavogi.

Foreldrar hennar eru Guðrún Mýrdal Björgvinsdóttir og Jóhannes Kristinn Guðmundsson (látinn). Þau skildu. Guðrún giftist Snæbirni Snæbjörnssyni (látinn).

Systkini sammæðra eru Hafþór, Dagbjört, Anna Birna og Gunnbjörn (látinn).

Jóhannes giftist Guðlaugu Guðlaugsdóttur. Systkini samfeðra eru Guðmundur, Ragna, Helma og Kristín.

Valgerður ólst upp hjá móðurömmu og -afa á Suðurgötunni á Akranesi. Amma hennar dó þegar Valgerður var 16 ára gömul og fluttist hún þá til Reykjavíkur til móður sinnar og stjúpa.

Valgerður vann hjá Silla og Valda, var sætavísa í Tónabíói, við aðhlynningu á öldrunarheimili, í Osta- og smjörsölunni, og var aðstoðarverslunarstjóri í Vínbúðinni lengst af.

Hún giftist Þóroddi Inga Guðmundssyni árið 1973, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Ingi, 1974, giftur Titu Ciprian Balea. 2) Björgvin Mýrdal, f. 1977. Börn hans eru Selma, Rakel, Katrín, Sigríður, Benjamín og Dögg. Barnabarn hans er Andrea. Stjúpdóttir Björgvins er Unnur Eva. 3) Guðrún Snæbjört, f. 1979, gift Grími Th. Thoroddsen. Börn hennar eru Snædís Birna, Thelma Líf og Nóel Björn. Börn Gríms eru Embla Theódóra og Alexander Úlfur. 4) Inga Þóra, f. 1988, gift Andra Snæ Þorvaldssyni. Börn þeirra eru Karen Ísabel, Andri Þeyr og Þórhildur Valey.

Eftirlifandi eiginmaður Valgerðar er Þórir Erlendsson. Börn Þóris eru Ásgeir Hinrik, giftur Ólöfu Haraldsdóttur. Börn þeirra eru þrjú og barnabörn þrjú. Erla Lind, gift Sigursteini Einarssyni. Börn þeirra eru þrjú.

Útförin fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 20. apríl 2022, klukkan 15.

Elsku mamma mín er fallin frá. Allt er þetta svo óraunverulegt og gerðist á miklum hraða. Ég stóð alltaf í þeirri trú að þú værir á leiðinni heim aftur, á þitt fallega heimili. Það eru rétt tvær vikur síðan þú hringdir í mig eldhress og sagðir hátt og snjallt: „Hæ Gummi minn, hvað segir þú elskan mín?“ Þessi orð og rödd þín hljóma nú stöðugt í huga mér. Eins erfitt og það nú er vona ég samt að þau haldi áfram að hljóma. Sama dag og þú hringdir svona óvenju hress fékkstu einmitt þær fréttir að nú væri allri meðferð hætt og ekkert væri hægt að gera meira til að stoppa krabbameinið sem þú hafðir glímt við. Aðeins viku seinna vöktum við nánasta fjölskyldan yfir þér á líknardeildinni, þar til yfir lauk. Þú varst svo ótrúlega hugrökk í öllu þessu ferli og kvartaðir lítið þrátt fyrir að vera sárkvalin og var alltaf stutt í bros þitt og æðruleysi.

Síðustu sólarhringana fengum við systkinin og Þórir að vaka yfir þér, en fyrir það fengum við afar lítið að hittast vegna covid-reglna. Skilaboðin frá vinum og vandamönnum voru einnig mörg. Það voru margir sem hugsuðu hlýtt til þín.

Lífið er samspil vonbrigða og gleði. Á stundum hef ég brugðist, en ávallt hefur þú vafið mig kærleik og hlýju. Ég gat alltaf leitað til þín og þú stóðst með mér og varst mér stoð og studdir mig til betri verka. Alla bernsku mína man ég bara eftir kærleik, hlýju og endalausu trausti og umhyggju. Svo mikilli umhyggju sem umvefur allt og alla.

En þannig varst þú elsku mamma. Þú hafðir alla tíð áhyggjur af okkur börnum þínum og barnabörnum. Þú minntir okkur á að slökkva á kertum, hafa nýjar rafhlöður í reykskynjurum og skila skattskýrslunni á réttum tíma.

Það var einmitt í þessu eftirminnilega símtali fyrir tveimur vikum sem við vorum að ræða hvað ég væri að gera þessa dagana og þú sagðir mér að ég væri svo duglegur. Ég svaraði þér að ég væri að reyna að gera þig stolta af mér: „Já, Gummi minn, það er ekki seinna vænna.“ Við hlógum dátt saman að því, en í mínum huga veit ég að mamma var afar stolt af mér og það skipti mig miklu máli. Hún lagði mikla áherslu á stöðugleika; að ég væri í öruggri vinnu, sinnti fjölskyldunni og ætti fallegt heimili – og auðvitað skilaði skattskýrslunni á réttum tíma. Það olli mömmu því miklu hugarangri að það væri ósætti í fjölskyldunni og lagði hún mikla áherslu á að við bræður myndum sættast, sem gekk eftir og við mættum saman til hennar á líknardeildina. Ánægjan leyndi sér ekki. Mamma hefur enda alltaf verið límið í fjölskyldunni; tengt alla saman og verið til staðar þegar á þarf að halda.

Elsku mamma mín! Ég sakna þín óendanlega mikið og búðu þig undir að ég muni tala til þín í hvert skipti sem mig vantar ráðleggingar í lífinu. Ég er svo þakklátur fyrir allt sem þú hefur kennt mér, allar þær stundir sem við áttum saman eða töluðum saman í síma, sem var yfirleitt daglega. Mamma, ég mun lifa það sem eftir er með í huga að þú verðir stolt af frumburðinum þínum. Þú munt ávallt verða í huga mér, elsku mamma.

Guðmundur Ingi

Þóroddsson.

Elsku mamma, ég á engin orð. Þetta er svo ósanngjarnt og vont. Það er svo sárt að sakna þín, en ég veit að sorgin stafar af ást okkar og hamingjustundum sem við áttum á meðan þú lifðir.

Mamma mín, takk fyrir allt sem þú gafst mér og kenndir mér í lífinu. Ég mun varðveita hlýju og góðu minningarnar um þig að eilífu. Við hittumst aftur einn daginn.

Mamma, elsku mamma,

man ég augun þín,

í þeim las ég alla

elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,

man ég þína hönd,

bar hún mig og benti

björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,

man ég brosið þitt;

gengu hlýir geislar

gegnum hjarta mitt.

Mamma, elsku mamma,

mér í huga skín,

bjarmi þinna bæna,

blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,

man ég lengst og best,

hjartað blíða, heita –

hjarta, er sakna ég mest.

(Sumarliði Halldórsson)

Ég mun alltaf elska þig.

Þín dóttir,

Guðrún Snæbjört.

Elsku mamma mín, ég trúi ekki að þú sért farin, það er svo sárt. Við höfum alltaf verið hálfgerðar samlokur, ég og þú.

Ég á svo margar góðar minningar um þig elsku mamma, best af öllu var þegar þú gafst þér tíma á hverju kvöldi til að leggjast upp í til mín, syngja nokkur lög eða lesa bók, fara með bæn eða bara að spjalla og leyfðir mér að „hogga“ hárið þitt á meðan, ó hvað ég væri stundum til í að verða bara lítil aftur.

Ég er gríðarlega þakklát fyrir góða uppeldið sem þú gafst okkur, hvað við fengum að heyra oft hversu stolt þú værir af okkur og hversu mikið þú elskaðir okkur öll.

Krakkarnir mínir nutu þess þegar amma Vala kom í heimsókn. Yfirleitt þurftir þú þá að lesa 5-10 bækur fyrir þau, en það fannst þeim skemmtilegast af öllu og þau fundu vel fyrir hlýjunni hennar ömmu Völu.

Þórhildur Valey segir að amma Vala sé núna komin í englapartíið og við trúum því.

Ég er þér endalaust þakklát fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir mig, fyrir alla ástina, kærleikann, hlýjuna, samheldnina, fyrir að vera stoð mín og stytta í fæðingu Karenar og bara í öllu lífinu sjálfu, fyrir daglegu símtölin okkar, brandarana, göngutúrana okkar, knúsin og svo margt margt meira.

Ég sakna þín svo mikið elsku mamma, veit ekki alveg hvernig ég mun geta haldið áfram án þín en ég reyni að vera sterk, eins og þú baðst mig um.

Og svo sjáumst við síðar.

Ég elska þig endalaust.

Þín dóttir,

Inga Þóra.

Það er þyngra en tárum taki að kveðja elskulega Völu vinkonu mína. Fyrir tveimur árum greindist Vala mín með krabbamein, þegar hún sagði mér fréttirnar fannst mér þetta svo ósanngjarnt, hún sem var svo hraust og heilbrigð kona sem var nýhætt að vinna og ætlaði að fara að njóta lífsins. Hún sagði: „Sigrún mín, ég rúlla þessu upp,“ og það gerði hún svo sannarlega á vissan hátt, þvílík hetja sem hún var í gegnum þetta erfiða verkefni. Oft kom ljós um að hún myndi sigra og oft komu slæmar fréttir, en að lokum sigraði krabbameinið. Sú staðreynd er svo óbærilega þung.

Við hjónin erum búin að eiga margra ára góða vináttu með þeim hjónum Völu og Tóta og eigum magar góðar minningar með þeim, öll ferðalögin innanlands og utanlands að ógleymdum öllum dansiböllunum, og svo margt annað sem við gerðum saman. Vala var einstaklega trygg og traust vinkona mín, hún var með sérstaklega góða nærveru og alltaf kært á milli okkar.

Síðasta samtalið okkar Völu var nokkrum dögum fyrir andlát hennar en þá var hún orðin mjög máttvana. Hún sagði: „Þú kíkir kannski einhvern daginn,“ og ég náði að gera það og kveðja hana, því hún lést þremur dögum seinna. Ég verð ávallt þakklát fyrir að hafa getað kvatt Völu mína og ég mun minnast hennar með söknuð í hjarta og þakka henni allar góðu stundirnar.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Þórir og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk í þessu erfiða verkefni.

Vinarkveðja,

Sigrún Halldórsdóttir.

Að kvöldi dags 9. apríl barst okkur sú harmafregn að góð vinkona okkar hún Valgerður Anna Jóhannesdóttir hefði látist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi eftir erfið veikindi.

„Að heilsast og kveðjast það er lífsins saga.“ Í helgri bók stendur að „eitt sinn skal hver deyja“.

Hið ókomna hér á jörð er okkur hulið, þó er einn sá útgangspunktur, sem hver og einn getur gengið út frá, en það er að einhverju sinni kemur að vistaskiptum, en hvenær og með hvaða hætti vita hinsvegar fæstir.

Sumum er kippt af leiksviði lífsins á besta aldri og í fullu fjöri, aðrir búa við heilsubrest fram á háan aldur, sjálfum sér ónógir, já, hún er torskilin lífsgátan og tilgangurinn með verunni hér á jörð hulinn.

Það vill gjarnan verða við leiðarlok að maður verður lágvær og langsótt getur verið í orðanna sjóð hvað draga skuli fram að lokum.

Ekki grunaði okkur að kveðjustundin væri svo stutt undan, Vala greindist með illkynja krabbamein fyrir ca tveimur árum. Eiginmaður hennar er Þórir Erlendsson múrarameistari. Vala og Tóti eins og við köllum þau ávallt höfðu unun af ferðalögum og áttum við hjónin kost á að ferðast með þeim bæði innanlands og utan. Í slíkum ferðum kynntumst við betur mannkostum Völu.

Hún var glaðlynd, hjálpleg og traustur vinur með frábæra nærveru. Vala kunni að lifa lífinu og naut þess að ferðast, hún var frábær dansari og naut þess í botn að svífa um dansgólfið í örmum eiginmannsins síns, hans Tóta.

Í ljósi þess að hún Vala okkar hefur nú kvatt okkur hinstu kveðju, þá erum við sérstaklega þakklát fyrir að hafa fengið að njóta samvista með þeim sómahjónum. Þau höfðu komið sér upp fallegu húsnæði á Torrevieja á Spáni og ætluðu að eyða efri árunum þar eftir að starfi lauk.

Elsku vinkona, við kveðjum þig með mikilli sorg og söknuði í hjarta, einnig erum við glöð yfir því að hafa fengið að kynnast yndislegri konu sem vildi okkur hjónum alltaf svo vel. Við reynum að finna styrkinn saman og ylja okkur við allar þær góðu minningar sem við eigum um einstaka manneskju sem Vala var.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Ég sendi Tóta og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hilmar Kristensson.