Sigurður Jóhann Ingibergsson fæddist 2. júní 1939 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 29. mars 2022.

Foreldrar hans voru Ingibergur Pétur Mikael Jónasson, f. 1912, d. 1978, og Unnur Sigurðardóttir, f. 1910, d. 1973. Systkini Sigurðar voru; Íris f. 1936, d. 2001, samfeðra, sammæðra voru Haukur, f. 1931, d. 1993, Stefán, f. 1944, d. 2013, Þórdís, f. 1946, d. 2022, og Sigríður Svafa, f. 1949. Uppeldisbróðir Sigurðar er Sveinn Áki Lúðvíksson, f. 1947.

Sigurður kvæntist hinn 29. apríl 1961 Margréti Kolbrúnu Friðfinnsdóttur, f. 30.9. 1942, d. 4.2. 2011. Foreldrar Margrétar voru hjónin Friðfinnur Gíslason, f. 1893, d. 1959, og Stefanía Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 1900, d. 1983.

Synir Sigurðar og Margrétar eru: 1) Friðfinnur, f. 25.6. 1959, d. 22.6. 1974. 2) Ingibergur, f. 27.10. 1961, kvæntur Marcelu Munoz Araneda, f. 5.10. 1968. Börn hans og Erlu Halldórsdóttur, fyrrverandi eiginkonu, eru: a) Sigurður Jóhann, f. 1983, sambýliskona Þóra Þorvaldsdóttir, f. 1984. Börn þeirra eru Victor Fannar, Aron Aldar, Rakel Myrra, b) Viktor Ingi, f. 1984, kvæntur Margréti Rut Halldórsdóttur, f. 1988, börn þeirra eru Erla Rut, Halldór Breki og Eldey Inga, c) Hreggviður Óli, f. 1990, sambýliskona Sara Dís Hafþórsdóttir, f. 1997. 3) Friðfinnur Ragnar, f. 21.11. 1976, sambýliskona hans er Eyrún Huld Harðardóttir, f. 16.10.1983. Barn þeirra er Emil Darri, f. 2020. Börn Friðfinns og fyrrverandi eiginkonu, Margrétar Guðvarðardóttur, eru a) Alexandra, f. 1999, b) Gabríel, f. 2003, og c) Mikael, f. 2009.

Sigurður fæddist í Reykjavík þar sem hann ólst upp hjá ömmu sinni á Bergstaðastræti og síðar á Melhaga hjá móðursystur sinni og ömmu.

Sigurður lauk Iðnskólanum í Reykjavík og sveinsprófi í vélvirkjun í Vélsmiðjunni Héðni hf. 1960. Hann lauk vélstjóraprófi frá Vélskólanum í Reykjavík 1964 og hlaut meistararéttindi í vélvirkjun 1973.

Hann var viðgerðarmaður og síðar vaktformaður Síldarverksmiðjunnar á Vopnafirði 1961-68, vélstjóri hjá Hafskipum 1968-71, vann hjá skipaeftirliti Ragnars Bjarnasonar 1973-77 og var síðan skoðunarmaður skipatjóna hjá Tryggingamiðstöðinni 1977 til 2009.

Árið 1974 fluttu þau hjónin í Hlíðarbyggð í Garðabæ þar sem þau bjuggu meiri hluta ævi sinnar. Sigurður flutti svo í Þorrasali í Kópavogi og bjó þar síðustu árin.

Sigurður var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Setbergs í Garðabæ og var virkur í starfi félagsins fram til síðasta dags. Sigurður var mikill fjölskyldumaður og vissi fátt betra en að bjóða fjölskyldu og vinum í mat. Hann hafði mikinn áhuga á ferðalögum og voru þau hjónin dugleg að ferðast saman. Á seinni árum var golf helsta áhugamál hans og var hann meðlimur í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, allt frá stofnun klúbbsins árið 1986.

Útför Sigurðar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. apríl 2022, klukkan 13.

Í dag verður borinn til hinstu hvílu Sigurður Jóhann Ingibergsson vélfræðingur.

Við Siggi, eins og hann var alltaf kallaður, vorum uppeldisbræður og systrasynir og ólumst upp hjá móður minni þar sem amma okkar bjó og sá amma um að stjórna daglegum heimilisstörfum, þar sem móðir mín var einstæð og útivinnandi.

Heimilið var tveggja herbergja kjallaraíbúð og sváfum við Siggi í sama herbergi og amma og var það þannig þar til við fluttum að heiman og giftum okkur og má því segja að við höfum aldrei sofið kvenmannslausir!

Siggi var átta árum eldri en ég og áttum við því ekki margt sameiginlegt þegar við vorum að alast upp. Siggi var mikill hagleiksmaður og handlaginn. Það var því ekki skrítið að hann skyldi velja að verða vélstjóri. Siggi varð fyrir því óláni að missa annað augað í vinnuslysi meðan á náminu stóð og var því eineygður frá unga aldri. Hann grínaðist stundum með að hann vildi tala við mann undir þrjú augu.

Ég man þegar hann var að læra að fókusera upp á nýtt og það reyndi mikið á augað, og þá sérstaklega eftir langan dag, fyrst í vinnu og síðan í kvöldskóla, eins og iðnskólinn var þá, við teikningar og aðra nákvæmnisvinnu.

Það má segja að þetta hafi verið fyrsta áfallið sem Siggi varð fyrir, en þau Magga misstu frumburð sinn í bílslysi aðeins 15 ára gamlan og þriðja stóra áfallið var þegar hann missti Möggu, aðeins 68 ára gamla.

Siggi var mjög yfirvegaður og komst í gegnum þessi áföll uppréttur og óbrotinn, þótt beygður væri, en þessi sár sátu eftir í sál hans. Þrátt fyrir mótlætið var Siggi að eðlisfari mjög glaðlyndur maður og einstaklega orðheppinn og vinsæll meðal vina og starfsfélaga. Hann gat alltaf komið með athugasemdir um fólk eða atvik sem vöktu mikla kátínu.

Á unglingsárunum var Siggi til sjós, byrjaði sem messadrengur hjá Eimskip og kynntist þá pabba sínum betur en þeir voru um tíma samskipa. Eftir námið hjá Héðni starfaði Siggi um skeið hjá Síldarverksmiðjunni á Vopnafirði, fyrst við uppsetningu verksmiðjunnar og síðan við reksturinn. Hann var vélstjóri hjá Eimskip og Hafskip, en hætti á sjó og gerðist tjónaeftirlitsmaður skipa, lengst af hjá TM, þar nutu hæfileikar hans sín. Hann hafði ásamt félaga sínum átt lítið fyrirtæki, Skipavörur, sem flutti inn efnavörur fyrir skip. Honum fannst gott að hafa að þessu að hverfa, eftir að hann hætti hjá TM, þar til þeir seldu fyrirtækið fyrir örfáum árum.

Okkur hjónum er minnisstæð ferð sem við fórum með Möggu og Sigga, ásamt barnabörnum okkar til Kaupmannahafnar, þar sem við áttum saman mjög ánægjulega daga. Fyrir örfáum árum fórum við hjónin einnig með Sigga, sem þá var orðinn ekkjumaður, í mjög ánægjulega ferð til Þýskalands. Ætlunin var að við færum í aðra ferð, en veiran skæða breytti þeim áformum.

Eftir að við Siggi urðum fullorðnir urðum við nánari og áttu fjölskyldur okkar mikla samleið og voru margir fastir liðir eins og skötuveisla, að borða saman á gamlárskvöld og önnur tilefni.

Góður maður er genginn, að leiðarlokum þökkum við Sigrún, kona mín, honum samfylgdina.

Sveinn Áki Lúðvíksson.

Afi Siggi var ekki afi minn, hann var frændi minn. Þar sem afar mínir voru ekki til staðar þegar ég kom í heiminn fannst honum aldrei koma annað til greina en að hann myndi sinna því hlutverki að vera afi minn. Hef ég því aldrei kallað hann neitt annað en afa og sinnti hann því hlutverki einstaklega vel, enda einstakur maður.

Afi var mér mikil fyrirmynd. Hafði einstaklega skemmtilega nærveru, var orðheppinn og skemmtilegur með eindæmum.

Ungur drengur flutti ég í Garðabæinn með foreldrum mínum og yngri bróður. Afi og Magga, sem aldrei var kölluð amma, hún var alltaf Magga konan hans afa, bjuggu þá fyrir í Garðabænum. Hafði ég ekki mikinn áhuga á að flytja úr Vesturbæ Reykjavíkur í sveitina, sem þá var Garðabær. Því fór það svo að ég hélt áfram í Melaskóla heilt skólaár eftir að við fluttum í sveitina. Afi hafði þann sið að fara alltaf í sund fyrir vinnu. Þá fannst honum ekki tiltökumál að fara bara í Vesturbæjarlaugina svo hann gæti keyrt mig í skólann áður en hann færi til vinnu alla morgna. Hann keyrði mig því í skólann og Möggu sína í vinnuna alla virka daga heilan vetur. Þar áttum við margar gæðastundir, við þrjú. Magga sat alltaf í aftursætinu eins og drottning og við strákarnir í framsætunum. Þetta fannst mér ótrúlega töff.

Afi og Magga voru samrýnd hjón og var það mikill missir þegar hún lést langt fyrir aldur fram árið 2011. Afi var þá nýhættur að vinna og þau að fara að njóta ævikvöldsins. Það var ekki síður mikill missir að missa elsta son sinn, Friðfinn, aðeins 15 ára gamlan, af slysförum. Held að það hafi alla tíð reynst þeim erfitt og tíðarandinn þá mjög frábrugðinn því sem er í dag varðandi slík áföll.

Einstakt og fallegt samband var alla tíð á milli foreldra minna og þeirra hjóna, afa Sigga og Möggu. Það hélt áfram eftir að Magga lést og man ég ekki eftir gamlárskvöldi öðruvísi en þau öll saman, og svo þrjú saman eftir að Magga lést. Afi kom oft í mat til þeirra og þótti mér vænt um að vera boðinn með í þau partí, ég með gamla fólkinu. Mamma eldaði þá oft mat sem afa þótti góður, saltkjöt, kótilettur í raspi, kjöt í karri og annað góðgæti.

Afi var einstaklega bóngóður maður. Var alltaf tilbúinn að hjálpa öllum. Var mjög handlaginn, flest lék í höndunum á honum.

Afi og Magga eignuðust þrjá drengi, Friðfinn f. 1959, sem lést eins og áður sagði aðeins 15 ára gamall, Ingiberg f. 1961 og Friðfinn Ragnar f. 1976. Þeir eiga fullt af börnum og barnabörnum sem sjá nú á bak afa og langafa.

Sú hefð skapaðist að hittast í kirkjugarðinum á aðfangadag, afi og Finni og hans börn og ég og mín börn. Höfum við þá farið að leiði Möggu og Finna sem og annarra ástvina. Það verður skrýtið að fara í garðinn og hitta ekki kallinn en fara nú að leiði hans. Svona er lífið.

Ég kveð í dag afa minn og kæran vin með miklum söknuði. Hefði viljað njóta nærveru hans lengur, en ég veit að nú líður honum vel, kominn á góðan stað með Möggu sinni og Finna. Inga og Finna ásamt öllum aðstandendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jörundur Áki Sveinsson.

Rétt fyrir jólin 1971 fluttum við hjónin í Garðabæ og teljumst meðal frumbyggja í hverfi því sem kennt er við Hlíðarbyggð. Þar hreiðraði um sig fólk úr ýmsum áttum, einkum að sunnan og vestan, og tókst fljótlega ágætur kunningsskapur í mikilli sátt og allmiklu samlyndi hjá nokkrum fjölskyldum. Árið 1972 festu þau Sigurður og Margrét Kolbrún kona hans kaup á raðhúsi í Hlíðarbyggð 5 og féllu þau strax vel inn í þennan hóp, ekki síst vegna áberandi umburðarlyndis gagnvart skoðunum annarra og hæglátrar og hógværar stríðni. Vafalítið er það til marks um ágætt skopskyn og ekki er verra að búa að slíkum kostum á núverandi umbrotatímum.

Í þekktu ættjarðarkvæði er því haldið fram að ekkert sé fegurra en vorkvöld í Reykjavík. Á hitt er að líta að sumarnóttin er að minnsta kosti jafnfögur í Garðabæ. Það sáum við oft þegar við hittumst að kvöldlagi til þess að kryfja aðkallandi vandamál samtímans og ekki spillti fyrir ef Halldór Guðbjarnason kom með hljóðfæri sem við nefndum saltfiskinn, líklega formsins vegna, en það er trúlega betur þekkt sem gítar. Þá liðu nætur hratt og morgunsól farin að skína ofarlega á himni áður en kveðjuathafnir hófust með tilheyrandi faðmlögum. Hinu er ekki að leyna að þegar fjörið fer að dofna færist kyrrðin nær.

Einn var sá siður sem komst fljótlega á í Hlíðarbyggð, en það var sameiginleg laufabrauðsgerð rétt fyrir jól. Var það okkur alltaf jafnmikið tilhlökkunarefni, enda kom í ljós að miklu listfengi var náð að lokum, þótt heldur hafi fækkað í hópnum. Við sem eftir lifum reynum hins vegar að fara að dæmi Gunnlaugs ormstungu: „Eigi skal haltr ganga, meðan báðir fætr eru jafnlangir.“

Ég vil að endingu þakka Sigurði fyrir einstaklega ánægjuleg kynni í von um að það sé aldrei of seint og sendi börnum og barnabörnum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Leifur Albert Símonarson,

Hlíðarbyggð 1.

Þegar mér barst sú fregn að vinur minn og félagi í meira en fjóra áratugi, Sigurður Ingibergsson, væri látinn varð mér óneitanlega bilt við. Ég var nýkominn til landsins eftir langa fjarveru og hafði ekki haft neinar spurnir af veikindum hans.

Það var árið 1981 sem við Siggi kynntumst. Ég flutti þá í Garðabæinn og keypti raðhús í botnlanga þar sem hann bjó. Þarna var enn verið að ganga frá einu og öðru í kringum nýbyggðu húsin og því mikill samgangur eigenda í bílskúrunum. Hjónin Sigurður og Margrét Friðfinnsdóttir bjuggu ásamt tveimur sonum sínum þarna við hlið okkar hjóna. Strax kom í ljós að yndislegri nágranna var ekki hægt að hugsa sér. Siggi og Magga voru eins og sköpuð hvort fyrir annað, höfðu bæði til að bera létta lund, tillitssemi, þolinmæði, nægjusemi og annað það sem prýðir bestu einstaklinga. Í bílskúrunum hófust kynni okkar Sigga.

Við fregnina um að hann væri látinn streymdu minningarnar í gegnum hugann. Þá fann ég vel hve hratt flýgur stund, – öll þessi ár liðin síðan við kynntumst.

Hann hafði lært vélstjórn og starfað sem slíkur á nokkrum stöðum fyrri hluta ævinnar, en þegar við kynntumst starfaði hann sem eftirlitsmaður hjá Tryggingamiðstöðinni, tengiliður hennar við þau skip sem þar voru tryggð. Siggi var einstaklega vel gerður maður. Hann var rólegur í fasi, nærgætinn, yfirvegaður og glaðlyndur. Hann var mjög vel liðinn í starfi, jafnt hjá vinnuveitanda sem viðskiptamönnum, sem öllum var ekki gefið að uppfylla. Hann var heiðarlegur og sanngjarn og það hefur líklega verið sú blanda sem viðskiptamenn TM kunnu svo vel að meta.

Í botnlanganum í Hlíðarbyggð skapaðist einstakur vinskapur eigenda nokkurra þeirra níu húsa, sem þar standa. Fólkið kom saman innan dyra sem utan og hópurinn fór saman í útilegur á meðan börnin höfðu áhuga á. Siggi og Magga voru kjarni í þessum hópi og alltaf hefur svo hópurinn hist í desember ár hvert til að skera út laufabrauð og ræða saman. En fækkað hefur í hinum upphaflega tíu manna hópi og nú eru aðeins fjórir eftir á lífi. Í febrúar 2011 lést Magga skyndilega og varð missirinn Sigga þungbær. En með sínu eðlislega glaðlyndi og yfirvegun tókst hann á við þetta áfall eins og hann hafði áður þurft að gera við lát elsta sonar síns.

Á tíma sínum sem vélstjóri hjá Hafskipum hf. kynntist Siggi ýmsum „vélaefnum“ sem hann varð hrifinn af og hafði áhuga á að kynna fyrir öðrum vélstjórum í íslenska flotanum. Úr varð að við stofnuðum þrír saman lítið félag um innflutning og sölu þessara efna. Þeir vélstjórarnir sáu alfarið um þennan hobbírekstur, en þegar þeir svo fóru á eftirlaun hófu þeir full störf við þetta félag sitt og störfuðu þar til fyrir fáeinum árum, þá báðir orðnir rígfullorðnir.

Nú þegar Siggi minn er horfinn af lífssviðinu finn ég sárlega fyrir söknuði að hafa hann ekki á meðal okkar. Tilveran er sannarlega fátækari. Um leið og ég óska þessum kæra vini mínum velfarnaðar á þeim leiðum sem hann hefur nú lagt út á sendi ég þeim bræðrum Inga og Finna og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Halldór.

Kær vinur og félagi er kvaddur í dag. Það var árið 1972 sem við Sigurður Ingibergsson, alltaf kallaður Siggi, kynntumst, þá báðir að nema land í Garðahreppi, byggja hús okkar í Hlíðarbyggðinni. Við fylgdumst að í framkvæmdum, verkfæri lánuð á milli og lausnir á hinum ýmsu málum er varða nýbyggingar voru ræddar. Siggi var úrræðagóður og var gott að leita til hans um góð ráð. Um áramót 1973-1974 fluttum við inn í húsin okkar og voru fjölskyldur okkar með þeim fyrstu sem fluttu inn í götuna.

Í ört vaxandi sveitarfélagi á þessum tíma kom boð um að gerast félagi í Kiwanisklúbbi sem átti að stofna. Ég bar þetta undir Sigga hvort eitthvert vit væri í þessu og sagði hann svo vera. Hann hafði verið félagi og kynnst starfinu vel í Kiwanisklúbbnum Öskju á Vopnafirði er hann vann þar. Því hafði hann mikinn áhuga á því að taka þátt í starfi nýs klúbbs og úr varð að við tókum báðir þátt í að stofna Kiwanisklúbbinn Setberg í okkar nýja sveitarfélagi Garðahreppi sem síðar varð Garðabær.

Siggi var mikill og öflugur Kiwanismaður. Margar Kiwanisferðir voru farnar, fjölskylduferðir innanlands og Kiwanisráðstefnur sóttar erlendis. Hann missti mikið þegar Magga eiginkona hans lést eftir stutt veikindi 2011.

Þau voru falleg saman Magga og Siggi og báru mikla virðingu hvort fyrir öðru. Þau voru virk í þátttöku sinni í verkefnum fyrir klúbbinn og starfaði hún einnig í Sinawik þar sem eiginkonur Kiwanismanna störfuðu að sameiginlegum verkefnum með okkur körlunum. Ég efast um að nokkur hafi hrært í eins mörgum uppstúfspottum á þorrablótum eldri borgara eins og hann Siggi, hann var algjör uppstúfsmeistari.

Hann gegndi mörgum ábyrgðarstörfum innan klúbbsins okkar. Hann var forseti klúbbsins 1979-1980, lengstum féhirðir og var þar eins og annars staðar mikið traust borið til hans. Hann tók virkan þátt í Kiwanis á landsvísu fyrir umdæmið Ísland-Færeyjar. Hann var svæðisritari Ægissvæðis 1987-1988 og umdæmisféhirðir 2008-2009. Kiwanisfélagar heiðruðu hann með æðstu viðurkenningu Kiwanishreyfingarinnar, Hixson orðunni sem er veitt fyrir vel unnin störf.

Siggi var farsæll í sínu starfi sem vélstjóri og síðan tjónamatsmaður skipatjóna hjá Tryggingamiðstöðinni í áratugi. Hann var mikils metinn af samstarfsmönnum og viðskiptavinum.

Kiwanisfélagar í Setbergi þakka Sigga frábær störf og vináttu sem engan skugga bar á.

Ég þakka honum áratuga vináttu við mig og mína fjölskyldu.

Siggi var drengur góður.

Innilegar samúðarkveðjur til sona hans Inga, Finna og fjölskyldna þeirra.

Far í friði kæri vinur.

Matthías Guðm. Pétursson og félagar í Kiwanisklúbbnum Setbergi.

Það vatt sér að mér nýlega úti í fiskbúð eldhress eldri kona sem ég þekki lítillega og spurði mig beint sísvona: „Finnst þér ekki leiðinlegt að vera gamall?“ Ég varð hálfhvumsa við og reyndi að bera mig mannalega og svaraði: „Nei, það er allt í lagi ef heilsan er góð.“ „Jú það er hundleiðinlegt því flest samferðafólk manns er ýmist orðið veikt eða dáið,“ sagði konan þá. Þetta fékk mig til að hugsa um lífshlaupið og hversu mikils virði það er með aldrinum að eiga góðar endurminningar um gott og skemmtilegt fólk eins og Sigurð Ingibergsson sem við kveðjum í dag.

Það var mikið gæfuspor þegar ég réð Sigga Ingibergs í starf skipatjónaskoðunarmanns hjá Tryggingamiðstöðinni vorið 1977. Ég hafði þá kynnst störfum Sigga á þessu sviði vegna starfa hans hjá Skipaeftirliti Ragnars Bjarnasonar og var því þess fullviss að ráðning hans yrði happafengur fyrir TM, sem það svo sannarlega reyndist vera. Í tæp 30 ár vorum við mjög nánir samstarfsmenn og margs að minnast.

Tryggingamiðstöðin tryggði á þessum tíma stóran hluta íslenska fiskiskipaflotans og mikið um tjón á skipum. Siggi var því á stöðugum ferðum um allt land og oft á tíðum einnig til útlanda til að skoða og meta hin ýmsu tjón á skipunum. Öll þessi störf vann Siggi af einstakri fagmennsku og leysti þau vandamál sem upp komu eins og best varð á kosið.

Ávann hann sér traust og álit allra viðskiptavina TM með réttsýni sinni og yfirvegaðri og rólegri framkomu. Svo mikils álits naut Siggi að útgerðarmenn og skipstjórnarmenn jafnt skipa sem tryggð voru hjá TM eða hjá öðrum félögum leituðu oft ráða hjá Sigga við lausn ýmissa tæknilegra vandamála um borð í skipum þeirra.

En Siggi var meira en góður tjónaskoðunarmaður. Hann var sérstaklega ljúfur og skemmtilegur samstarfsmaður. Við Siggi byrjuðum flesta daga á skrifstofunni með því að drekka saman kaffi og spjalla. Alltaf gat Siggi séð spaugilega hlið á flestum málum og sagt eitthvað sem fékk mann til að brosa og dagurinn varð skemmtilegri fyrir bragðið. Allt var þetta góðlátlegt eins og þegar samstarfskona okkar, sem nýlega hafði eignast lækni fyrir kærasta, hringdi í mig og tilkynnti forföll vegna veikinda. „Ætli hún þurfi ekki að ná sér í annan lækni,“ sagði Siggi og brosti.

Þannig var Siggi Ingibergs. Hann var hvers manns hugljúfi sem gott er að minnast.

Ég sendi sonum Sigurðar og fjölskyldum þeirra hugheilar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Gunnar Felixson.