Arnar Már Búason fæddist 24. janúar 1987. Hann lést 16. mars 2022.

Útför Arnars fór fram 29. mars 2022.

Elsku Arnar minn – það er svo sárt að kveðja þig – þú sem varst í blóma lífsins. Ég mun sakna þess að ræða við þig um drauma þína varðandi allt sem þú ætlaðir að gera innan háskólaumhverfisins. Sem úrvalsvísindamaður varstu með ótal plön um rannsóknir og vísindagreinar þar sem þú ætlaðir að tvinna saman hæfileika þína innan tölfræði og hagfræði og hvernig það gæti nýst til að búa til betra heilbrigðiskerfi og ekki síst efla fyrirbyggjandi aðgerðir í geðheilbrigðismálum.

Við fylgdumst með stolti með því þegar tilkynnt var að meistararitgerð þín við háskólann í Ås í Noregi hefði verið valin besta ritgerðin það árið, og það var spennandi að fylgjast með þegar þú fékkst styrk til að hefja doktorsnám við sama háskóla. Mjög eftirminnilegt er að hafa fengið að vera með á doktorsvörn þinni 2017. Þú hafði valið mjög flókið viðfangsefni, og einn andmælandinn sagði að hann hefði þurft að lesa ritgerðina fimm sinnum til að fatta hvað hún var gjörsamlega brilljant. Í móttökunni á eftir sagði pró-rektor við háskólann að þetta doktorsverkefni væri eitt það allra besta sem nokkurn tíma hefði verið unnið við háskólann. Við ræddum oft reynslu okkar af að fara á alþjóðlegar ráðstefnur og hvernig tilfinning það væri að kynna niðurstöður úr rannsóknum sem væru manni hugleiknar. Þú varst ástríðufullur kennari, fyrirlesari og vísindamaður.

Ég mun alltaf minnast þín Arnar minn, ekki síst fyrir kímnigáfuna, hláturinn og hve góður og hlýr faðir þú varst Viktori.

Børge Johannes Wigum.