Bandarískur dómstóll felldi grímuskyldu úr gildi

Kórónuveirufaraldurinn færði Íslendingum og stórum hluta heimsins alveg nýjan veruleika. Allt í einu gaf hið opinbera út fyrirmæli um hegðun fólks, skyldaði það til að ganga með grímu og fyrirskipaði að það héldi sig heima svo nokkuð sé nefnt.

Slík fyrirmæli mega aldrei verða sjálfsögð eða lítt rökstudd, en þegar leið á faraldurinn fór óneitanlega að læðast sú tilfinning að fólki að þróunin væri einmitt í þá varasömu átt.

Í fyrradag féll í Bandaríkjunum dómur fyrir alríkisdómstóli um grímuskyldu. Niðurstaða dómsins var sú að Sóttvarnastofnunin hefði farið út fyrir valdheimildir sínar með fyrirmælum um grímuskyldu, meðal annars vegna þess að rökstuðning hafi skort.

Hér á landi er lagaumhverfið annað þannig að bandarískur dómur er ekki vísbending um hvernig dómur félli hér á landi. Mikilvægi þess að setja ríkisvaldinu mörk og að verja frelsi einstaklingsins er hins vegar það sama hér og þar. Þó að sú staða komi stundum upp að takmarka verði frelsi almennings mega yfirvöld aldrei líta á það sem léttvægt og sjálfsagt. Og almenningur má ekki gera það heldur vilji hann halda í þessi nauðsynlegu grundvallarréttindi.