Þórey Eiríksdóttir fæddist 3. október 1929. Hún lést 29. mars 2022. Útför Þóreyjar fór fram 11. apríl 2022.

Hinn 11. apríl síðastliðinn var elsku amma Þórey lögð til hinstu hvílu. Minningarnar flæða um hugann og það má segja að tárin flæði líka. Smá saknaðartár en líka fullt af gleðitárum yfir fallegum og góðum stundum.

Hún tók alltaf fagnandi á móti manni, knúsaði og kyssti. Svo tók hún höndina og lagði í lófann á sér og strauk handarbakið á meðan hún spurði hvernig ég hefði það og hvað væri að frétta, því hún vildi fylgjast vel með öllum afkomendum sínum. Þessi hlýja og umhyggja sem hún gaf af sér var einstaklega dýrmæt. Það var alltaf stutt í hláturinn, gleðina og húmorinn og ekki sakaði ef húmorinn var smá svartur. Alltaf var hún að rifja upp gamlar og góðar minningar sem hægt var að hlæja að. Nærvera hennar var einstaklega góð og svo var líka gott að tala við hana um öll hjartans mál, hún hlustaði, var alltaf til staðar, hafði oftast skoðanir og vildi öllum vel.

Ég var svo heppin að vera elsta barnabarnið hennar og fá að bera nafnið hennar. Mamma var svo ung þegar hún átti mig að ég ólst mikið upp í kringum ömmu og systkini mömmu sem ég lít oft á sem mín systkini líka. Fyrir það er ég óendanlega þakklát og finnst ég vera rík að góðu fólki í kringum mig.

Þau forréttindi hlaut ég líka að fá að fara í sveit á sumrin þegar ég var lítil til þriggja systkina ömmu sem ennþá bjuggu á æskuheimili hennar, sem var dýrmæt reynsla og bjó til djúpa tengingu.

Amma var dugnaðarforkur og vildi hafa allt á hreinu. Heimilið var hreint og fínt og hún passaði alltaf að eiga til einhverjar kökur og veitingar ef ske kynni að einhver kæmi nú í heimsókn; pönnukökur, súkkulaðiköku, döðluköku, lummur og svo mætti lengi telja.

Við ferðuðumst töluvert saman um landið. Eiki, sem hefur alla tíð hugsað einstaklega vel um ömmu (mömmu sína) og á mikið hrós skilið fyrir það, var duglegur að bjóða mér með þegar var farið eitthvað út á land, sem mér þótti æðislegt. Við fórum líka stórfjölskyldan saman til Hollands þegar ég var fimm ára og svo til Kanada til Siggu systur mömmu 2015, sem var dásamleg ferð í alla staði.

Þegar ég var 23 ára fékk ég að búa hjá ömmu og Eika til skamms tíma á meðan ég var á milli íbúða. Þetta er eftirminnilegur tími. Fyrir svefninn var svo oftast tekið spjall í eldhúsinu með heitan kakóbolla og kremkex og farið yfir daginn og hin ýmsu málefni.

Jákvæðni og þakklæti voru henni efst í huga og alltaf þegar hún var spurð hvernig hún hefði það var svarið skýrt: „Það eru allir alltaf svo góðir við mig.“

Þó að það sé alltaf sárt að kveðja þá getur maður ekki annað en fyllst þakklæti yfir því að hún var nokkuð skýr í kollinum og með á nótunum eftir öll sín 92 ár og náði í raun að njóta fram á síðustu stundu. Það er góð tilfinning og maður getur ekki beðið um meira.

Elsku amma, takk fyrir lífið með þér. Ég mun alltaf hafa þig með í hjartanu og minnast þín oft og ekki síst þegar ég fer að hlæja.

Þín

Þórey Heiðdal Vilhjálmsdóttir (Þórey litla).