Súðavík Rúmlega tvö hundruð íbúar eru í Súðavíkurhreppi.
Súðavík Rúmlega tvö hundruð íbúar eru í Súðavíkurhreppi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Mörg sveitarfélög í fámennari kantinum bregðast illa við áformum innviðaráðuneytisins um setningu reglna um mat á getu sveitarfélaga með undir 250 íbúa til að sinna lögbundnum verkefnum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Mörg sveitarfélög í fámennari kantinum bregðast illa við áformum innviðaráðuneytisins um setningu reglna um mat á getu sveitarfélaga með undir 250 íbúa til að sinna lögbundnum verkefnum. Mörg þeirra sendu inn athugasemdir þegar drög að leiðbeiningum og ramma um þetta efni voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.

Gert var ráð fyrir því í frumvarpi innviðaráðherra á síðasta þingi að fámennari sveitarfélögum yrði gert að sameinast. Þetta átti að gera í áföngum. Mættu þessi áform harðri andstöðu og til þess að fá aðrar breytingar í gegn voru ákvæði um lágmarksíbúafjölda felld út úr frumvarpinu þegar það var til umfjöllunar á Alþingi.

Í staðinn voru sett inn ákvæði um að stefnt skyldi að því að íbúafjöldi sveitarfélaga yrði ekki undir 1.000, í því skyni að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni. Eiga sveitarfélögin val um það að hefja formlegar sameiningarviðræður við önnur eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar.

Ráðherra var falið að auglýsa leiðbeiningar um þau atriði sem fram eiga að koma í umræddu mati.

Sveitarstjórnirnar eiga að taka afstöðu til þess hvort hafnar verði viðræður um sameiningu.

Það ferli sem hér um ræðir tekur aðeins til sveitarfélaga sem eru með 250 íbúa eða færri við kosningarnar í vor. Það tekur gildi að fullu eftir fjögur ár og tekur þá til allra sveitarfélaga sem eru með færri en þúsund íbúa.

Beint að hluta sveitarfélaga

Sveitarfélögin hafa ýmsar athugasemdir við þann ramma sem ráðuneytið hyggst setja um þetta mat. „Við setningu gildandi sveitarstjórnarlaga var sérstaklega áréttað að þau ættu að gilda fyrir allt sveitarstjórnarstigið. Það skýtur því skökku við að þessum ákvæðum skuli beint að hluta sveitarfélaganna. Þau verði látin gera grein fyrir því hvernig þau hyggist leysa lögbundin verkefni sveitarfélaga og raunar einnig verkefni sem ekki eru lögbundin. Sveitarfélögin sinna þessum málum með ýmsum hætti, ekki síður en fjölmennari sveitarfélög. Ekki á að kanna málið hjá þeim fjölmennari,“ segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Spurður hvort hann óttist að með þessu sé verið að þröngva sveitarfélögum til sameiningar segir Bragi að væntanlega séu reglurnar hugsaðar til að gera þeim erfitt fyrir og leiða fólki fyrir sjónir að þau geti ekki sinnt hlutverki sínu. Segist hann ekki vita hvað annað geti legið að baki og nefnir að með þessari skriffinnsku sé verið að bæta verkefnum á þessi tilteknu sveitarfélög.

Í umsögnum ýmissa sveitarfélaga um þessar reglur er lögð áhersla á að ákvörðun um sameiningu sé í höndum íbúa sveitarfélaganna en ekki ráðherra. Upplýsingagjöfin sem lögin kveði á um sé ætluð fyrir íbúana en ekki stjórnvöld. Eina hlutverk ráðuneytisins sé að meta hvort upplýsingarnar séu í samræmi við lagafyrirmæli.

Tíu í fámennasta hópnum

Nú eru 10 sveitarfélög undir 250 íbúa markinu, þegar þau sveitarfélög sem þegar hafa ákveðið að sameinast öðrum hafa verið flokkuð frá. Nítján til viðbótar eru með á bilinu 250 til 1.000 íbúa.

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélagið með 42 íbúa og Skorradalshreppur og Tjörneshreppur eru með um 60 íbúa. Í hópi fámennra sveitarfélaga eru ýmis fjárhagslega öflug sveitarfélög sem veita íbúum góða þjónustu en önnur sem eiga í erfiðleikum með að veita fulla þjónustu. Sum eru með nánast enga starfsemi en sinna verkefnum sínum með samningum við stærri sveitarfélög.