Eftir að Íslendingar unnu handboltaleik var hneykslast á því að almenningur hefði ekki reist „þjóðarhöll“. Milljarðar í slíkt eru ekki fáir. Dagur B. sló keilur og lét eins og hann væri tilbúinn með fé í fíneríið, en býður þó aðeins smotterí upp í kostnað. Sagðist hann vilja tilkynningu eftir þrjár vikur eða svo!
Björn Bjarnason benti á að Dagur dregur eins og áður athygli frá uppnáminu sem hann hefur komið þessum málum í. Hann reyni að beina athygli að „þjóðarhöllinni“ og frá þeirri staðreynd „að í mörg misseri hefur ráðaleysi Reykjavíkurborgar vegna deilna verktaka við framkvæmdir til endurbóta á íþróttaaðstöðu í Laugardalnum tafið fyrir öllum úrbótum þar. Vegna þess að útboð vegna endurbóta Laugardalshallar er sífellt kært hafa börn og unglingar, sem stunda inniíþróttir s.s. blak og handbolta, nær enga möguleika til að stunda sína íþrótt.
Það dugar ekki fyrir Dag B. að veifa fjárheimildum. Hann verður að tryggja að unnt sé að vinna verkin á þann hátt að friður sé um þau en ekki útboðs- og stjórnsýsludeilur. Það er meira að segja ekki alveg á hreinu hvort Reykjavíkurborg vill í raun þjóðarhöll og þjóðarleikvanga í Laugardalinn eða hann nýtist fyrir hverfisfélögin tvö.
Á meðan þessir lausu endar eru ekki hnýttir af ráðamönnum Reykjavíkur er þjóðarhöllin og allt annað tengt þjóðarleikvöngum í biðstöðu.“