Kristín Þórunn Jónsdóttir fæddist á Patreksfirði 30. júlí 1923. Hún lést 12. apríl 2022 á hjúkrunarheimilinu Mörkinni í Reykjavík.

Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Rannveig Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 6.11. 1893, d. 27.3. 1977, og Jón Ingibjörn Jónsson trésmíðameistari, f. 16.9. 1880, d. 5.7. 1948, búsett á Vatneyri við Patreksfjörð.

Systkini Kristínar voru: samfeðra: Ingibjörg, f. 10.6. 1913, d. 29.11. 1915, og alsystkini Ingibjörg Jóna, f. 15.7. 1919, d. 16.7. 2003, maki Guðmundur Ásgeirsson, f. 15.7. 1919, d. 1.4. 1999; Guðmundur, f. 28.12. 1921, d. 9.7. 2005, maki Ólöf Helga Anna Guðjónsdóttir, f. 22.1. 1930, d. 27.1. 2020; Guðrún, f. 26.10. 1925, d. 18.12. 1970, maki Ingólfur Sigurbjörnsson, f. 19.5. 1923, d. 14.5. 1999; Guðmundur Valgeir, f. 5.4. 1929, d. 23.4. 1988, maki Kristín Gunnlaugsdóttur, f. 23.10. 1933; Jón, f. 5.4. 1929, d. 12.7. 1994, maki Þorgerður Jónsdóttir f. 16.12. 1918, d. 20.12. 1999; Kristján Jóhann, f. 8.3. 1933, maki Valgerður Theódórsdóttur, f. 19.12. 1930, d. 24.3. 2012.

Kristín giftist Birni Magnúsi Loftssyni smið og handavinnukennara 7. október 1962. Björn lést 21. febrúar 2006. Synir þeirra eru: 1) Jón Loftur, f. 20.8. 1963, viðskiptafræðingur, maki Sigríður Sigurjónsdóttir f. 4.5. 1972. Dóttir þeirra er Kristrún Ósk, f. 1.1. 2015. 2) Guðni, f. 9.11. 1964, viðskiptafræðingur, fyrrverandi maki Ana Grbic, f. 4.1. 1978. 3) Yngvi, f. 9.11. 1964, tölvunarfræðingur, maki Guðrún Aðalbjörg Sigurðardóttir, f. 3.12. 1969. Sonur þeirra er Daníel Björn, f. 10.9. 1991, læknir, maki Alice Bower, f. 6.10. 1994. Sonur þeirra er Loftur, f. 15.7. 2021.

Útför Kristínar fer fram frá Fossvogskapellu í Reykjavík í dag, 20. apríl 2022, og hefst athöfnin klukkan 11. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Elsku Dæja tengdamamma er fallin frá, 98 ára að aldri.

Það er ómögulegt að minnast þessarar ljúfu og góðu konu öðruvísi en að flóð sælla minninga komi upp í hugann. Við kynntumst þegar Yngvi sonur hennar og ég fórum að rugla saman reytum þegar ég var einungis 19 ára gömul. Alveg frá fyrsta degi tók hún mér opnum örmum og bauð mig velkomna í fjölskylduna, en fjölskyldan var hennar líf og yndi og sinnti hún henni af mikilli alúð og gætti þess að öllum liði vel. Þegar Daníel Björn, fyrsta barnabarn Dæju, fæddist tveimur árum seinna var það ómetanlegur stuðningur fyrir nýbakaða unga móður að geta leitað til hennar og við urðum enn nánari fyrir vikið. Það myndaðist einnig mjög náið og fallegt samband á milli hennar og Daníels Björns sem varði alla tíð. Þau gátu spjallað saman endalaust um heima og geima og sagði Daníel Björn að Dæja amma væri greindasta manneskjan í fjölskyldunni, en Dæja var bæði skarpgreind og með gott skopskyn.

Heimili hennar í Drápuhlíðinni var árum saman fastur punktur í lífi mínu sem og allrar fjölskyldunnar. Það var alltaf ánægjulegt að koma við í kaffi í eldhúsinu hjá henni til skrafs og ráðagerða. Hún hafði einstaklega gott geðslag og hlýja nærveru og það var hægt að leita hjá henni ráða um hvað það sem var í huga manns hverju sinni. Hún hafði einstakt lag á að ráðleggja manni á nærgætinn og styðjandi hátt og láta manni líða betur með sjálfan sig, lífið og tilveruna.

Dæja tengdamamma var einstaklega falleg og glæsileg kona. Sumar af mínum bestu minningum um hana eru samverustundir okkar þegar ég var að hjálpa henni að hafa sig til fyrir sérstök tilefni, mála hana og hafa til hárið. Það var mjög gefandi að geta aðstoðað hana við slíkt því hjálpin var endurgoldin með miklu þakklæti. Ég á einnig margar aðrar fallegar minningar þar sem við erum að sýsla eitt og annað, baka smákökur fyrir jólin, taka slátur, o.fl.

Stuttu áður en Björn tengdapabbi dó myndaðist sú hefð að öll fjölskyldan kom saman í kaffi í Drápuhlíðinni á laugardögum til að eiga stund saman, en þær samverustundir voru henni mikils virði og héldust allt þar til hún flutti á hjúkrunarheimili. Sú hefð lifir áfram í minni fjölskyldu, en Daníel Björn og hans fjölskylda koma nú reglulega í kaffi til okkar um helgar.

Allt þar til undir það síðasta var Dæja jafnframt ómissandi hluti af jólahátíðinni hjá okkur fjölskyldunni og var m.a. alltaf hjá okkur á aðfangadagskvöld.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft þau forréttindi að fá Dæju tengdamömmu inn í líf mitt. Hún reyndist mér alltaf ákaflega vel og hefði ég ekki getað óskað mér betri tengdamömmu og ég elskaði hana innilega. Það er sárt að sjá á bak henni því hún var eins og sólin sem skein svo skært á allt og alla í kringum sig og geislar hennar hlýjuðu öllum sem urðu þeirra aðnjótandi. En minningin um einstaklega góða konu mun lifa áfram í hjarta þeirra sem fengu að verða samferða henni í lífinu.

Kveðja,

Guðrún Aðalbjörg

Sigurðardóttir (Gógó).