Gunnar myndi vilja sjá íslensk stjórnvöld skapa sterkari hvata á sviði sjálfbærni- og loftslagsmála.
— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Deloitte-teyminu hefur borist góður liðsauki og mun Gunnar Sveinn stýra loftslags- og sjálfbærniuppbyggingu félagsins á Íslandi og Norðurlöndunum. Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?
Deloitte-teyminu hefur borist góður liðsauki og mun Gunnar Sveinn stýra loftslags- og sjálfbærniuppbyggingu félagsins á Íslandi og Norðurlöndunum.
Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?
Það var málstofa á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða og Seðlabankans um flokkunarkerfi ESB, sjálfbærnistaðla og fleiri spennandi reglugerðir tengdar sjálfbærni sem eru væntanlegar hingað til lands á næstunni. Mjög áhugavert, það fannst mér a.m.k., og flutt ég m.a. erindi þessu tengt.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Paul Polman er mikill snillingur og er nýja bókin hans
Net Positive
afbragðslesning um hvernig fyrirtæki geta náð góðum árangri í rekstri með því að setja sjálfbærni í fyrsta sæti. Einnig hlusta ég á
Outrage+Optimism
hlaðvarpið með Christiönu Figueres sem gefur góða innsýn inn í málefni líðandi stundar í tengslum við loftslagsmálin. Þar fyrir utan hef ég stundað talsverða sjálfsrækt og stúderað Baron Baptiste, Tony Robbins, Brene Brown og Sadhguru. Að horfa inn á við og vinna með sjálfan mig hefur hjálpað mér að vaxa í starfi og í lífinu en halda um leið jarðtengingu.
Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?
Ég les mikið og hlusta á hlaðvarp um alls konar efni í tengslum við sjálfbær fjármál, kolefnisverkefni, hringrásarhagkerfi, loftslagsbreytingar og þess háttar. Reyni líka að taka þátt í viðburðum, bæði á netinu en einnig núna í auknum mæli í eigin persónu sem er afar ánægjulegt.
Hugsarðu vel um líkamann?
Ég stunda power yoga í heitum sal nánast daglega og byggi upp styrk, liðleika og úthald auk þess að fá andlega ró og hvíld. Ég mæli með því fyrir alla, sérstaklega fyrir þá sem hafa gamla lúna fótboltafætur eins og ég.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?
Að stýra stærsta sjálfbæra framtakssjóði heims sem fjárfesti m.a. í grænni orku, kolefnisbindingu og hringrásarhagkerfi væri spennandi. Áherslan yrði fyrst og fremst á að hafa jákvæð áhrif út frá lækkun kolefnislosunar og aukinnar kolefnisbindingar, meiri endurvinnslu á sorpi og þess háttar. Um leið yrðu þetta arðbærar fjárfestingar þar sem ég tel að það séu meiriháttar fjárfestingartækifæri í sjálfbæra/græna hagkerfinu og þar eigum við Íslendingar mikil tækifæri.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Líklega myndi ég bæta við mig MSc-gráðu í sjálfbærni hjá Cambridge en auk þess væri ég spenntur fyrir því að fara til Indlands og í jóganám hjá Sadhguru, við Inga erum með það á óskalistanum.
Hvaða kosti og galla sérðu
við rekstrarumhverfið?
Besta leiðin til að ná árangri í loftslagsmálum og sjálfbærni er að gera það að „góðum bissness“ fyrir fyrirtæki og fjárfesta en við Íslendingar erum nokkuð á eftir norrænum kollegum okkar hvað þetta varðar. Ég myndi vilja sjá stjórnvöld lyfta grettistaki í þessum málum á næstu 1-3 árum og útbúa skilvirkt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki og fjárfesta sem byggði á skýrum sjálfbærum/grænum hvötum [gulrótum] en setti um leið álögur og kvaðir á þau sem ekki standa sig [prik].
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Að öll fyrirtæki og stofnanir verði að vera kolefnishlutlaus, og að slíkt verði staðreynt af endurskoðenda, fyrir árið 2030.