Það er handagangur í öskjunni hjá Einari Long þegar blaðamaður hringir enda mikið af pöntunum sem þarf að afgreiða þessa dagana. Virðist grillsumarið ætla að fara mjög vel af stað.
Ágætisveður var í kringum páskana og segir Einar að salan fari yfirleitt á flug með fyrstu góðu vordögunum. Hefur undanfarin vika enda verið mjög annasöm og Einar þurft að byrja dagana snemma til að senda framleiðendum nýjar pantanir og tryggja að afgreiða megi viðskiptavini dagsins vandræðalaust.
Hjá Grillbúðinni eru það gasgrillin sem seljast mest enda á margan hátt handhægari og notendavænni en kolagrillin. „Um 95% þeirra grilla sem við seljum eru gasgrill, en við sjáum það æ oftar að fólk kýs að eiga bæði gas- og kolagrill. Að grilla með kolum þýðir jú oft að það verður afslappaðri stemning í kringum matseldina, enda þarf fólk að gefa sér góðan tíma til að undirbúa grillið. Svo gefa kolin líka gott reykjarbragð sem margir sækjast eftir,“ segir Einar en minnir á að í gasgrillunum megi koma fyrir litlu boxi með viðarspæni til að reykkrydda matinn.
Grilleigendur þurfa varahluti
Grillbúðin er fimmtán ára gömul sérverslun og flytur inn grill frá þýsku framleiðendunum Landmann og Enders og er rík áhersla lögð á gott framboð varahluta. „Við seljum vönduð grill, en regluleg notkun kallar samt alltaf á viðhald og viðgerðir og skiptir þá miklu máli fyrir viðskiptavinina að geta stólað á góða varahlutaþjónustu til að halda grillinu í topp ástandi,“ útskýrir Einar.Ein greinileg breyting á neytendahegðun Íslendinga er vaxandi vinsældir eldstæða. Segir Einar að æ fleiri komi auga á hvernig eldstæði getur skapað notalega stemningu úti í garði og haldið á fólki hita. „Börnin hafa líka mjög gaman af eldstæðunum og finnst skemmtilegt að grilla sykurpúða yfir opnum eldi,“ segir Einar. „Var eftirspurnin slík síðasta sumar að við urðum uppiskroppa með eldstæði en eigum mikið úrval eldstæða á lager nún. Hefur ein gerðin, „Ball of Fire“, verið einstaklega vinsæl.“