[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Þörf er á margvíslegum úrbótum vegna stórfjölgunar rafhlaupahjóla og fleiri smáfarartækja í umferðinni, ekki síst til að auka öryggi vegfarenda og notenda þessara ökutækja.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Þörf er á margvíslegum úrbótum vegna stórfjölgunar rafhlaupahjóla og fleiri smáfarartækja í umferðinni, ekki síst til að auka öryggi vegfarenda og notenda þessara ökutækja. Hjólafloti leigufyrirtækja stækkar ört og innflutningur rafhlaupahjóla í einkaeigu hefur aukist mikið.

Starfshópur sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði í janúar sl. til að kortleggja stöðu smáfarartækja hefur birt drög að sex tillögum til úrbóta í nýútkominni skýrslu. Þar kemur fram að á árinu 2020 varð algjör sprenging í innflutningi rafhlaupahjóla þegar flutt voru til landsins tæplega 20 þúsund ný hjól og á seinasta ári voru flutt inn um átta þúsund hjól til viðbótar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um endingu rafhlaupahjóla sem eru í einkaeigu en starfshópurinn segir að ætla megi að 25 til 30 þúsund slík tæki séu í notkun hjá einstaklingum.

„Ætla má að farnar verði 5 til 9 milljónir ferða á hjólum í einkaeigu árið 2022. Þessu til viðbótar koma ferðir á leiguhjólum. Hopp er stærsta fyrirtækið sem leigir út rafhlaupahjól og áætlar fyrirtækið að farnar verði 1,9 milljónir ferða á þeirra hjólum árið 2022. Mögulega verður heildarfjöldi ferða á leiguhjólum 2,5-3 milljónir árið 2022. Ef þetta gengur eftir verða þá farnar 7,5 til 12 milljónir ferða höfuðborgarsvæðinu á rafhlaupahjólum árið 2022.

Til samanburðar má geta þess að farþegafjöldi Strætó er um 12 milljónir en ferðir með strætisvögnum eru lengri en ferðir á rafhlaupahjólum,“ segir í skýrsludrögum starfshópsins, sem birt hafa verið í samráðsgátt stjórnvalda.

Nokkuð hefur verið fjallað um tillögur starfshópsins um úrbætur til að auka öryggi í umferðinni. Stóraukin notkun rafhlaupahjóla kann að hafa umtalsverð áhrif á ferðamáta fólks í þéttbýli. Vísað er í skýrslunni í kannanir sem sýna að með aukinni hlutdeild rafhlaupahjóla í umferðinni dregur nokkuð úr bílaumferð á styttri leiðum, sem minnkar þannig losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsóknir hafa þó einnig bent til þess að með tilkomu deilihjóla og deilirafskúta hætti margir að nota almenningssamgöngur og grípi frekar til þess ráðs að ferðast á hjóli. Vegagerðin hefur birt rannsóknarverkefni sem unnið var á vegum Mannvits á samspili ferða lítilla og léttra farartækja á borð við rafhjól og rafskútur (svonefnds örflæðis í umferðinni) og almenningssamgangna. Þar er m.a. vísað í erlendar rannsóknir sem benda til þess að í borgum þar sem byggð er dreifð og almenningssamgöngur ekki eins þéttar og mörgum erlendum stórborgum geti hjólanotkun og almenningssamgöngur farið vel saman, sérstaklega utan miðbæjar.

Settar eru fram ýmsar sviðsmyndir sem byggðar eru á mismunandi forsendum um mögulega hlutdeild bílaumferðar, hjólreiða og almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Allar benda þær til þess að notkun einkabílsins muni minnka og notkun vistvænni ferðamáta aukast en einnig má þó ætla að í styttri ferðum muni fólk nýta almenningssamgöngur í minna mæli og grípa til hjólanna. Vísað er til þess að skv. aðalskipulagi Reykjavíkur er markmið sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu að hlutdeild bíla minnki í 58% árið 2040, hlutdeild almenningssamgangna aukist í 12%, hlutdeild hjólandi verði a.m.k. 8% og hlutdeild gangandi verði hið minnsta 22% á árinu 2040.

Aldursmörkin verði 13 ár

Starfshópur samgönguráðherra leggur m.a. til í skýrsludrögum að hámarkshraði smáfarartækja á borð við rafhlaupahjól verði ekki yfir 25 km/klst. Aldursmörk ökumanna aflknúinna smáfarartækja verði 13 ár og hjálmaskylda miðist við yngri en 16 ára. Refsivert verði að stjórna smáfarartæki ef magn áfengis er meira en 0,5&perthou; í blóði ökumanna. Sektir vegna brota verði hækkaðar í forvarnarskyni og miðað við að ljúka málum á staðnum með greiðslu sektar, fremur en að handtaka ökumenn og færa á lögreglustöð. Breytingar á hraðastillingum hjólanna verði bannaðar. Umferðarfræðsla verði hluti af aðalnámskrá og ef tillögur um bann við ölvunarakstri og aldursmörk gangi eftir verði hægt að leyfa akstur rafknúinna smáfarartækja í umferð á vegum þar sem hámarkshraðinn er 30 km/klst.