Jarðarför í Bútsja Ættingjar Míkhaílós Romanjúks undirbúa jarðarför hans í Bútsja í gær. Rússneskir hermenn skutu hann til bana þar sem hann var á reiðhjóli í borginni 6. mars síðastliðinn.
Jarðarför í Bútsja Ættingjar Míkhaílós Romanjúks undirbúa jarðarför hans í Bútsja í gær. Rússneskir hermenn skutu hann til bana þar sem hann var á reiðhjóli í borginni 6. mars síðastliðinn. — AFP/Yasuyoshi Chiba
Joe Biden Bandaríkjaforseti og leiðtogar helstu ríkja Evrópu sammæltust í gær um að auka enn á einangrun Rússa á alþjóðavettvangi vegna innrásarinnar í Úkraínu, er þeir funduðu yfir fjarfundabúnað.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og leiðtogar helstu ríkja Evrópu sammæltust í gær um að auka enn á einangrun Rússa á alþjóðavettvangi vegna innrásarinnar í Úkraínu, er þeir funduðu yfir fjarfundabúnað. Olaf Scholz Þýskalandskanslari sagði eftir fundinn að Vladimír Pútín Rússlandsforseti bæri ábyrgðina á þeim stríðsglæpum sem Rússar hefðu framið gegn óbreyttum borgurum í Úkraínu.

Scholz sætir nú sífellt meiri þrýstingi heima í Þýskalandi um að senda þungavopn til Úkraínu. Sagði hann að „nýr fasi“ stríðsins væri hafinn með stórsókn Rússa í Donbass-héruðunum, en svaraði ekki beint hvort Þjóðverjar hygðust senda skriðdreka og flugvélar til Úkraínu. Þjóðverjar hafa nú þegar sent skriðdrekabana og loftvarnarflaugar til Úkraínumanna, en Scholz sagði að Þjóðverjar myndu ekki „fara einir“ út í það að senda þungavopn, og að slík ákvörðun yrði að vera tekin í samráði við bandamenn Þýskalands.

„Frelsun“ Donbass markmiðið

Sókn Rússa í Donbass-héruðunum hélt áfram í gær, en Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands lýsti því yfir að markmið Rússa væri að „frelsa“ Donetsk- og Luhansk-héruð frá þjóðernissinnuðum Úkraínumönnum. Rússar náðu borginni Kreminna á sitt vald í gær, en þeir létu einnig stórskotahríð dynja á víglínunni í austurhluta landsins.

Í Karkív létust þrír og 21 særðist í loftárás rússeska hersins í gær. Héraðsstjórinn Oleg Sinegubóv sagði að Rússar hefðu hert á árásum sínum á borgina, en á mánudag létust fimm í árásum og fimmtán særðust.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði í gærkvöldi að Úkraínumenn hefðu náð að hrinda fjölmörgum áhlaupum Rússa og að stórsókn þeirra í Donbass-héruðunum væri enn plöguð af sömu vandamálum og hefðu reynst Rússum svo erfið í sókn þeirra að Kænugarði.

„Vangeta Rússa til þess að kveða niður mótspyrnu í Maríupol og gegndarlausar árásir þeirra, sem hafa skaðað almenna borgara, benda til þess að enn eigi Rússar í vandræðum með að ná markmiðum sínum eins fljótt og þeir vilja,“ sagði í greiningu ráðuneytisins.

20.000 málaliðar með í för

Vestrænir sérfræðingar telja að nú séu um 20.000 málaliðar frá Wagner-hópnum svonefnda að berjast við hlið rússneskra hermanna í Úkraínu, en þeir hafa komið að aðgerðum fyrir Rússa víða, meðal annars í Líbíu og í Sýrlandi. Talið er að þeir séu einkum notaðir sem fótgönguliðar til að styðja við árás landhersins, en Wagner-hópurinn er ekki búinn bryndrekum eða þungavopnum.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið lýsti því yfir í gær að Úkraínumenn hefðu nú fengið afhentar orrustuþotur, sem og varahluti í flugvélar, til þess að styrkja flugher þeirra fyrir komandi átök. Ráðuneytið tók ekki fram hversu margar flugvélar, eða af hvaða gerð þær væru, en John Kirby, talsmaður ráðuneytisins, gaf til kynna að þær ættu uppruna sinn að rekja til Rússlands eða Sovétríkjanna sálugu.

Flugher Úkraínu treystir að meginstofni á slíkar vélar, og hafa því ríki sem áður voru í Varsjárbandalaginu aðstoðað við að veita þeim fleiri slíkar orrustuþotur. Tók Kirby fram að Bandaríkin hefðu ekki flutt heilar þotur til Úkraínu.