Afsökun Boris Johnson sést hér fara frá Downingstræti 10 í gær.
Afsökun Boris Johnson sést hér fara frá Downingstræti 10 í gær. — AFP/Ben Stansall
Öll spjót standa nú á Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands vegna „Partygate“-hneykslisins svokallaða, þegar sóttvarnalög vegna heimsfaraldursins voru brotin í afmælisveislu hans árið 2020.

Öll spjót standa nú á Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands vegna „Partygate“-hneykslisins svokallaða, þegar sóttvarnalög vegna heimsfaraldursins voru brotin í afmælisveislu hans árið 2020. Hneykslið virðist ætla að verða lífseigt, en lögreglan í Lundúnum hefur gefið út 50 sektir vegna málsins. Johnson er einn þeirra sem voru sektaðir og varð þar með fyrsti forsætisráðherra Bretlands sem fær sekt fyrir að brjóta lög.

Forsætisráðherrann baðst afsökunar á hegðun sinni í umræðum á breska þinginu í gær, en búist er við að Íhaldsflokkurinn tapi fylgi á þessu máli í sveitarstjórnarkosningum í næsta mánuði. Von er á ítarlegri skýrslu frá lögreglu um málið sem gæti orðið Johnson skeinuhætt.

Hann hefur þó átt miklu fylgi að fagna, ekki síst vegna framgöngu sinnar vegna stríðsátakanna í Úkraínu. Spurningin er þó hvort samflokksmenn muni áfram styðja við Johnson ef flokkurinn kemur illa út í kosningunum í maí og þegar fleiri fréttir berast af rannsókn lögreglu af veislustandinu.

„Fleiri sektir og fleiri neikvæðar fréttir um forsætisráðherrann gætu breytt hugum fleiri kjósenda sem aftur gæti breytt hugum Íhaldsmanna ef þeir bíða afhroð í kosningunum,“ sagði Anand Menon prófessor í King's College við AFP-fréttastofuna í gær. Sagði Menon Johnson hafa sýnt af sér mikla þrautseigju í embætti, en að hann myndi þó ekki standast hvaða áfall sem er.

Uppsögn Davids Wolfsons dómsmálaráðherra vegna málsins í síðustu viku þykir ekki veita góðan fyrirboða um framhaldið, sér í lagi ef fleiri ráðherrar ákveða að segja af sér.