Evra Krónan er nú sterkari gagnvart evru en hún var í febrúarmánuði 2020.
Evra Krónan er nú sterkari gagnvart evru en hún var í febrúarmánuði 2020. — Ljósmynd/AFP
Gjaldmiðlar Evran veiktist um 0,71% gagnvart íslensku krónunni á gjaldeyrismarkaði í gær.

Gjaldmiðlar

Evran veiktist um 0,71% gagnvart íslensku krónunni á gjaldeyrismarkaði í gær. Kostar ein evra nú 139,4 krónur og hefur ekki verið hagstæðara að ganga til slíkra viðskipta fyrir krónueigendur síðan í lok febrúar 2020, rétt í þann mund sem heimsfaraldur krónuveirunnar lagðist sem mara yfir heimshagkerfið. Í þeim aðstæðum leituðu fjárfestar í helstu viðskiptagjaldmiðla heims, ekki síst dollara og evrur. Frá því að faraldurinn hófst hefur gengi evru gagnvart krónu sveiflast mikið og varð hún dýrust í september 2020 og kostaði þá 165,9 krónur.

Nokkra athygli vekur að gengi krónu gagnvart evru hefur jafnað sig mun betur en gagnvart t.d. bandaríkjadal og bresku sterlingspundi. Sé miðað við gengi gjaldmiðlanna 1. febrúar 2020 er krónan nú 0,21% sterkari en hún var gagnvart evru á þeim tíma. Hún er hins vegar 3,85% veikari gagnvart bandaríkjadal og 3,71% veikari gagnvart pundinu.

Styrking krónunnar hefur verið nokkuð stöðug síðustu mánuði en talsverður afturkippur kom þó í þá þróun þegar stríð Rússa við Úkraínumenn braust út í lok febrúar. Gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar hafa verið á góðri siglingu og virðist ferðaþjónustan, sem fyrir kórónuveirufaraldurinn var sú stærsta í íslensku hagkerfi, vera að ná vopnum sínum að allnokkru marki.

Seðlabankinn hefur á undanförnum mánuðum ítrekað gripið inn í á gjaldeyrismarkaði og selt gjaldeyri til þess að sporna við of hraðri styrkingu krónunnar.