[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Asco Harvester í Stykkishólmi hefur boðað til íbúakynningar í næstu viku vegna áforma félagsins um að setja upp fullvinnslu þörunga í bænum.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Asco Harvester í Stykkishólmi hefur boðað til íbúakynningar í næstu viku vegna áforma félagsins um að setja upp fullvinnslu þörunga í bænum. Sláttuprammi fyrir þang er tilbúinn og reiknað er með að það taki ár að koma upp nauðsynlegri aðstöðu til að þurrka hráefnið. Áhugi er á fullvinnslu afurðanna.

Systkinin Anna, Ingvar og Ómar Kristjánsbörn stofnuðu fyrirtækið Asco Harvester í Stykkishólmi fyrir sex árum. Hafa þau þróað og smíðað sérhæfðan þangpramma og búnað til að slá þara til nota við umhverfisaðstæður á Breiðafirði. Þau hafa jafnframt haft áhuga á að byggja upp fullvinnslu á afurðum úr þangi og þara í sinni heimabyggð. Fyrirtækið Sæfell sem leitt er af bræðrunum Gunnlaugi og Halldóri Árnasonum tók upp samstarf við Asco og fengu þeir Sigurð Pétursson til liðs við sig sem hluthafa og stjórnarformann. Sigurður stofnaði og var framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish á Vestfjörðum. Mikil reynsla er í þessum hópi af ýmsum þáttum sem horft er til við stofnun og rekstur slíks fyrirtækis.

Umhverfisvæn framleiðsla

Þörungaverkefnið verður kynnt íbúum á fundi síðdegis á fimmtudaginn í næstu viku.

Sigurður segir að verkefnið snúist um uppbyggingu á sjálfbærri og umhverfisvænni öflun og framleiðslu þörunga til samfélagsuppbyggingar í nærumhverfinu í Stykkishólmi. Það verður gert með þangslætti í sunnanverðum Breiðafirði og öflun þara. Þangsláttur er háður leyfi og samstarfi við landeigendur og leyfi þarf hjá yfirvöldum til öflunar þara. Hefur verið sótt um tilraunaleyfi fyrir þarann en einnig verið gerður samstarfssamningur við aðila sem eru að gera tilraunir með ræktun á þara.

Fyrirtækið hefur fengið vilyrði fyrir lóð í nágrenni Skipavíkur en þar er hafnaraðstaða fyrir hendi. Þar verður byggt hús og komið upp aðstöðu til þurrkunar og vinnslu á hráefninu. Til þess verður notað heitt vatn og græn raforka. Sigurður segir að verið sé að safna saman sérhæfðum búnaði til þurrkunar og frumvinnslu. Segir hann að aðstandendur fyrirtækisins ætli sér eitt ár í að koma aðstöðunni upp.

Stefnt er að vinnslu úr um tvö þúsund tonnum af þangi á ári, á fyrstu tveimur árunum. Síðan verði hugað að hægum vexti. Búnaðurinn sem verið er að festa kaup á annar um sex þúsund tonna framleiðslu á ári.

Segir Sigurður að ekki síður sé horft til þess að reyna að gera sem mest úr því hráefni sem aflað verður. Aðstandendur verkefnisins séu opnir fyrir samstarfi við aðra í því efni. Þörungar eru notaðir í dýrafóður og áburð en einnig í matvæli, plast og snyrtivörur.

Áhugi á Breiðafirði

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur í mörg ár skorið þang og þara á Breiðafirði til vinnslu á Reykhólum. Áhugi var á vinnslu í sunnanverðum Breiðafirði og kepptu tvö erlend fyrirtæki um hylli bæjaryfirvalda í Stykkishólmi. Teknar voru upp viðræður við alþjóðlega fyrirtækið Acadian Seaplants sem að stofni til er kanadískt um mikla uppbyggingu á þessu sviði.

Sigurður segir að áform Asco Harvester séu mun smærri í sniðum og geti nýtt þá innviði sem nú þegar eru til staðar í Stykkishólmi. Hann segir að það muni aðeins styrkja verkefnið ef stóru áformin verði að veruleika.

Nýting á bláum ökrum

Mjög vaxandi áhugi er á vinnslu og ræktun á þara og þangi hér á landi. Eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins nýlega líður varla sú vika að Hafró berist ekki fyrirspurn um það efni.

Sigurður Pétursson segir að Evrópa hafi verið að vakna til vitundar um þennan þátt í umhverfisvænni framleiðslu á bláu ökrum hafsins. Áður hafi nánast öll framleiðslan komið frá Asíu og þá úr ræktun. Bendir hann á að engin lífræn afurð bindi eins mikinn koltvísýring og þari og það ýti undir áhuga manna á ræktun. „Hér er því mjög umhverfisvæn leið til framleiðslu afurða sem meðal annars eru nýttar til manneldis,“ segir Sigurður.