Urður Egilsdóttir
urdur@mbl.is
Einstaka lundi er farinn að sjást í Vestmannaeyjum en að sögn Erps Snæs Hansen, forstöðumanns Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum, er þó ekki enn hægt að tala um að lundinn hafi sest upp í Eyjum.
„Hann er ekki farinn að sýna sig í neinu magni ennþá. Þegar talað er um að hann setjist upp þá kemur öll heila hersingin og sest upp, það er hinn eiginlegi lundadagur.“
Erpur segir að samkvæmt venju sé hann sestur upp um 15. apríl og því sé lundinn heldur seinn í því en þeir hljóti þó að koma á næstu dögum.
Einkennileg staða í Eldey
Inntur eftir því hvort hann hafi áhyggjur af því að fuglaflensan, sem finnst nú á landinu, muni herja á lundann segir Erpur menn vissulega hafa áhyggjur af því.Hætt er við að töluvert sé um fuglaflensusmit í villtum fuglum um þessar mundir, en hann nefnir að meðal annars hafi fundist súla í Eldey með smit.
„Það er eitthvað einkennilegt í gangi í Eldey. Fuglum hefur fækkað töluvert mikið frá því í lok mars,“ segir Erpur og bætir við að það sé mjög óvanalegt. Dauðir fuglar séu í forgrunni í myndavélum í eyjunni.
Hann segir að því geti verið að fuglarnir hafi farið af eyjunni til þess að forða sér frá veirunni. Þá segir Erpur að einnig gætu aðrir sjúkdómar hrjáð súluna eða þörungaeitranir valdið usla.
„Samskiptin eru töluverð á þessum fuglum og Eldey er ekki langt frá Vestmanneyjum,“ segir hann en tíu þúsund súlupör eru í Vestmannaeyjum í fjórum súlubyggðum. „Þetta verpir allt hvað innan um annað, þannig að ef þetta er mjög smitandi þá er ekki ólíklegt að þetta geti dreifst,“ segir Erpur og bætir við að um ein og hálf milljón lunda komi til Eyja á hverju ári. Því geti afleiðingarnar orðið allsvaðalegar ef veiran er svæsin.
Erpur segist þó vona að fuglaflensan hafi sem minnst áhrif og einungis fáir smitist. Sjálfsagt hagi veiran sér eitthvað mismunandi eftir fuglategundum. Þá sé mismunandi hvernig hún leggst á einstaka fugla. „Þetta er eins og í mannfólkinu; sumir finna ekki mikið fyrir þessu en aðrir drepast. Það er allur gangur á því væntanlega.“
Matvælastofnun greindi frá því í gær að veiran hefði greinst í sýnum sem tekin voru úr heimilishænum á bænum Reykjum á Skeiðum 15. apríl. Hænurnar voru með sjúkdómseinkenni sem bentu sterklega til að um fuglaflensu væri að ræða. Þá er tekið sérstaklega fram að engin dæmi séu um að fólk smitist af fuglaflensu við neyslu eggja eða fuglakjöts, hvort sem er af alifuglum eða villtum fuglum.