Þórir Sævar Maronsson fæddist 15. janúar 1937. Hann lést 27. mars 2022.

Útför hans fór fram 1. apríl 2022.

Það mun hafa verið í byrjun árs 2020 sem ég heyrði síðast í góðum samstarfsmanni til margra ára, Þóri Maronssyni. Man að þau Elsa voru þá nýbúin að selja sumarhús sitt í Fljótstungulandi í Hvítársíðu, en Þórir var ávallt hvetjandi þegar ég ræddi það áhugamál mitt að eignast „lítinn kofa“, eins og ég orðaði það oft, í Borgarfirðinum okkar góða. Sagði hann það ómetanlegt að geta kúplað sig út úr erilsamri vinnu með smápúli við trjárækt og öðru því sem fylgir sumarbústaðareign. Svo fór að við Þurý eignuðumst kofa sem með góðra manna hjálp breyttist í ágætishús, og umræðuefni okkar Þóris í símtölunum mörgu breyttust í reynslusögur af hagnýtum ráðum um eitt og annað í sveitinni.

En þrátt fyrir að við værum báðir hættir í föstu starfi var af og frá að við hættum að hingjast á. Oft hófust símtölin frá Þóri á:

„Hvað segirðu nú?“ þegar hann var nýbúinn að lesa einhverja frétt sem hann taldi að ég hefði skoðanir á, og við skiptumst á athugasemdum um að svona ættu menn nú ekki að gera, eða þá að svona ættu sýslumenn að vera.

Símtölin voru mér mikils virði, enda Þórir afburðagreindur og skemmtilegur félagi sem mannbætandi var við að ræða. Má ég til með í því sambandi að minnast á sameiginlegan tónlistaráhuga okkar, en á því sviði var hann afar fróður og minnugur.

En á meðan við vorum báðir í annasömu starfi, ég hjá Umferðarráði og hann yfirlögregluþjónn í Keflavík, voru umræðuefnin því miður oft erfið, m.a. í kjölfar alvarlegra umferðarslysa.

Við áttum í áratugi það sameiginlega markmið að Reykjanesbrautin yrði stórbætt, vegfarendum til aukins umferðaröryggis, en öll þau banaslys sem þar urðu voru algjörlega óásættanleg og fjárveitingavaldi margra kjörtímabila óafsakanleg. Skilninginn virtist vanta. Ég hef ekki tölu á öllum þeim fundum sem Umferðarráð efndi til um Reykjanesbrautina. Þórir var þar fastur gestur, með eða án Jóns Eysteinssonar þáverandi sýslumanns, Rögnvaldur Jónsson, umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar, sat þá auðvitað alla og mjög margra annarra væri ástæða til að geta. En þrátt fyrir marga fundi, þ.á m. með þingmönnum, náðum við of litlum árangri.

Ýmsar úrbætur voru vissulega gerðar, en það var ekki fyrr en heimafólk á Reykjanesi lét til sín taka, að skriður komst á málið, og meginhluti brautarinnar var tvöfaldaður, en verkinu enn ekki lokið.

Þórir var með þá góðu reynslu í farteskinu að hafa unnið að lagningu Reykjanesbrautar á sínum tíma, og vissi vel hvað gera þyrfti.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa var þá ekki komin til sögunnar og oft bað ég ofanritaða samstarfsmenn og fleiri að hitta okkur á vettvangi alvarlegra slysa, til þess að reyna að koma auga á hvað gera mætti til úrbóta.

Átti þetta auðvitað við um mörg önnur sýslumannsembætti, sem lögreglan var þá hluti af.

Fyrir öll þessi samskipti er ég þakklátur, m.a. fyrir það að innan lögreglunnar og á meðal sýslumanna eignaðist ég marga góða vini, eins og Þóri.

Innilegar samhryggðarkveðjur til Elsu og fjölskyldunnar allrar. Bjart er yfir minningum um samskipti við Þóri Maronsson.

Óli H. Þórðarson.