Á fjögurra ára ferli mínum sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur hópur fólks sem býr nálægt næturklúbbum í miðbænum haft samband við mig og lýst ömurlegri tilveru um nætur þegar stemning gesta næturklúbba er í hámarki.
Í nóvember 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni og að henni yrði fylgt til hins ýtrasta. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs þar sem hún er enn.
Vissulega veitti Covid þessum íbúum grið um tíma en nú er allt komið í sama farið. Reglugerðin sem hér um ræðir er í sjálfu sér ágæt. Eina vandamálið er að henni er einfaldlega ekki framfylgt. Auk þess stangast leyfi fyrir afgreiðslutíma skemmtistaða á við þau lög að íbúar eigi rétt á svefnfriði frá klukkan 23 til sjö að morgni, óháð búsetu, samkvæmt 4. grein lögreglusamþykktar. Einnig er sláandi að hávaðamörkum er ekki framfylgt með nokkrum viðunandi hætti en þau mega ekki fara yfir 50 desíbel úti á götum (Evrópusambandið miðar við 40 desíbel). Ítrekað hefur verið hringt í lögreglu, sem íbúar segja að hafi engu skilað.
Friðhelgi fólks virt að vettugi
Hjá mörgum þessara íbúa er mælirinn löngu fullur. Í nærumhverfi þessara næturklúbba er blönduð byggð þar sem margar barnafjölskyldur eiga heima, öryrkjar og eldra fólk. Þegar íbúarnir hafa kvartað við yfirvöld hefur mætt þeim tómlæti. Þeir eru jafnvel spurðir hvers vegna „þeir flytji ekki bara eitthvað annað?“Hér er verið að tala um næturklúbba sem eru opnir til klukkan 4.30 með tilheyrandi hávaða, götupartíum, skrílslátum, sóðaskap og ofbeldi. Að leyfa diskótek í gömlum, fullkomlega óhljóðeinangruðum timburhúsum verður að teljast harla undarlegt. Hávaðinn, aðallega bassinn, berst langar leiðir um götur og torg. Margir íbúar, sérstaklega konur, veigra sér einnig við að vera úti eftir miðnætti um helgar af ótta við að verða fyrir aðkasti og áreitni.
Þessir næturklúbbar selja áfengi fram á lokamínútu. Frést hefur af fólki sem vill halda áfram að djamma ganga út með birgðir af áfengi þegar skellt er í lás. Ekki er óalgengt að íbúar finni fólk í görðum sínum, eða á útidyratröppunum, sem lagst hefur þar til svefns eða dáið drykkjudauða. Ferðamenn líða einnig fyrir næturdjammið í miðbænum. Eigendur hótela og gistihúsa fá stöðugar kvartanir frá hótelgestum um að þeir geti ekki sofið fyrir hávaða. Sú sjón sem blasir við ferðamönnum þegar þeir fara í skoðunarferðir snemma morguns eða út á flugvöll er heldur ófögur og ekki borginni til sóma. Það er engu líkara en að borgaryfirvöld séu algerlega meðvitundarlaus um þennan ófögnuð.
Ælur, smokkar, saur og ofbeldi
Þegar fólk hefur drukkið ótæpilega leiðir það m.a. til þess að dómgreind og skynsemi víkur. Ofurölvun getur aukið líkur á ólöglegu atferli, áreitni og ofbeldi. Ölvaðir gestir næturklúbba kasta stundum af sér vatni þar sem þeir standa og ganga örna sinna á hinum ólíklegustu stöðum, t.d. á tröppum fólks, í görðum eða geymslum þeirra. Sprautunálum, bjórdósum, glösum, smokkum, sígrettustubbum og matarleifum er hent hvar sem er og endar það oftar en ekki á tröppum íbúanna eða í görðum þeirra.
Dauðir hlutir njóta heldur engra griða. Veggjakrot og eignaspjöll fá að þrífast án nokkurrar refsingar. Bílar íbúanna hafa sömuleiðis verið skemmdir, inn í þá brotist eða skorið á dekkin. Þeir sem hafa leitað til lögreglu eða tryggingafélaga með þessi mál hafa ekki haft erindi sem erfiði. Ef kostnaður af skemmdarverkum á eigum fólks í miðborginni sem tengist næturklúbbum væri tekinn saman myndi hann ábyggilega hlaupa á hundruðum milljóna króna. Þá er ótalinn sá andlegi skaði sem íbúar hafa orðið fyrir.
Hvað er til ráða?
Þetta ófremdarástand má auðveldlega strax bæta. Það er enginn að tala um að banna næturklúbba. Fyrsta skrefið er að virða gildandi reglugerðir. Skala þarf niður hávaðann. Skoða mætti einnig hvort ekki væri hægt að finna næturklúbbum af þessari tegund hentugri staðsetningu, utan almennrar íbúðarbyggðar. Byggja mætti upp ákveðið „party zone“, t.d. úti á Granda, og huga samhliða að samgöngum svo að fólk komist heilu og höldnu aftur heim til sín. Á mínum yngri árum sótti ég staði sem voru ekki í miðri íbúðarbyggð eins og Sigtún, Þórskaffi og Hollywood. Þarna var dansað fram eftir nóttu og úti biðu leigubílar til að koma gestum heim. Til bóta væri einnig að ráða næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk hjá borginni.Það er skylda mín og ábyrgð að hlusta á raddir þessa hóps og þess vegna lagði ég fram í upphafi kjörtímabilsins tillöguna um að reglugerð um hávaðamengun yrði fylgt eftir. Ég spurðist fyrir um þessa tillögu fyrir skemmstu og var sagt að hún yrði sett á dagskrá eftir kosningar.
Ég vil standa með öllum borgarbúum sem eiga um sárt að binda vegna þess að borgaryfirvöld hafa neitað að hlusta, neitað að skilja og virðast eingöngu vilja þagga óþægileg mál niður. Fyrir kosningar má náttúrlega ekkert skyggja á glansmynd borgarstjóra. Slíkt óréttlæti og undanbrögð verða ekki liðin af okkur í Flokki fólksins.
Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur og skipar 1. sæti á lista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.