[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auður Harpa Þórsdóttir fæddist 20. apríl í Reykjavík. Fyrstu sjö ár ævi sinnar bjó Harpa með foreldrum sínum og tveimur eldri bræðrum í Þjóðminjasafninu, faðir hennar var þjóðminjavörður, en síðar fluttu þau í Skerjafjörðinn.

Auður Harpa Þórsdóttir fæddist 20. apríl í Reykjavík. Fyrstu sjö ár ævi sinnar bjó Harpa með foreldrum sínum og tveimur eldri bræðrum í Þjóðminjasafninu, faðir hennar var þjóðminjavörður, en síðar fluttu þau í Skerjafjörðinn. Hún gekk tvo vetur í Ísaksskóla og fór þaðan í Melaskólann í sjö ára bekk. Þá tók Hagaskóli við og svo Menntaskólinn í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist 1992.

Uppvaxtarárin í Skerjafirðinum voru viðburðaríkur tími. ,,Foreldrar mínir byggðu sér hús á þessum árum þegar margir voru að byggja í hverfinu. Það fluttu því nýir krakkar í Skerjó og ´72 árgangurinn reyndist óvenjustór í þessu hverfi sem var eins og þorp í borg. Æskuvinirnir halda hópinn og fyrir nokkrum árum ákváðum við að taka alltaf sömu sumarhelgina frá til að hittast. Koma þeir sem koma geta og börnin fylgja með. Við höfum oftast tekið hús á vinum okkar á Bíldudal sem eiga líka athvarf í Önundarfirðinum svo Vestfirðirnir hafa verið atkvæðamiklir í þessum félagsskap. Tengdafjölskyldan mín er frá Höfn og þangað liggur leiðin við hin ýmsu tækifæri og sumarbústaður foreldra minna í Skorradal er fjölskyldunni vin sem er nýtt bæði sumar sem vetur.“

Á menntaskólaárunum var Harpa sumarskiptinemi á vegum AFS í Frakklandi og eftir að stúdentsprófi lauk fór hún ásamt æskuvinkonu sinni, Ástríði Magnúsdóttur, til vetrardvalar í París að læra frönsku. Ársdvölin varð að tíu árum, en Harpa lauk BA-námi og síðar meistaranámi í listasögu frá Sorbonne í París. ,,Það var stór ákvörðun að koma aftur heim, elsta dóttir okkar, María, fæddist í Frakklandi og við vorum bæði með ágæta vinnu. Ég hafði fengið pláss í Háskólanum í Bordeaux þar sem ég hugði á nám í menningarstjórnun, en það togaði sterkt í okkur bæði að flytja heim þegar dóttirin var aðeins nokkurra mánaða. Við fluttum heim 2002 þegar ég var ráðin deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Íslands og starfaði þar í 6 ár þegar ég var ráðin forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands í Garðabæ. Þar var ég í 9 ár, þar til ég var skipuð safnstjóri Listasafns Íslands 2017. Í millitíðinni sótti ég nám í Los Angeles fyrir stjórnun listasafna, við Getty Leadership Institut þar sem áherslan er lögð á breytingastjórnun og viðskiptalega og hagræna þætti við stjórnun safna.“

Harpa segir að vinnan fléttist kröftuglega við heimilislífið og áhugamálin, menningarmál stór og smá séu henni hugleikin. ,,Ég sæki listsýningar og fer á vinnustofur listamanna og þræði söfn bæði hér heima og erlendis hvenær sem færi gefst. Í Listasafni Íslands erum við að leggja áherslu á að öll listaverkaeignin sé gerð aðgengileg á netinu fyrir bæði skóla og almenning og leggjum aukna áherslu á að skýra frá þeim verkum sem safnið kaupir eða fær að gjöf hverju sinni, ekki síst eftir samtímalistamenn. Á síðasta ári urðu vatnaskil þegar Listasafn Íslands fékk Safnahúsið við Hverfisgötu sem breytir mjög miklu í starfseminni. Núna vinnum við hörðum höndum að því að setja upp sýningu á verkum úr safneigninni, sérstaklega hugsaða fyrir börn, þar sem vísindi og listir munu mætast. Náttúran verður í aðalhlutverki enda er hún rauði þráðurinn í íslenskri listasögu.

,Ég er að reyna að stía tíma frá vinnu til að stunda golf því þessi íþrótt er mjög gefandi að öllu leyti.“ Eiginmaður Hörpu, Kári Sölmundarson, er formaður Golfklúbbsins Odds auk þess sem hann rekur Grotta fiskverkun. ,,Stelpurnar okkar vinna hjá honum í fiski á sumrin og í skólafríum og þær standa sig vel. En ég er sennilega sú eiginkona golfformanns hér á landi með hæstu forgjöfina og verð að fara að gera eitthvað í því.“ Auk golfáhugans segir Harpa að undanfarin ár hafi hún lagt áherslu á lestur ævisagna. ,,Ævisögur listamanna eru til að mynda mjög skemmtilegar en þó varð ég fyrir mestri uppljómun þegar ég las ævisögu Marie Curie fyrir nokkrum árum.“

Bróðir Hörpu, Þórður, er skipstjóri á skemmtiferðaskipinu Voyager of the Seas og hefur Harpa siglt töluvert með honum. ,,Það getur verið jafn kómískt að elta hvíta kúlu upp um holt og hæðir og vera farþegi í skemmtiferðaskipi og fylgjast með mannfólki í fríi, í þessu þorpi sem skipið er. Þetta hafa verið bestu fríin, fjölskylduvæn og fela í sér mikla afslöppun og þennan ævintýraljóma sem skipin búa yfir.“

Af öðrum áhugamálum segir Harpa að hún grufli við píanóleik. ,,Ég festi kaup á litlum flygli í haust í tilefni þessa stórafmælis og er aftur farin að spila eftir 30 ár, fann gömlu nótnabækurnar mínar og er búin að komast að því að hugur og hönd þurfa að ná betur saman. Það er fram undan, að ná upp því sem ég spilaði þegar ég var um tvítugt og að lækka forgjöfina!“ Á afmælisdaginn verður Harpa viðstödd opnun Feneyjatvíæringsins en þrjú ár eru liðin frá síðasta tvíæringi, og viðburðaríkir tímar í myndlistarlífinu fram undan.

Fjölskylda

Eiginmaður Hörpu er Kári Sölmundarson, f. 23.6. 1970, framkvæmdastjóri. „Við hófum sambúð í Frakklandi áður en við settumst að í miðborg Reykjavíkur þegar við vorum alkomin heim frá Frakklandi, 2002.“ Foreldrar maka: Sölmundur Kárason, f. 10.9. 1946, d. 21.6. 1983, skipstjóri og Ásgerður Haraldsdóttir, f. 20.2. 1950, læknaritari. Seinni maður Ásgerðar er Birgir Sigurðsson, f. 23.7. 1938, skipstjóri. Þau eru búsett á Höfn í Hornafirði.

Börn Hörpu og Kára eru: 1) María, f. 26.7. 2001, sagnfræðinemi við Háskóla Íslands; 2) Ásgerður, f. 16.10. 2004, nemandi við Menntaskólann í Reykjavík; 3) Þórhildur, f. 6.11. 2011, nemandi við Austurbæjarskólann.

Bræður Hörpu eru dr. Jóhann Þórsson, f. 17.10. 1965, vistfræðingur, búsettur í Reykjavík, og Þórður Þórsson, f. 21.8. 1969, skipstjóri á Voyager of the Seas, búsettur í Höfðaborg, Suður-Afríku.

Foreldrar Hörpu er hjónin Þór Magnússon, f. 18.11. 1937, fv. þjóðminjavörður, og María Vilhjálmsdóttir Heiðdal, f. 13.6. 1939, fv. hjúkrunarforstjóri. Þau eru búsett í Reykjavík.