Sigurður Arnar Ingvarsson fæddist 22. júlí 1945 í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann lést 10. apríl 2022.

Foreldrar Sigurðar voru Ingvar Gunnarsson vélstjóri, f. 18. febrúar 1919, d. 23. júní 1991og Dagmar Sigurðardóttir, húsmóðir og verkakona, f. 29. maí 1912, d. 17. mars 1980.

Bróðir Sigurðar var Gunnar, f. 11. apríl 1947, d. 30. september 2011, eftirlifandi eiginkona hans er Hólmfríður Friðriksdóttir. Dóttir Gunnars og Hólmfríðar er Hafdís Jóna, f. 1966, fulltrúi hjá bílaleigunni Hertz á Íslandi. Hennar maður er Snorri Magnússon, f. 1964, fyrrverandi formaður Landssambands lögreglumanna. Þeirra börn eru: a) Gunnar Dagur, f. 1984, b) Snorri Halldór, f. 1989, og c) Dagmar Ýr, f. 1990.

Sigurður kvæntist hinn 26. ágúst 1966 eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Gunnlaugsdóttur kennara, f. 2. janúar 1948. Guðrún er dóttir Gunnlaugs Gunnlaugssonar og Gunnhildar Björnsdóttur, sem bæði eru látin. Börn Sigurðar og Guðrúnar eru: 1) Hreinn vélstjóri, búsettur á Eskifirði, f. 9. júlí 1966, giftur Berglindi Jóhannsdóttur lífefnafræðingi. Saman eiga þau Sigrúnu Huldu, f. 2003. Fyrir átti Hreinn Sigurð, f. 1989, og Bertu Maríu, f. 1992, með fyrri konu sinni Guðrúnu Ernu Sigurðardóttur. 2) Dagmar hjúkrunarnemi, f. 20. október 1969, búsett á Akranesi, gift Viðari Þór Hreggviðssyni rafvirkjameistara. Börn þeirra eru: a) Sigrún Elsa, f. 1991, b) Guðrún Margrét, f. 1993, og c) Ingvar Jón Sesil, f. 1997. Barnabarnabörnin eru orðin fimm talsins.

Æskuheimilið var Járngerðarstaðir (vesturbær) í Grindavík. Árið 1958 flutti fjölskyldan á Eskifjörð. Sigurður byrjaði ungur til sjós, lærði seinna trésmíði og varð húsasmíðameistari. Hann fór í nám í uppeldis- og kennslufræði við KHÍ og fékk kennsluréttindi. Sigurður var um langt árabil forseti Alþýðusambands Austurlands en síðustu árin sem hann var á vinnumarkaði kenndi hann smíðar við grunnskólann á Eskifirði. Sigurður hafði mikinn áhuga á smábátaútgerð, hann eignaðist trillu sem fékk nafnið Reyðar og gerði hana út á krókaveiðum ásamt eiginkonu sinni. Á yngri árum aðhylltist Sigurður vinstristefnu í stjórnmálum en eftir áratuga starf að verkalýðsmálum varð hann harður sjálfstæðismaður og fylgdi Sjálfstæðisflokknum seinni hluta ævinnar.

Útför Sigurðar fer fram frá Eskifjarðarkirkju í dag, 20. apríl 2022, klukkan 14. Útförinni verður streymt á facebooksíðu Eskifjarðarkirkju.

Elsku pabbi. Þegar ég var að alast upp fannst mér þú aldrei sitja auðum höndum, þú varst alltaf að laga eitthvað heima, smíða bát eða eitthvað að dunda. Handlaginn, útsjónarsamur og hugmyndaríkur, til dæmis datt þér í hug að útbúa tveggja tonna trillu á dragnót, það lukkaðist ótrúlega vel og þér gekk ágætlega að fiska kola í dragnótina. Þessi sama tveggja tonna trilla var reyndar líka útbúin á línu með beitningatrekt og einnig á handfæri, líklega var þetta minnsta fjölveiðiskip á Íslandi. Það er vel við hæfi að stefnið af þessum bát hafi öðlast framhaldslíf sem barborð á Randulfssjóhúsi á Eskifirði.

Ég leitaði alltaf til þín með allar stórákvarðanir í lífinu og fékk góða ráðgjöf, t.d. vorið 1993 þegar ég sagði þér að ég ætlaði að fara á frystitogara, safna pening í einhvern tíma og fara svo í Vélskólann.

Þú talaðir mig inn á það að fara bara strax í skólann, sem ég gerði. Ég hef alltaf verið þakklátur fyrir þessa ráðgjöf, enda áttir þú alltaf gott með að sjá heildarmyndina og skoða málin frá öllum hliðum.

Börnin mín minnast oft á þau forréttindi að dvelja hjá þér og mömmu flest sumur í æsku. Ég man þegar þið þurftuð að kaupa stærri bíl til að það væri pláss fyrir öll barnabörnin.

Það var erfitt þegar heilabilunin var komin á það stig að ég var ekki viss um hvort þú meðtækir það sem ég var að segja þér. Sagði þér samt aðeins frá hvað ég væri að gera á sjónum enda varstu alla tíð heillaður af sjónum og sjómennsku.

Mikið er samt gott að þú hafir komist á hjúkrunarheimilið Hulduhlíð. Það er einstök stofnun. Starfsfólkið þar er frábært, maturinn góður og öll umönnun alveg til fyrirmyndar.

Ég veit að Gunnar bróðir þinn og Ingi frændi hafa tekið vel á móti þér hjá hinum hæsta höfuðsmið.

Það er ótrúlega sárt að kveðja, en minningarnar lifa áfram.

Takk fyrir að vera góð fyrirmynd í lífinu, takk fyrir allt elsku pabbi.

Hreinn.

Elsku pabbi minn þú hefur kvatt þetta jarðlíf eftir margra ára veikindi.

Þú varst svo góður og skemmtilegur, alltaf þolinmóður, glaðlyndur og jákvæður. Þú varst dásamlegur pabbi og frábær fyrirmynd.

Ég fékk að gera margt skemmtilegt með þér sem krakki og á því margar minningar sem eru nú dýrmætari en nokkru sinni. Þú elskaðir sjóinn og við grínuðumst stundum með það að sjór rynni í æðum þínum. Ég, litla stelpan, fékk að róa með þér á pollinum, oft fórum við út undir Hólmaborg þar sem þú lagðir net.

Mér gekk ágætlega að róa enda kenndirðu mér vel. Þú varst búinn að smíða svo margt í gegnum tíðina niðri í kjallaranum heima og oft var ég með þér og fékk að negla nagla í spýtur o.þ.h. Alltaf varstu jafn þolinmóður og þér fannst það bara skondið þegar ég barði með hamrinum óvart í rafmagnssnúru svo rafmagnið sló út. Þegar svartfugl var á borðum toguðumst við á um óskabeinið, þú leyfðir mér að vinna, ég átti að óska mér og ég mátti hvísla óskinni í eyrað á þér og að sjálfsögðu rættist óskin.

Það var þér mikilvægt að eyða sem mestum tíma með fjölskyldunni enda komuð þið mamma suður yfir stórhátíðir á meðan heilsan leyfði.

Þitt aðaláhugamál var sjómennska og þú elskaðir að róa á Reyðari, bátnum þínum, og oft fórum við fjölskyldan á sjóstöng út á pollinn og veiddum í soðið.

Ég er svo þakklát að ég náði að eyða síðustu dögunum með þér og umvefja þig ást og kærleika. Orð fá ekki lýst hversu mikið ég sakna þín elsku pabbi minn. Minning þín lifir í hjarta mínu.

Þín dóttir,

Dagmar.

Við barnabörnin vorum svo heppin að fá að verja sumrum æskunnar á Eskifirði hjá afa og ömmu. Í nokkrar vikur á hverju sumri var Bleiksárhlíð heimilið okkar. Við fengum því að kynnast afa á allt annan hátt en við hefðum annars gert. Minningarnar sem standa upp úr eru því ekki endilega af merkisatburðum heldur minningar úr hversdagsleikanum.

Að hjóla heim úr sundi, stoppa á Shell-skálanum og mæta þar afa fyrir tilviljun sem býður okkur far heim í jeppanum. Að leika sér á smábátahöfninni á meðan afi dyttaði að bátnum. Að sitja í aftursætinu í bílnum með afa og ömmu, á leiðinni upp í Hérað, og syngja hástöfum. Þegar afi laumaði til okkar pening til að kaupa hamborgara í Shell-skálanum þegar okkur leist illa á kvöldmatinn heima. Notalegar stundir í stofunni í Bleiksárhlíð þar sem afi sat í afastólnum sínum, en engum datt í hug að setjast í hans sæti. Kvöldkaffi fyrir háttinn þar sem afi var einn af okkur og var skömmtuð skúffukaka og hjónabandssæla með okkur krökkunum.

Þegar afi fór með okkur út á sjóstöng á bátnum sínum. Samverustundir um jól og páska.

Á okkar heimilum er matarkex kallað afakex því það var uppáhaldskexið hans. Rjómaterta með svampbotni og kokteilávöxtum ber einnig heitið afaterta af sömu ástæðu.

Síðustu ár hafa verið erfið þar sem veikindin tóku sífellt meiri toll af afa. Sjaldnar og sjaldnar fengum við að sjá prakkaralega glottið hans eða stoltið í augnsvipnum þegar hann horfði á barnabörnin sín. En baráttunni er nú lokið og tími kominn til að hvílast. Elsku afi, við söknum þín og elskum þig.

Fyrir hönd barnabarnanna; Sigurðar, Sigrúnar Elsu, Bertu Mariu, Guðrúnar Margrétar, Ingvars Jóns Sesils og Sigrúnar Huldu,

Guðrún Margrét

Viðarsdóttir.