Elsa Kristinsdóttir kæruskrárritari fæddist 23. júní 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 3. apríl 2022.

Foreldrar hennar voru þau Jón Kristinn Elíasson trésmiður, f. 1.10. 1894, d. 9.8. 1945, og Daðína Matthildur Guðjónsdóttir, f. 30.12. 1903, d. 9.3. 1999. Systkini Elsu eru Jóhannes Pétur, f. 12.8. 1928, Elínborg Halla, f. 18.4. 1931, d. 29.8. 2016, Baldur, f. 22.3. 1932, d. 4.3. 1982, og Arndís Lára, f. 4.3. 1938.

Elsa giftist 4. desember 1948 Albert Kristinssyni frá Hafnarfirði, f. 4.6. 1926, d. 28.2. 2015. Foreldrar hans voru þau Kristinn Jóel Magnússon málarameistari, f. 25.2. 1893, d. 28.12. 1981, og María Albertsdóttir, f. 9.11. 1893, d. 29.5. 1979.

Synir Elsu og Alberts eru: 1) Kristinn Jón, f. 23.1. 1948, d. 1.3. 2016, maki Sigríður Ágústsdóttir, f. 7.2. 1949. Dóttir þeirra er Iðunn Elsa, f. 28.10. 1976, maki Sverrir Örvar Sverrisson, þau eiga tvö börn. 2) Magnús Páll, f. 3.5. 1953, maki Halla Björg Baldursdóttir, f. 29.9. 1953. Börn þeirra eru Baldur Páll, f. 16.4. 1981, maki Deanna Lane, þau eiga tvö börn, María Björg, f. 24.11. 1988, maki Sverre Valtýr Helgason, þau eiga tvö börn, og Ragnar Ingi, f. 14.3. 1992. 3) Sverrir Mar, f. 23.1. 1958, fv. maki Hólmfríður Magnúsdóttir, f. 4.2. 1955. Þau skildu. Börn þeirra eru Ari, f. 3.9. 1982, maki Erla Helgadóttir, þau eiga þrjú börn, Eva, f. 6.1. 1987, Elsa, f. 2.4. 1988, maki Martin Jonassen, þau eiga tvö börn, Albert, f. 9.1. 1992, maki Camilla Hansen, þau eiga eitt barn, og Erna, f. 12.11. 1993, sambýlismaður Bjørn Ribens, þau eiga von á barni á næstu dögum. Maki Sverris er Gréta Garðarsdóttir, f. 31.10. 1962.

Elsa ólst upp á Sæbóli í Haukadal í Dýrafirði. Eftir fermingu sótti hún héraðsskólann á Núpi 1942-1944. Hún fór síðan til Reykjavíkur og starfaði við verslunarstörf. Elsa fluttist til Hafnarfjarðar 1948 og hóf búskap á Hringbraut 9 með Albert. Hún starfaði um tíma hjá Sýslumannsembættinu í Hafnarfirði, en varð síðan heimavinnandi fram undir 1970 en hóf þá aftur störf við verslun og síðan hjá embætti Sýslumannsins í Hafnarfirði þar sem hún starfaði lengi sem kæruskrárritari. Um 1961 byggðu Elsa og Albert húsið í Sléttahrauni 16 þar sem fjölskyldan bjó í 40 ár.

Elsa kynntist Albert er hún starfaði hjá versluninni Olympíu sem þá var við Vesturgötu í Reykjavík, en Rafmagn hf., þar sem Albert var í námi, var við sömu götu. Hún hafði þá að áeggjan eiganda Olympíu áform um verslunarnám í Danmörku, en af því varð þó ekki þar sem hún stofnaði fjölskyldu og fluttist búferlum.

Elsa starfaði innan skátafélagsins Hraunbúa í Hafnarfirði og hafði m.a. umsjón með ylfingastarfi félagsins um skeið. Hún var virk í starfi eldri skáta og síðar í „Inner Wheel“ – félagsstarfi eiginkvenna rótarýfélaga.

Útför Elsu verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 20. apríl 2022, klukkan 14.

Elsku Elsa mín, nú er komið að kveðjustund eftir rúmlega hálfrar aldar kynni. Ég kom fyrst á heimili ykkar Alla á Sléttahrauninu 18 ára gömul og minnist sérstaklega hversu umhugað þér var um að bjóða mig velkomna. Eitthvað fannst þér kærasta sonar þíns líklega mögur því þú vildir alltaf vera að gefa mér að borða. Má bjóða þér kökusneið? Viltu eitthvað að drekka? Má bjóða þér epli? Viltu bara alls ekki neitt? Við stríddum þér góðlátlega á þessu í mörg ár.

Elsa var flott kona, falleg, alltaf vel tilhöfð og allt í kringum hana var fallegt. Hún dekraði strákana sína svo mikið að þegar þeir útskrifuðust úr heimahúsum kunnu þeir varla að smyrja brauð! Það rættist þó vel úr þeim öllum því að kokkagenin fengu þeir frá mömmu sinni.

Elsa var eldklár og hefði án efa aflað sér meiri menntunar ef henni hefði staðið það til boða. Hún var krossgátusnillingur og ekki vöfðust heldur fyrir henni jólamyndagátur dagblaðanna. Hún kunni urmul af ljóðum og var vel að sér í bókmenntum.

Elsa var lagin í höndunum. Við eigum eftir hana sængurföt með bróderuðu milliverki sem við notum á jólunum, einnig prýða heimili okkar fjölmargir dúkar saumaðir með harðangri og klaustri af einstakri natni. Þá eru ótalin ungbarnateppin og flíkurnar sem hún heklaði og prjónaði handa barnabörnunum.

Þegar Elsa og Alli komu í mat til okkar Magnúsar komu þau oftar en ekki færandi hendi með blóm. Einu sinni komu þau í heimsókn til okkar í Helsingborg og höfðu þá með sér orkídeu sem þau báru í handfarangri alla leið frá Madeira. Þetta var áður en orkídeur urðu hilluvara og lýsir vel hugulseminni og hlýleikanum sem einkenndu Elsu.

Elsa mín, ég kveð þig með söknuði, en ég veit að þú ert nú komin til elsku Alla þíns og hinna sem bíða þín, en þangað hlakkaðir þú til að fara.

Þín tengdadóttir,

Halla Björg.

Eftir um fimmtíu ára kynni skiljast leiðir okkar tengdamóður minnar.

Það eru vissulega margar minningar sem sækja á hugann og langar mig að minnast hér nokkurra:

Þegar Elsa og Albert tengdapabbi komu í heimsókn til okkar Kristins á námsárum okkar í Englandi. Elsu sárvantaði kjól og fann einn góðan sem síðar varð hennar uppáhaldskjóll og aldrei kallaður annað en Cambridge-kjóllinn og augun hennar ljómuðu.

Þegar við komum heim að námi loknu með fyrsta ömmu- og afabarnið og bjuggum á Sléttahrauninu fyrstu vikurnar. Hvílík gleði.

Þegar Iðunn Elsa stækkaði og amma, sem átti þrjá stráka, vildi gera litla dúkku úr sonardótturinni. Ekki var það nú alltaf vel þegið.

Þegar Elsa rifjaði upp dagana sína á Núpi þegar hún fékk að fara þangað til tveggja vetra dvalar í skóla og naut þess svo vel. Hún kunni heilu ljóðabálkana og var Davíð Stefánsson í uppáhaldi. Hún var svo minnug og las alla tíð mikið og fylgdist vel með öllum nýjum bókum sem hún pantaði sér á bókasafninu. Hún hefði orðið góður fræðimaður á sviði bókmennta hefði hún haft tækifæri til.

Þegar við vorum öll samankomin á Sléttahrauninu á annan dag jóla og við byrjuðum á að drekka súkkulaði með smákökum og tertum, síðan skömmu síðar var það hamborgarhryggurinn með tilheyrandi meðlæti og loks kvöldkaffið. Þau þurftu síðan að mæta til vinnu daginn eftir, dauðuppgefin en sæl eftir velheppnaðan dag.

Þegar þau Alli komu árlega í heimsókn til okkar norður til Akureyrar og sér í lagi var ánægjulegt þegar þau komu með systkinum Elsu og mökum þeirra, þeim Jóhannesi, Höllu, Mumma, Láru og Helga og allir fóru að tína rifsber í garðinum okkar þar sem sprettan var svo góð að nægði fyrir minnst tíu fjölskyldur. Á kvöldin hópuðumst við saman við píanóið og sungum og dönsuðum.

Þegar fjölskyldan kom norður og við samglöddumst Alla á áttræðisafmæli hans. Ekki þótti þeim leitt að hafa hópinn sinn í kringum sig.

Þegar langömmu- og afabörnin fæddust og þau nutu nálægðar við þau. Afi lék við þau meðan amman reiddi fram kræsingar, sem aldrei voru nægar að hennar áliti.

Þegar fjölskyldan var saman komin við eldhúsborðið á Sléttahrauninu og strákarnir með sinn tvíræða húmor létu gamminn geisa og Elsa, blessunin, reyndi að stinga inn orði og orði.

Þegar Elsa var komin á Sólvang, þar sem hún dvaldi síðastliðin tæp fjögur ár og við áttum saman ótaldar stundir. Ellikerling var farin að segja til sín og minnið farið að svíkja hana af og til en hún lék aðalhlutverkið í ýmsum bíómyndum sem við gjarnan horfðum á.

Sér í lagi vil ég minnast þess hvað þau Elsa og Alli voru góðar manneskjur og vildu allt fyrir okkur gera. Fyrir það vil ég þakka.

Sigríður Ágústsdóttir.

Elskuleg amma mín er nú látin og langar mig að kveðja hana í hinsta sinn með fáeinum orðum. Þær eru margar góðar æskuminningarnar af heimsóknum til ömmu og afa, og þótt samverustundum okkar hafi fækkað síðustu árin tel ég mig afar lánsaman að hafa átt ömmu Elsu að.

Að heimsækja ömmu var alltaf mikið tilhlökkunarefni allt frá yngstu æskuárum. Eitt sem ég man vel er að alltaf var nóg sett á borðið og hafði hún oft miklar áhyggjur af því að ég færi frá henni svangur. Það var nú afar lítil hætta á því, enda yfirleitt hægt að ganga út frá grunnvali af pönnukökum, mjólkurgraut og kaldri lifrarpylsu, að viðbættu ýmsu öðru sem henni datt í hug að bæta við hverju sinni. Þegar var svo kominn tími til að kveðjast vissi ég alltaf af henni við gluggann þar sem hún vinkaði og fylgdist með mér og mínum labbandi/hjólandi/akandi burt þar til maður var horfinn úr sjónmáli.

Amma var einstaklega kærleiksrík og hún hugsaði alltaf vel um fólkið í kringum sig. Sem dæmi má nefna að í matarboðum hjá afa og ömmu var ekki óalgengt að minna þyrfti ömmu á að setjast með okkur hinum og borða frekar en að vera að hlaupa á milli eldhúss og borðstofu. Þegar hann Jakob okkar kom í heiminn var amma dugleg að senda litla guttanum hinar ýmsu gjafir sem hún hafði prjónað eða saumað. Enn í dag er uppáhaldskoddinn hans einmitt frá langömmu Elsu.

Ég sá ömmu síðast rétt fyrir heimsfaraldurinn. Hún var þá orðin töluvert þreytt en við spjölluðum samt stutt saman. Ég sagði henni frá lífi okkar í Sviss og deildi myndum og sögum af barnabarnabörnunum. Þegar við kvöddumst grunaði mig að þetta gæti verið okkar síðasta faðmlag, sem það reyndist vera. Ég veit samt að amma er hvíldinni fegin og það er gott að vita af þeim afa saman á ný á betri stað. Á meðan uni ég við aragrúa af sælum og góðum minningum af þeim tímum sem ég átti með þeim báðum.

Takk fyrir allt elsku amma mín. Njóttu hvíldarinnar. Þín verður sárt saknað.

Baldur Páll.

Elsku amma mín.

Nú ertu farin heim til afa. Eftir sitjum við hin og yljum okkur við minningarnar um ömmu sem alltaf hafði tíma fyrir litlu stelpuna sína. Hugurinn leitar til allra stundanna við eldhúsborðið að spjalla, spila eða leggja kapal. Alltaf hélstu að ég væri svöng og varst snögg að skella í „hammandeggs“ þegar ég kom við eftir skóla eða á leiðinni heim af æfingum. Ég lærði svo að laga þennan mæta rétt sjálf, en hann verður aldrei eins góður og hjá þér.

Þú varst óþreytandi við að prjóna handa mér allar þær peysur og sokka sem mig langaði í, og mér þykir óskaplega vænt um sængurfötin sem þú bróderaðir handa mér. Þegar ég átti sjálf að læra að prjóna í handavinnu var handhægt að kíkja í heimsókn til ömmu og fara svo heim með svo gott sem tilbúna flík, án þess að ég hafi komið þar mikið nálægt. Svo þegar ég fór að hafa áhuga á handavinnu sjálf var alltaf hægt að leita til þín eftir aðstoð og við sátum oft og prjónuðum og saumuðum saman.

Ég er þakklát fyrir að hafa náð að heimsækja þig um daginn, við vissum greinilega báðar að þetta væri kveðjustund og ég mun geyma orðin þín til mín í hjarta mér alla tíð.

Elsku amma mín. Takk fyrir allar ljúfu stundirnar og njóttu nú hvíldarinnar. Við sjáumst aftur seinna.

María Björg.

Elsku amma mín er látin.

Ótal ljúfar minningar streyma fram;

Hún kallaði mig litla grjónið. Hún mældi hæð mína með því að taka mig í fangið. Þegar ég gisti hjá ömmu og afa og fékk að sofa „á milli“, það þýddi að afi svaf frammi í bóndaherbergi. Hún söng fyrir mig ljóðið um litlu stúlkuna ljúfu með ljósu flétturnar tvær. Jólafundir uppi í skátaskála. Þegar við bjuggum í Reykjavík og fórum flóttamannaleiðina suður í Hafnarfjörð og mér fannst afi og amma hljóta að eiga heima í sveit. Nokkrum árum síðar þegar við fluttum sjálf í Hafnarfjörð og ég gat hjólað til þeirra. Þegar ég, eftir tíma í tónlistarskólanum, fór til ömmu í vinnuna, við gengum svo saman upp á Sléttahraun, komum kannski við í búð og keyptum lifrarpylsu sem var svo með mjólkurgraut í kvöldmatinn. Sound of Music. Mig minnir að pabbi minn hafi gefið henni þá plötu með því skilyrði að hún yrði ekki spiluð svo hann heyrði til og þá vildi ekki betur til en svo að ég vildi spila hana endalaust.

Þegar foreldrar mínir fluttu norður og ég að heiman var ómetanlegt að eiga skjól hjá ömmu og afa. Þá fékk ég að þvo þvottinn minn hjá þeim og gjarnan boð í kvöldmat í leiðinni. Eftir að ég flutti aftur í Hafnarfjörð með mína eigin litlu fjölskyldu, rétt steinsnar frá ömmu og afa, voru algengar skyndiheimsóknir til þeirra eftir leikskóla og snemma á morgnana um helgar, eftir viðkomu í bakaríi.

Við fórum saman að sjá Söngvaseið í Borgarleikhúsinu og þangað fórum við líka, með mömmu, að sjá sýninguna um Ellý Vilhjálms. Það var ómetanleg stund og ég veit að henni þótti það líka.

Síðustu árin höfðu verið henni einmanaleg, eftir að afi dó fyrir sjö árum og frumburður þeirra, pabbi minn, ári síðar. Ég veit hún var tilbúin og vildi kveðja og ég er viss um að vel hefur verið tekið á móti henni hinum megin.

Iðunn Elsa

Kristinsdóttir.

Þá er hún Elsa móðursystir mín komin í sumarlandið.

Hún hafði beðið heimkomunnar í allnokkurn tíma og ég efast ekki um að hún hafi fengið hlýjar móttökur þar. Þegar ég hugsa til hennar frænku minnar hlýnar mér um hjartarætur. Ég var svo lánsöm aðeins fimm ára gömul að vera send til Elsu og Alla á Sléttahraunið í pössun meðan mamma eignaðist litlu systur mína. Ég dvaldi hjá þeim í heilan mánuð og naut hverrar mínútu. Elsa frænka var mér svo góð og leyfði mér að halda að ég væri aðalhjálparhellan hennar á heimilinu.

Ég fékk hrós fyrir allt sem ég gerði, umhyggja fjölskyldunnar var einstök. Elsa frænka var frekar hlédræg manneskja, einstaklega blíð og kenndi mér svo margt. Hún var víðlesin og þekking hennar á mörgum mismunandi málefnum í samræmi við það. Maður kom aldrei að tómum kofunum í samræðum við frænku.

Elsa og Alli voru dugleg að rækta garðinn sinn sem var afskaplega fallegur. Þau leyfðu hrauninu að njóta sín og bættu við plöntum sem áttu fallega við eðli og lögun náttúrunnar. Á Sléttahrauninu leið mér vel í stórum faðmi frænku minnar og fólksins hennar. Systurnar þrjár Elsa, Halla og Lára móðir mín tóku saman slátur í allmörg ár. Mér og Hildi Kristínu systur var auðvitað boðið með til að læra aðferðirnar og taka þátt í saumaskapnum. Þetta var hin mesta skemmtun og í lok dags var slátrið eldað og fjölskyldurnar nutu þess að smakka á lostætinu. Þakklæti fyrir yndislegar minningar og notalegar samverustundir standa eftir. Við Elsa áttum vel saman og fór ég að finna hana svo oft sem ég gat og leið alltaf einstaklega vel eftir samveru okkar. Mér er mjög minnisstæð innkaupaferð í júlí árið 2017. Þá fórum við mamma með Elsu í Bernharð Laxdal og í fínar konubúðir í Hafnarfirði. Mikið var hlegið, spáð og spekúlerað. Elsa frænka kom hlaðin pinklum heim og bauð okkur mömmu í dýrindis kaffi og kruðerí.

Seinasta samverustund þeirra systra mömmu og Elsu var fyrir rétt rúmu ári. Mamma var þá orðin mjög lasin af alzheimer og Elsa dálítið föst í sínum heimi. Við Siddý, tengdadóttir Elsu, fylgdumst hljóðar með. Stundin var dásamlega falleg en þó átakanleg í senn. Elsa bauð upp á sérrí og svo töluðu þær hvor í kapp við aðra um gjörólíka hluti. Báðar heyrðu þær mjög illa en náðu þó samt að skilja hvor aðra, héldum við Siddý...

Ég kveð elsku Elsu frænku mína af mikilli virðingu og þakklæti fyrir allar yndislegu samverustundirnar, litaðar kærleika, kátínu og elskulegheitum.

Elsku Magnús, Sverrir, Siddý og fjölskyldur, megi góður Guð blessa minningu elsku Elsu frænku og færa henni langþráða himneska ljósið í faðmi ástvina sem beðið hafa komu hennar.

Ég minningar geymi, ég man þær

og skil,

þær minna á vordagsins blessaða yl.

Því syrgir minn hugur, ég sé þína mynd

í sólhýru blómi, í fjallanna lind.

Þó haustblærinn kaldur um heiðina fer

ég hlusta og vaki og bið fyrir þér

að veturinn hverfi, að vorsólin blíð

vermi þitt hjarta um ókomna tíð.

(SÞG)

Þín

Metta fænka.

Tendraðu lítið skátaljós

láttu það lýsa þér,

láttu það efla andans eld

og allt sem göfugt er.

Þá verður litla ljósið þitt

ljómandi stjarna skær,

lýsir lýð, alla tíð

nær og fjær.

(HT)

Enn fækkar í hópi frumkvöðlanna í St. Georgsgildinu í Hafnarfirði. Elsa Kristinsdóttir er „farin heim“ – tæplega 95 ára gömul.

Við í skálahópi Skátalundar, þar sem sunnudagsmorgnarnir voru helgaðir uppbyggingu og viðhaldi skálans og umhverfi hans, þekktum Elsu sem konuna hans Alla.

Nú hefur ný kynslóð skáta tekið við keflinu og reynir eftir megni að standa sig og annast þennan unaðsreit við Hvaleyrarvatn í anda fyrirrennaranna.

Elsa starfaði í Skátafélaginu Hraunbúum í Hafnarfirði m.a. sem ylfingaforingi og skjólstæðingar hennar, sem nálgast nú óðum sjötugt, minnast hennar með hlýju.

Hún var líka styðjandi mamma strákanna sinna sem lifðu fyrir útilegur, skátamót og annað skátabras, ötull gildisskáti og mikilvirk hannyrðakona í saumaklúbbi gildiskvenna; höfðingi heim að sækja, ávallt til staðar, hæglát og traust.

Við færum öllum aðstandendum Elsu alúðarkveðjur og þökkum ljúfa samfylgd.

F.h. gildisfélaganna í Hafnarfirði,

Fríða Ragnarsdóttir.

Eftir langan æviferilsdag

Eigum geymdar fagrar, ljúfar myndir.

Sem koma í hugann eins og

ómþýtt lag

Og una sér við minninga lindir.

Er vinir skilja, sjaldan verður sátt

En svona er og verður lífsins glíma.

Forréttindi að fá og hafa átt

Fylgd og nálægð svona langan tíma.

(Þorfinnur Jónsson)

Elsa Kristinsdóttir, félagi okkar í Inner Wheel Hafnarfjörður, lést á Sólvangi 3. apríl síðastliðinn.

Elsa var á kynningarfundi fyrir stofnun Inner Wheel-klúbbsins okkar í Hafnarfirði í nóvembermánuði 1976 og síðan stofnfélagi klúbbsins 24. maí 1977. Hún var ritari í fyrstu stjórn og gegndi flestum embættum klúbbsins og einnig var hún ritari umdæmisstjórnar 1992-93.

Elsa var strax mjög virk í klúbbnum og mætti alltaf þegar hún gat og heilsan leyfði. Hún hafði ljúfa nærveru og lét gott af sér leiða í klúbbnum okkar.

Ég sótti hana gjarnan fyrir fundi og keyrði hana heim. Hún var mjög þakklát fyrir allt sem gert var fyrir hana.

Það er ekki hægt að minnast Elsu án þess að minnast Alberts manns hennar eða hans Alla. Þau voru samhent í öllu sem þau gerðu, hvort sem það var að hlúa að fjölskyldunni eða að starfa að félagsstörfum sínum.

Það var mjög ánægjulegt að minnast skötuveislunnar á Þorláksmessu sem okkur var boðið sameiginlega í hjá frænda mínum. Þar lék Elsa á als oddi og var saknað þegar heilsan fór að gefa sig.

Elsa missti mikið þegar Alli hennar lést og einnig þegar Kristinn sonur hennar dó skömmu seinna.

Elskulega Elsa mín, það var frábært að fá að kynnast þér og ég mun sakna þín og hlýrrar nærveru þinnar.

Sverri, Magnúsi Páli og fjölskyldunni allri votta ég samúð og bið Guð að blessa ykkur á erfiðum tíma.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Fyrir hönd Inner Wheel Hafnarfjörður,

Gerður S. Sigurðardóttir.