Guðmundur Arnfinnsson orti um páskahelgina og ber heitið „Vorhugur (dróttkveða)“: Morgunstundir margar mætar lýði kæta, ljósið þegar lýsir, lundur vex á grundu, golan við oss gælir, gróa blóm í móa, lífið megum lofa, langa vegu spranga.

Guðmundur Arnfinnsson orti um páskahelgina og ber heitið „Vorhugur (dróttkveða)“:

Morgunstundir margar

mætar lýði kæta,

ljósið þegar lýsir,

lundur vex á grundu,

golan við oss gælir,

gróa blóm í móa,

lífið megum lofa,

langa vegu spranga.

Þessi fallega kveðja barst frá Ingólfi Ómari Ármannssyni á Boðnarmiði:

Löngum hefur lífsins hnoss

lífgað fjör og gáska.

Guð og lukkan gefi oss

gleðilega páska.

Ólafur Stefánsson yrkir og kallar „Páskadagsmorgun“:

Lengi nætur

höfðu þeir félagar

diskúterað heimspeki

Nietzsches og tilvistarstefnu

Sartres. Líka imprað á

Rilke.

Nú var sjetta stund ...

Volgur bjórinn glitrandi ekki lengur

í rísandi sólinni.

Konan svaf vonblíð

í hjónakamesinu.

Mál að halla sér.

Maðurinn með hattinn hefur lög að mæla þegar hann segir: „Hvað við megum vera heppin að búa í friðsælu landi“:

Sumir mega æ og enn

una lífsins háska.

Hér á landi halda menn

hátíðlega páska.

Nú er víða stundað stríð,

stórskotshríðin tætir.

Hér er blíða og hitatíð

sem hressir lýð og kætir.

Vítt um heiminn vellur blóð

í valdastríði hörðu.

Hér á landi hefur þjóð

hlotið frið á jörðu.

Dagbjartur Dagbjartsson skrifar: „Ætli það sé ekki að nálgast kvartöld síðan ég vann á svínabúi og Vigfús Pétursson lýsti mér og mínum helstu áhugamálum með þessum orðum“:

Yrkja, safna, gera grín,

gyltur, konur, hestar,

biskup, hundar, brennivín,

bændur, fé og prestar.

Guðmundur Beck svarar: „Þessi minnir mig á eina sem Þormóður Eiríksson orti um mig“:

Við hænsneldi fæst hann og fleira

af framleiðslustörfunum brýnum

en líkist æ meira og meira

meginbústofni sínum.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is