Doris fæddist í Kaupmannahöfn 25. september 1925. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Miðleiti í Reykjavík 5. apríl 2022.

Foreldrar Dorisar voru hjónin Frank Arnold Jessen, vélsmiður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn, f. 12. desember 1894, d. 20. maí 1975, og Elna Jessen húsmóðir, f. 16. ágúst 1898, d. 1. apríl 1952. Doris var einbirni.

Doris ólst upp í Kaupmannahöfn og gekk í skóla þar. Eftir hefðbundna skólagöngu hóf hún skrifstofustörf hjá Burmeister & Wain. Þar lágu leiðir þeirra saman, Gunnars Tómassonar, nýútskrifaðs vélaverkfræðings, og Dorisar. Doris og Gunnar giftu sig í Kaupmannahöfn 7. júlí 1946 og settust síðan að í Reykjavík. Lengst af bjuggu þau í Barmahlíð í Reykjavík, síðan á Bakkaflöt í Garðabæ. Eftir andlát Gunnars 1989 flutti Doris í Miðleiti og bjó þar til dauðadags.

Börn Dorisar og Gunnars eru: 1) Edda, f. 2. október 1948, leikskólakennari, maki Bárður Hafsteinsson skipaverkfræðingur og eiga þau þrjá syni, sjö barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Karl, f. 20. maí 1950, líffræðingur, maki Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir, leikari og leiklistarkennari, saman eiga þau fjögur börn og tíu barnabörn. 3) Rúna, f. 1. ágúst 1953, fasteignasali í Kaliforníu, hún á fjögur börn og ellefu barnabörn. 4) Ása, f. 29. september 1958, kennari í Noregi, maki Anders Oppheim bankastarfsmaður og eiga þau þrjú börn.

Upp úr 1960 hóf Doris rekstur verslunar við Lönguhlíð í Reykjavík, undir nafninu „Doris“ sem verslaði með ítalska kvenskó, snyrtivörur o.fl. Þessa verslun rak Doris til 1968. Eftir það gerðist hún starfsmaður í bókaverslun við Lönguhlíð og starfaði þar til 1985. Meðfram verslunarstörfum lauk hún prófi sem leiðsögumaður og starfaði lítillega við það. Doris tók virkan þátt í félagsstarfi, m.a. í Dansk kvindeklub og í góðgerðarfélaginu Vinahjálp. Doris og Gunnar ferðuðust víða, bæði innan lands og utan, mikið til Bandaríkjanna, þar sem ættingjar Gunnars bjuggu. Eftir andlát Gunnars 1989 hélt Dorís áfram að ferðast. Nú ein og heimsótti afkomendur og vini víða um heim, m.a. fór hún ein til Japans, í heimsókn til vina sem þar bjuggu.

Hún verður jarðsungin frá Grensáskirkjuí dag, 20. apríl 2022, klukkan 13.

Elskuleg tengdamóðir okkar Doris er nú látin, hún sem hafði lofað okkur að verða hundrað ára! Það náðist ekki alveg en langt komst hún, árin urðu níutíu og sex. Það er skrítið að hugsa til þess að eiga ekki framar eftir að spjalla við Doris um heima og geima, skiptast á skoðunum og velta fyrir sér heimsmálunum.

Doris fæddist í Danmörku, hún var einbirni, augasteinn og eftirlæti foreldra sinna. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir þá að sjá á eftir einkabarninu til Íslands og stofna þar heimili. Þá var lengra milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur en það er nú.

Doris var skapandi listakona, hún hafði ákaflega gaman af hannyrðum, saumaði og prjónaði einstaklega fallegar flíkur sem margar hverjar unnu til verðlauna. Hún var um árabil í stjórn Dansk kvindeklub og Vinahjálpar þar sem hugmyndir hennar fengu að njóta sín, hún hannaði og skapaði margs konar hluti fyrir hina árlegu jólabasara þessara félaga. Það er óhætt að segja að hún var trú sínum félögum og vildi allt fyrir þau gera.

Doris tók próf sem leiðsögumaður á miðjum aldri. Það kom sér mjög vel í Parísarferð sem hún fór í með tengdadóttur sinni. Ég, tengdadóttirin, var leiðsögumaður fyrir Samvinnuferðir-Landsýn, ein með hóp farþega á leið að skoða Versali. Þetta var stór hópur, mjög heitt í veðri og biðröðin löng. Því miður varð það einum farþeganum ofviða sem hné niður með aðkenningu af hjartasjúkdómi. Nú voru góð ráð dýr. Meðan ég beið eftir sjúkrabíl til að fara með farþegann á sjúkrahús bað ég Doris að fara með hópinn um höllina og aðstoða eftir getu. Doris fannst það ekki tiltökumál og lagði af stað með hópinn og er skemmst frá því að segja að allir voru yfir sig ánægðir með leiðsögn Dorisar. Það hefðu nú ekki allir treyst sér í þetta!

Doris á fjögur mannvænleg börn, þrjár stelpur og einn strák. Þar vorum við tengdabörnin heppin, við eignuðumst sálufélaga, ljúfa maka og einstaklega yndislega mága og mágkonur. Við undirrituð erum félagar í Makavinafélaginu, þar bröllum við ýmislegt saman, erum með óvæntar uppákomur og njótum þess að vera saman. Takk Doris fyrir að gera okkur þetta kleift!

Við kveðjum Doris með söknuði og þökkum fyrir góð kynni. Minning um ljúfa konu mun lifa. Takk kæra Doris fyrir samfylgdina.

Ása Helga og Bárður.

Lífið gefur og lífið tekur, fyrir rúmum mánuði fæddist í Kolding í Danmörku Katla Saga, mitt fyrsta barnabarn og fyrsta langalangömmubarn Dorisar. Nokkrum vikum síðar lést amma Doris heima í íbúðinni sinni í Miðleiti.

Amma var einkabarn og fæddist árið 1925 í Danmörku og var því ung þegar Þjóðverjar tóku yfir landið. Hún kynntist þar afa sem var í námi og eftir stríðið fluttu þau til Íslands. Afi vann fyrir bandaríska herinn í Keflavík og amma var heima og rak um tíma verslun í bílskúrnum í Barmahlíðinni.

Ég á ekki mikið af minningum af þeim þar og veit lítið um hvernig lífið var hjá henni á þeim tíma.

Það sem ég man var að þau áttu bústað við Þingvallavatn þar sem við þurftum að bera vatnið inn í fötum og stóran Ford Bronco með bekk frammi í. þegar ég var aðeins stærri fluttu þau í Garðabæinn og þar gat maður alltaf fundið slatta af Andrésblöðum sem voru að sjálfsögðu á dönsku.

Öll erum við misjöfn og amma Doris var ekki sú sem var alltaf að leika við krakkana heldur var meira að ræða við fullorðna fólkið.

Amma hefur ferðast mikið og heimsótt ættingja og vini um allan heim.

Þegar ég var í námi í Seattle kom amma í heimsókn til okkar þar og bjó þá hjá vinafólki sínu í bænum en kom með okkur í nokkra daga til Vancouver-eyju í Kanada. Í þeirri ferð veit ég að hún heimsótti einnig dóttur sína og barnabörn sem voru búsett í Kaliforníu og vini í Havaí áður en hún kláraði hringinn umhverfis jörðina.

Þetta útrásargen hefur hún gefið afkomendum sínum því þeir eru nú búsettir á Havaí og í Kaliforníu í BNA, Vancouver-eyju, Kaupmannahöfn og Kolding í Danmörku, Ulvik, Bergen, Þrándheimi, Lofoten og Kolbotn í Noregi, í Þýskalandi og á Íslandi.

Í níræðisafmælinu sátum við við borðið hjá Kalla og töluðum saman á ensku, íslensku, dönsku og norsku.

Amma var alltaf ákveðin, þrjósk og hafði yfirleitt skoðanir á flestum málum. Þetta hefur hún alveg örugglega einnig gefið afkomendum sínum í arf.

Þegar ég varð eldri naut ég þess að rökræða við hana og vorum við oft sammála en ekki alltaf. Þá var ég iðulega skammaður af konunni þegar við vorum að fara heim fyrir að vera að rífast við ömmu mína, sem henni fannst ekki alveg í lagi. Ég held þó að amma hafi notið þessara rökræðna jafn mikið og ég gerði.

Amma elskaði að spila bridge og var í mörgum spilahópum í gegn um tíðina. Við hjónin vorum á tímabili í spilahóp með henni og ömmu Stínu og hittumst þá yfirleitt í Miðleitinu þar sem hún tók á móti okkur og bauð upp á léttar veitingar, félagsskap og einstaka rökræður.

Síðustu árin fór heilsan að hrjá ömmu og varð því minna um ferðalög en hún hefði viljað. Amma sagðist hafa lofað börnunum sínum að hún yrði hundrað ára.

Og þar sem hún átti nokkur ár í það var ég ekkert farinn að spá í það að kannski yrði hún ekki til staðar þegar við kæmum næst til Íslands.

Þar til undir það síðasta hafði kollurinn einnig verið skýr og fyrir ekki svo löngu var hún að láta sig dreyma um að koma til Noregs og heimsækja okkur aftur.

Hvíl í friði amma, þín er saknað.

Hákon Frank Bárðarson.