Hilm-

ar Trausti Harðarson fæddist á Akureyri 9. september 1970. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu 6. apríl 2022.

Foreldrar Hilmars Trausta eru Valborg Þorvaldsdóttir, f. 6. maí 1947, og Hörður Óskarsson, f. 4. júní 1939. Systkini Hilmars Trausta eru Jón Borgfjörð Harðarson, f. 4. janúar 1964, Arnar Eyfjörð Harðarson, f. 14. febrúar 1967, og Linda Eygló Harðardóttir, f. 17. ágúst 1978.

Hilmar Trausti var um tíma í sambúð með Laufeyju Mörtu Einarsdóttur, f. 5. september 1969. Börn Hilmars Trausta og Laufeyjar eru: 1) Thelma Björk, f. 21. maí 1990, eiginmaður Rhys Martin, f. 16. apríl 1987. Börn þeirra eru Óliver Andri, f. 17. september 2017, Astrid Laufey, f. 15. desember 2020, og Floris Christopher, f. 15. desember 2020. 2) Andri Dan, f. 10. júlí 1992, unnusta Natascha Damen, f. 9. febrúar 1996.

Lengst af var Hilmar í sambúð með Hjördísi Völu Þórsdóttur, f. 29. ágúst 1974. Börn þeirra eru: 1) Hörður Martin, f. 12. nóvember 2009. 2) Eydís María, f. 16. mars 2011.

Hilmar Trausti bjó alla sína tíð á Akureyri. Hann gekk í Barnaskóla Akureyrar og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Síðar á lífsleiðinni nam hann leikskólakennarafræði við Háskólann á Akureyri og nú síðast stundaði hann sjúkraliðanám við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann gegndi ýmsum störfum um ævina, lengst af við umönnun og leikskólakennslu.

Útför Hilmars Trausta fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. apríl 2022, klukkan 13.

Elsku Trausti okkar! Mikið eru þessir síðustu sólarhringar búnir að vera erfiðir, það er svo sárt að hugsa um að núna, þegar allt var farið að ganga svo vel, skulir þú hafa verið kallaður í sumarlandið. Við erum svo mörg sem skiljum ekki þetta óréttlæti. Það er svo skrítið að labba ekki við hjá þér og spjalla, við vorum aldrei sammála en ef þú fékkst að eiga síðasta orðið varstu sáttur! Við vitum að það hefur verið tekið vel á móti þér bæði af ömmum og öfum og líka af dýrunum þínum.

Elsku Thelma, Andri, Hörður og Eydís og allir sem þykir vænt um Hilmar Trausta; við stöndum saman á þessum erfiðu tímum.

Far vel hlýja þiggðu þökk

frá þínum vinum hinsta sinni.

Börnin þín þig kveðja klökk

og kærleik þinn æ geyma í minni.

Frelsarinn mót þér faðminn breiði

friður Guðs þitt signi leiði.

(Gunnhildur Bjarnadóttir)

Hvíl í friði elsku vinur.

Mamma og pabbi.

Með trega kveð ég systurson minn Hilmar Trausta Harðarson sem horfinn er yfir móðuna miklu löngu fyrir aldur fram. Síðustu daga hefur hugur minn á stundum flogið rúma hálfa öld aftur í tímann til sumarsins 1971, þegar hann á fyrsta ári, ásamt móður sinni og tveimur bræðrum, lagði í langa ferð yfir öræfin í heimsókn austur á land. Þá sá ég þennan frænda minn í fyrsta sinn og enn sé ég hann fyrir mér eins og hann var þá, með úfinn ljósan hárlubba, klæddur í rauðan samfesting. Það var fart á piltinum þar sem hann kom hálfhlaupandi á móti mér á stéttinni einbeittur á svip og ég hugsaði: „Þetta barn á ekki að vera farið að ganga, hvað þá hlaupa!“ Systir mín var við öllu búin og greip snáðann í sama mund og hann ætlaði að steypa sér fram af stéttinni. Þarna held ég að hafi strax verið kominn vísir að þeim dugnaði og áræði sem átti eftir að einkenna skapgerð Trausta en mikið skap, hvatvísi og rík réttlætiskennd gerðu honum á stundum erfitt fyrir á lífsgöngunni. Ungur að árum hóf hann að æfa júdó og vann margsinnis til verðlauna í þeirri íþrótt. Af skólagöngu hans kann ég fátt að segja en hygg að kerfið á þeim tíma hafi ekki haft upp á margt að bjóða listrænum og skapandi unglingi. Seinna á ævinni fór Trausti aftur í nám og lauk prófi sem leikskólakennari. Ekki get ég sagt að ég hafi kynnst þessum frænda mínum mikið en fylgdist með honum af hliðarlínunni, ekki síst vegna áhugamála hans. Hann hafði áhuga á ljósmyndun, var glöggur á gott myndefni, mikill dýravinur og náttúruunnandi. Þá átti tónlistin hug hans og hafði hann síðustu mánuði ræktað þann hæfileika enn frekar og birti reglulega á samfélagsmiðlum.

Á einhverjum tíma kom hann einnig að uppsetningu áhugaleikhúss. Stoltust var ég þó þegar hann vorið 1996 vann til þriðju verðlauna í smásagnasamkeppni vikublaðsins Dags. Trausta var lagið að segja sögu, efnið sótti hann í reynslu sína af vinnu á elliheimili og það verður að segja að í fásögninni glitti í mjúka manninn í töffaranum. Löngu seinna kom ég á heimili hans ásamt systur minni í þeim erindum að fá eitthvað lánað að lesa. Þegar ég leit yfir bókahilluna gladdi mig að sjá þar í öndvegi þjóðlegan fróðleik úr bókaskáp móðurafans.

Trausti stofnaði ungur heimili með Laufeyju Einarsdóttur og var rúmlega tvítugur orðinn tveggja barna faðir, hafði eignast óskabörnin Thelmu Björk og Andra Dan. Eftir að leiðir þeirra Laufeyjar skildi hélt hann áfram að sinna börnum sínum sem dvöldu hjá honum reglulega. Um tuttugu árum seinna hóf hann sambúð með Völu Þórsdóttur og eru börn þeirra Hörður Martin og Eydís María. Trausti bar ekki gæfu til að efna til varanlegrar sambúðar en börnin hans veittu honum ómælda gleði og sárt er til þess að hugsa að þau yngri, sem enn eru á barnsaldri, eigi ekki lengur föður að hverfa til. Börnum Trausta, foreldrum og systkinum eiga þessar fátæklegu línur að færa innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Hilmars Trausta Harðarsonar.

Arndís Þorvaldsdóttir.

Elsku Hilmar.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Með trega ég kveð þig og þakka allar góðu stundirnar.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Elsku ástvinir Hilmars Trausta, ég votta ykkur mína dýpstu samúð.

Vala.

Hilmar var samferðamaður systur minnar um árabil. Hann var listrænn, skemmtilegur, hugmyndaríkur, fyndinn og góður pabbi á löngum köflum. En fór sínar eigin leiðir sem stundum reyndust torfærar.

Það var leitt hvernig lífið fór með hann stundum og mótaði fyrir lífstíð en verra hvernig hann fór með lífið.

Ég þakka fyrir góðu stundirnar.

Hvíl í friði.

Steinunn María

Þórsdóttir (Mæja).