Umhverfing Verk eftir Elvu Hreiðarsdóttur á síðustu sýningu Akademíu skynjunarinnar, sem var sett upp víða á Snæfellsnesi sumarið 2019.
Umhverfing Verk eftir Elvu Hreiðarsdóttur á síðustu sýningu Akademíu skynjunarinnar, sem var sett upp víða á Snæfellsnesi sumarið 2019.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Í sumar verður sett afar umfangsmikil samsýning myndlistarmanna sem leggja undir sig fjölbreytileg sýningarrými og setja sumir upp verk utandyra og jafnvel á óvæntum stöðum í Dalabyggð, á Vestfjörðum og Ströndum.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Í sumar verður sett afar umfangsmikil samsýning myndlistarmanna sem leggja undir sig fjölbreytileg sýningarrými og setja sumir upp verk utandyra og jafnvel á óvæntum stöðum í Dalabyggð, á Vestfjörðum og Ströndum. Aðstandendur sýningarinnar sem mynda Akademíu skynjunarinnar, segja að um sé að ræða fjölmennustu, hvað fjölda þátttakenda varðar, og víðfeðmustu myndlistarsýningu sem haldin hefur verið á Íslandi.

Sýningin ber heitið Nr4 Umhverfing og er, eins og felst í heitinu, sú fjórða í röðinni sem Akademía skynjunarinnar stendur fyrir, en áður hefur hópurinn staðið fyrir sýningum á Sauðárkróki (2017), Fljótsdalshéraði (2018) og á Snæfellsnesi (2019). Auglýst var eftir þátttöku myndlistarmanna sem starfa í eða eiga rætur að rekja til þessara landshluta þar sem sýningin verður sett upp. Í fyrstu sýningunni tóku þátt 13 listamenn, 37 í annarri, og 71 síðast, á Snæfellsnesi. Sú í sumar verður með langflesta þátttakendur, 127 alls.

Í forsvari fyrir verkefnið eru myndlistarmennirnir Anna Eyjólfs, Ragnhildur Stefánsdóttir og Þórdís Alda Sigurðardóttir. Ráðgert er að sýningin hefjist formlega 2. júlí.

Margir þekktir listamenn

Myndlistarmennirnir velja sér staði að sýna verk sín á í Dalabyggð, á Vestfjörðum og Ströndum, ýmist í helstu þéttbýliskjörnunum eða víðs vegar úti í náttúrunni. Verkin verða skráð með GPS-punktum og jafnframt með hefðbundnum merkingum þar sem því verður við komið. Leiðarkort um sýninguna og bók um listaverkin og höfunda þeirra verða gefin út og mun hvort tveggja verða á boðstólum á helstu viðkomustöðum ferðalanga á Vestfjarðahringnum meðan á sýningunni stendur.

Að sögn aðstandendanna munu margir af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar taka þátt í Nr4 Umhverfing og má ætla, miðað við reynslu af fyrri sýningum, að ferða- og myndlistaráhugamenn fjölmenni á sýninguna og njóti listar í Dölum, á Vestfjörðum og á Ströndum.

Viku ferðalag að skoða allt

„Undirbúningurinn fyrir sýninguna hefur verið flókinn enda hefur hann tekið á annað ár,“ segir Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari, einn skipuleggjendanna, en styrkir fengust frá Uppbyggingarsjóðum Vesturlands og Vestfjarða til að undirbúa framkvæmdina.

„Við tengjum sýninguna svokallaðri Vestfjarðaleið sem er hringurinn frá Dölunum og um Vestfirði og Strandir. Þetta er um 900 km leið.“

Því er alls ekki er gert ráð fyrir því að listunnendur nái að skoða öll verkin á einum degi.

„Þetta er viku ferðalag!“ segir Ragnhildur og hlær. Hún bætir við að margir muni ekki sjá öll verkin, sjá bara hluta verkanna. „Þetta er líka mikið gert fyrir heimamenn á hverjum stað, fólkið í sinni heimabyggð sem er að kynnast sínum listamönnum. Listamennirnir velja sjálfir stað að sýna á og velja gjarnan að sýna á stöðunum sem þeir rekja ættir sínar til. Þeir vinna líka sumir með sinn uppruna.“ Hún nefnir sem dæmi að einn listamannanna sem sýni á Hólmavík reki ættir til forfeðra sem voru brenndir á báli á Vestfjörðum á 17. öld.

Hluti listamannanna býr á svæðinu en meirihluti þó annars staðar en hefur tengsl við sínar rætur fyrir vestan. „Og þetta eru allt starfandi myndlistarmenn sem vinna alls kyns verk, tvívíð, skúlptúra, gjörninga og sumir vinna beint í landið,“ segir Ragnhildur en öll verkin verða komin upp 15. júní. „Allir þurfa að ganga vel um landið og ganga vel frá eftir sig en það eru líka fengin leyfi fyrir öllu og allt kringum sýninguna er gert í nánu samstarfi við heimamenn. Það hefur líka verið mjög mikil vinna við undirbúninginn, með bréfaskiptum og símtölum.“

Aðspurð segir Ragnhildur að þetta verði ekki sú síðasta í sýningaröðinni sem þær kenna við umhverfingu, að minnsta kosti þurfi að setja eina slíka upp á Suðurlandi.