Ásmundur Karlsson fæddist 29. nóvember 1943. Hann lést 21. mars 2022. Útför Ásmundar fór fram 7. apríl 2022.
Elsku Ási minn, afi hans Mána míns, tengdapabbi minn ævarandi og fjölskyldan mín. Þvílík lífsins lukka að hafa fengið ykkur Guðbjörgu í lífið. Þú varst nú ekki maður margra orða svo ég reyni að hafa þetta í samræmi við það. En þegar þú sagðir eitthvað var það annaðhvort fullt af fróðleik og umhyggju eða stríðni og hnyttni. Þú hættir að vinna um það leyti sem Máni fæddist, alltaf tilbúinn að passa og eyða tíma með litla manninum.
Svo ómetanlegt að hann hafi fengið að eiga afa sem var besti vinur hans, sinnti honum endalaust og átti alltaf lausan tíma fyrir hann.
Hvort sem það var að sækja og skutla, horfa á hann keppa, vatnsstríð og smíða í sumó eða kósíkvöld með bíónammi. Betri afa gat drengurinn ekki fengið. Þú ert án efa þrjóskasti maður sem ég hef kynnst en á sama tíma svo mjúkur.
Mýktin kom vissulega líka með afahlutverkinu en þú sýndir mér og kenndir að það væri eðlilegt að pabbinn á heimilinu eldaði matinn, kæmi fyrr heim úr vinnu og hugsaði um heimilið.
Svo ofsalega dýrmætt að hafa eiginlega alist stóran part ævinnar upp við svona mikið jafnrétti innan heimilisins, veganesti sem ég og við tókum með okkur út í lífið. Þú spurðir mig alltaf hvernig lífið og reksturinn gengi, því þú vildir að mér vegnaði vel í lífinu og ég fann það svo sterkt. Heimilið ykkar er griðastaðurinn minn, dyrnar alltaf opnar og ég á alltaf mitt sæti við borðið, bókstaflega.
Það er ein sú besta gjöf sem ég hef fengið. Að fá að tilheyra ykkur og þegar ég er þreytt að fá að koma til ykkar og láta hugsa um mig. Með fæturna upp í loft og láta dekra við mig og það gerðuð þið svo sannarlega.
Ég mun sakna svo margra hluta, þéttingsföstu knúsanna, stríðninnar, að sjá þig út undan mér lauma alltof miklum sykri á seríosið hjá Mána því það er auðvitað það sem afar eiga að gera, dekra við og spilla barnabörnunum, ég mun sakna sumarbústaðaferðanna, að þurfa ekki lengur að berjast við þig um marsípanmolana í konfektkassanum, að sjá þig ekki lengur bruna um bæinn á örlítið meiri hraða en löglegur er og að sjá þig ekki lengur hnoðast í Mána þínum.
En mest mun ég þó sakna þess að hafa þig ekki með okkur í öllu sem fram undan er þó ég viti að þú fylgir okkur hvert spor.
Við munum gera okkar besta til að halda í hefðirnar, elda hjörtu og nýru að hausti til „a la Ási“ og skella í „hakkebøf med løg“ af og til, það er nefnilega afamatur sem enginn getur staðist.
Þú pönkaðist stundum í mér því ég spilaði ekki golf og gæti ekki spilað með ykkur þar sem það var svona fjölskyldusportið, nú fer ég að læra og við tökum hring þegar við hittumst næst í sumarlandinu, ég kippi ísköldu appelsíni og marsípansúkkulaði með fyrir þig.
Takk fyrir allt, minn kæri, fyrir að vera besti afinn, öryggið mitt þegar ég þurfti og fyrir að taka mér opnum örmum þegar ég kom frekar vængbrotin inn í lífið ykkar.
Vertu viss um að við pössum upp á Guðbjörgu þína. Þar til við hittumst næst.
Þín
Brynja.
Ási, eins og hann var oftast kallaður, kynnti okkur spennandi menningu baksviðs í Þjóðleikhúsinu þar sem hann vann sem ljósamaður.
Þannig hófst hálfrar aldar vinátta, sem efldist á námsárunum í Kaupmannahöfn, en á þeim tíma vann Ási sem ljósameistari hjá Det Kongelige Teater á meðan Guðbjörg stundaði nám í lyfjafræði þar. Þá var stundum tekið í spil og leiðbeindi Ási okkur í bridds, en hann var mjög góður briddsspilari.
Síðar eftir að þau Guðbjörg fluttu til Íslands og Axel bættist við fjölskylduna tók Ási virkan þátt í námi hans og íþróttaiðkun, fylgdi honum á kappleiki og studdi dyggilega við Axel og félaga hans í liði Stjörnunnar í Garðabænum.
Undanfarna áratugi höfum við hjónin oft notið góðs af samvistum við Ása og Guðbjörgu á ferð um landið. Ási hafði margsinnis farið um landið með leikhópum Þjóðleikhússins og komið við í mörgum samkomuhúsum með leiksýningar og var því víða staðkunnugur. Árlegar ferðir Meinlætafélagsins eru líka ógleymanlegar.
Ási var jarðbundinn, hafði alist upp við störf í íslenskri bændamenningu frá æsku, var sendur í sveit sem ungur drengur og kunni að meta þann menningararf.
Ási var afbragðsveiðimaður, kunni að lesa í ár, straumbrot og vötn. Ógleymanlegar eru samverustundir sem við áttum í árlegum veiðiferðum í Haganesi við Mývatn, stundum í frosti, stundum í sól og brjáluðum mýflugnavargi. Ási alltaf tilbúinn að leiðbeina með veiðistaði og agn.
Læðast að bakkanum í Mjósundi því fiskur lá oft undir bakkanum þar. Kasta þvert yfir af vírrúllunni, sem áður hafði verið notuð til að hefta rekís og var hálfsokkin í svörðinn, láta reka með straumnum og sökkva, draga síðan hratt inn og viti menn, oftar en ekki var vænn urriði á. Það var sjaldan sem Ási kom fisklaus eftir dagsveiði.
Golfið átti einnig hug hans undanfarin ár og var hann kominn í nokkuð góða æfingu. Þar glitti stundum í keppnisskapið, en Ásmundur var ekki skoðanalaus maður.
Nú þegar komið er að leiðarlokum viljum við þakka Ása fyrir einlæga vináttu í áratugi, en í snarpri baráttu við óvæginn sjúkdóm sýndi Ási þá eðliskosti sem hann bar alla ævi, æðruleysi og kjark.
Við biðjum almættið að styðja Guðbjörgu, Axel, Mána og fjölskylduna á þessum erfiðu tímum.
Jón Eyjólfur og Hjördís.