Þorvaldur Jónsson fæddist á Torfastöðum í Jökulsárhlíð 13. janúar 1931 og ólst þar upp.
Hann lést á dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 17. apríl 2022.
Foreldrar hans voru Margrét Guðjónsdóttir, f. 10.11. 1895, d. 24.4. 1992, og Jón Þorvaldsson, f. 16.3. 1886, d. 23.4. 1957.
Bræður Þorvaldar voru: Stefán, f. 4.10. 1921, d. 2.11. 2012; Ingimar, f. 21.10. 1922, d. 19.12. 1993; Stefnir, f. 28.8. 1926, d. 14.4. 1957; Sigurjón, f. 5.3. 1928, d. 19.6. 2017; Hreggviður, f. 21.2. 1941, d. 8.1. 2011.
Árið 1955 hófu Þorvaldur og Fregn Björgvinsdóttir, f. 15.10. 1934, d. 8.4. 2005, búskap á Háfelli í Jökulsárhlíð. Þau eignuðust sjö börn:
1) Stefanía, f. 24.1. 1956, d. 20.1. 2022, maki Kristján Á. Baldursson, f. 1954. 2) Jón Torfi, f. 18.10. 1957, maki Guðjóna Vilmundardóttir, f. 1959. 3) Björgvin, f. 25.12. 1959, maki Ragnheiður Sigurðardóttir, f. 1961. 4) Margrét, f. 25.12. 1959. 5) Vordís, f. 25.4. 1964, maki Haukur Loftsson, f. 1966. 6) Frigg, f. 14.12. 1966, maki Ólafur F. Ólafsson, f. 1962. 7) Þorri, f. 14.12. 1966, maki Lilja Ástudóttir, f. 1979.
Afabörnin eru 16, langafabörnin 23 og langalangafabörnin fjögur. Eins hafa nokkur hliðarbörn kallað hann afa.
Eftirlifandi sambýliskona hans heitir Alla Árdís Alexandersdóttir.
Mestalla starfsævi sína starfaði Þorvaldur við stjórnun þungavinnuvéla og starfs síns vegna ferðaðist hann vítt og breitt um landið. Hann tók sér þó annað slagið pásu frá þessu landshornaflakki og starfaði á tímabili í Glerskálanum, hann var sundlaugarvörður í Sundlaug Vesturbæjar og í nokkur ár húsvörður og „alt-muligt“-maður hjá Reykjavíkurborg.
Aukastarf sem Þorvaldur var í sneri að því sem honum var kærast en það er tónlist. Hann spilaði á harmoniku og hljómborð í mörgum hljómsveitum og árið 1987 stofnaði hann sitt tríó sem hann nefndi einfaldlega Tríó Þorvaldar og Vordís en voru það nánast eingöngu fjölskyldumeðlimir sem í því voru. Í gegnum árin samdi hann ógrynni af lögum og textum og lék hann sér með það að setja þá á diska svo ekki tapaðist neitt. Árið 1995 gaf hann út geisladiskinn „Á heimaslóð“ í nokkur hundruð eintökum sem löngu er orðinn ófáanlegur. Í mörg ár gerði hann það sér og öðrum til skemmtunar að fara á milli elli- og hjúkrunarheimila og spila þar á nikkuna. Eins fór hann á tímabili einu sinni í viku inn á líknardeild í Kópavogi og spilaði þar, það gaf honum mikið.
Þorvaldur verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju í dag, 28. apríl 2022, klukkan 13.
Elsku pabbi, rétt þremur mánuðum á eftir frumburði þínum kvaddir þú, orðinn helsjúkur af krabbameini sem að lokum sigraði. Þú hafðir á orði við mig nokkrum vikum fyrir andlát að við skyldum muna að þú hefðir átt góð 90 ár áður en krabbinn vann. Við áttum náið samband í gegnum árin, þú varst fyrirmyndin í svo mörgu, þó aðallega músík. Þótt ég hafi mikið lagt hana niður síðustu ár, þá áttirðu til að hringja og segja: „Ég er kominn með nýtt lag, gaman væri ef þú vildir kíkja á það með mér og prufa að læra það.“ Auðvitað gerði ég það. Eftir þig liggur aragrúi af textum og lögum og fullt af geisladiskum sem þú settir lögin þín á, því ekki vildum við tapa þessu. Einn diskur skilur þó mest eftir, en það er diskurinn Á heimaslóð sem gefinn var út fyrir einum 27 árum í nokkrum hundruðum eintaka og er löngu ófáanlegur.
Þú varst í nokkrum hljómsveitum í gegnum árin og 1987 stofnaðir þú Tríó Þorvaldar og voru viðloðandi það nánast eingöngu fjölskyldumeðlimir. Þar byrjaði ég að syngja með þér og var í þessu brasi með þér í mörg ár. Á 85 ára afmæli þínu bauðst þú til tónleika og spiluðum við fyrir fullri Fella- og Hólakirkju. Það er ógleymanlegt og varstu ákveðinn í að endurtaka þetta einhvern tímann, en covid-aðstæður komu í veg fyrir að eitthvað væri hægt að hugsa um þetta fyrir 90 ára afmælið. Í minningu þína var sett saman band af barnabörnum þínum sem ætla að sjá um alla tónlist í útför þinni. Ætla ég að taka þar lag sem þú samdir í tilefni af fermingu dóttur minnar 1997 en það lag tók þátt í lagakeppni Harmonikufélags Íslands og sigraði, árið er ég ekki með á hreinu, en það var eitt af því sem þú gerðir fyrir barnabörnin, að gefa þeim lag og texta sem þú samdir, á fermingardaginn þeirra.
Ég get talið upp endalausar ferðir og skemmtanir sem þið mamma og stórfjölskyldan okkar fórum í saman. Spánarferðirnar okkar, allar ferðirnar okkar í Galtalæk, þar sem þú varst landvörður og skógarvörður í nokkur sumur og allar ferðirnar austur á Hérað, þangað sem þú elskaðir að koma. Þetta er allt geymt í brjósti mér núna. Þú varst svo góður pabbi, og afi fyrir börnin mín, allt sem þú hefur gert fyrir okkur í gegnum árin er ómetanlegt. Elsku pabbi, góða ferð í draumalandið, þar sem þín bíða mamma, Stefanía systir og allir hinir sem þangað eru komnir. Og eins og segir í laginu þínu:
Fjöll og dalir og lækir taka hérna mér á móti
mér finnst alltaf gott að koma hér á heimaslóð.
Elska þig og þú skilar góðri kveðju.
Þín dóttir
Vordís.
Ég hélt lengi vel að þú værir ódauðlegur þar sem þú varst alltaf manna hressastur og veikindi hafa þig aldrei hrjáð en að lokum þurfti krabbinn að taka þig. Ég hugga mig við allar þær minningar sem við höfum átt saman, sem eru fleiri en ég get talið. Allar minningarnar úr Dvergabakkanum, Sumarbústaðnum í Kjós, Galtalækjarskógi og öll giggin okkar saman. Það eru stundir sem ég mun aldrei gleyma.
Sú staðreynd að við Dóra höfum heimsótt þitt með litla bumbu stráknum okkar daginn fyrir andlát þitt mun mér alltaf þykja vænt um. Ég sýndi þér mynd af húsinu okkar í eyjum og þrátt fyrir að þú hafir augljóslega verið kvalinn og þreyttur, þá var alltaf stutt í húmorinn hjá þér. Þau orð sem þú sagðir þegar veikindi þín komu til tals koma til með að sitja fast í mér en þú sagðir „Þetta er bara svona“. Þar hefur þú nákvæmlega rétt fyrir þér en staðreyndin er sú að þú áttir mjög góð 90 ár og skilur þú rosalega margt gott eftir þig.
Elsku afi, ég vill að þú skilir kveðju frá mér til Fregnar ömmu, Stebbu frænku og allra sem ég þekki þarna fyrir handan. Fyrir þig, vil ég skilja eftir texta úr lagi sem ég hef hlustað mikið á eftir fregnirnar um andlát þitt. Góða ferð afi.
„Góða ferð, góða ferð, góða ferð
Góða ferð já það er allt og síðan bros.
Því ég geymi alltaf vinur það allt er gafstu mér
Góða ferð, vertu sæll, góða ferð.“
Þinn dóttursonur,
Aron Daði.
Nú ert þú kominn í faðm ömmu Fregnar og Stebbu dóttur þinnar sem þú saknaðir svo mikið.
Elsku afi, takk fyrir allt. Ég mun sakna þín út í geim og aftur heim. Ég verð dugleg að segja börnum mínum, Báru Rós og Hauki Michael, sögur af langafa og hversu yndislegur þú varst.
Ég elska þig.
Þitt barnabarn,
Margrét Fídes Hauksdóttir.
Fjölskyldan var þér svo dýrmæt. Þú áttir orðið erfitt með að vera með okkur í veislum þar sem heyrnin þín var orðin léleg og búkurinn orðinn þreyttur en þú komst ef þú treystir þér. Best fannst þér að fá fólkið þitt í heimsókn og margir voru þeir kaffibollarnir sem við áttum við eldhúsborðið í Grýtubakkanum.
Aðeins tæpir þrír mánuðir liðu á milli þess að þú kvaddir frumburðinn þinn, þar til þú taldir vera komið gott. Að missa mömmu veit ég að hefur verið eitt það erfiðasta sem þú hefur gengið í gegnum á þinni löngu ævi, elsku afi minn. Svo ósanngjarnt sem það var að þurfa að jarðsyngja barnið sitt, það er eitthvað sem enginn á að þurfa að gera. En svona er þetta bara, sagðir þú oft.
Sumarið 2020 var sérstakt að mörgu leyti. Þið Alla áttuð lítið heimangengt út af Covid og það er dásamleg minning þegar við komum til ykkar og sungum fyrir ykkur fyrir utan svalirnar hjá ykkur. Þegar þú sást í hvað stefndi baðstu okkur um að hinkra. Þú dróst Öllu inn og svo komuð þið aftur íklædd bolum sem á stóð ÉG HLÝÐI VÍÐI! Síðan náðir þú auðvitað í nikkuna þína og spilaðir undir með okkur. Það var mikið sungið og spilað og við höfum örugglega vakið mikla athygli í hverfinu.
Seinna um sumarið héldum við SKRÆK 2020 hér í Vogum. Við stórfjölskyldan áttum frábæra helgi þar sem þið Alla komuð og voruð með okkur allan laugardaginn. Þið skemmtuð ykkur svo vel þennan dag. Þú hafðir auðvitað með þér nikkuna og spilaðir fyrir lýðinn sem tók vel undir með þér. Þetta var síðasti SKRÆKUR ykkar mömmu og verður ykkar minnst með fallegum hætti næst þegar við komum saman og höldum SKRÆK.
Já, tónlist var eins og allir vita þitt líf og yndi og það er ómæld vinna fram undan hjá fólkinu þínu að fara yfir það allt efni sem þú hefur samið. Útgefið sem óútgefið. Við fengum flest ef ekki öll að njóta afraksturs þíns í lagasmíð, lögin voru samin fyrir stóra daga í lífi okkar eins og brúðkaup og fermingar. Það er ómetanlegur fjársjóður sem við munum varðveita um alla tíð.
Takk fyrir allt, afi minn!
Þangað til næst.
Jórunn Fregn.