[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sally Rooney. Ingunn Snædal þýddi. Benedikt, 2022. Kilja, 312 síður.

Nýjasta bók írsku skáldkonunnar geysivinsælu Sally Rooney, sem áður hefur sent frá sér verkin Okkar á milli og Eins og fólk er flest , ber titilinn Fagri heimur, hvar ert þú? og segir af tveimur 29 ára vinkonum, Alice og Eileen.

Alice er rithöfundur sem hefur skotið hratt upp á stjörnuhimininn og það er greinilegt að þessi nýtilkomna frægð hefur haft mikil áhrif á hana og sjálfsmynd hennar. Eftir að hafa misst tökin og verið lögð inn á geðdeild ákveður hún að setjast að í stóru húsi rétt utan við írskan smábæ. Ýmsir hafa velt því fyrir sér að hve miklu leyti Rooney byggir sögu Alice á sögu sjálfrar sín og að hve miklu leyti vangaveltur Alice um hlutverk rithöfundarins í samtímanum eru vantaveltur Rooney.

Í þessum litla bæ kynnist Alice manni að nafni Felix sem starfar í vöruhúsi. Þau eru ólíklegir vinir og enn ólíklegri elskendur en Alice lýsir sambandi þeirra vel í bréfi til vinkonunnar Eileen: „Við sjáum margt sem við könnumst við hvort í annars fari“ (132).

Eileen býr í Dublin þar sem hún vinnur sem aðstoðarritstjóri bókmenntatímarits. Hennar hluti sögunnar er að miklu leyti byggður í kringum samskipti hennar við vin sinn Simon sem hún hefur þekkt frá því hún var barn. Samband þeirra er náið en marglaga og oft á tíðum er óljóst af hvaða tagi það er.

Annar hver kafli byggist á tölvupóstsamskiptum vinkvennanna Alice og Eileen. Þar ræða þær stjórnmál, sögu mannkyns, trúarbrögð, bókmenntir og samtímann sem og velta fyrir sér sinni eigin stöðu í þessum heimi sem þær eru sammála um að sé ekkert sérlega fagur.

Þetta eru kannski ívið háfleyg samskipti en þegar heimsfrægur rithöfundur og besta vinkona hennar, sem hafði skarað fram úr á skólagöngu sinni, skrifast á er kannski ekki við öðru að búast. (Þessir bréfakaflar kallast skemmtilega á við sambærilegar bréfaskriftir vinkvenna í Merkingu Fríðu Ísberg en bækurnar tvær komu út með stuttu millibili síðasta haust.)

Verkið er byggt upp á einfaldan hátt; samskipti Alice og Felix, samskipti Eileen og Simons og bréfaskriftir Alice og Eileen birtast lesandanum á víxl og flæða áfram þar til fereykið sameinast í húsi Alice undir lok verksins.

Fagri heimur, hvar ert þú? toppar kannski ekki Eins og fólk er flest , sem sló svo rækilega í gegn, en er engu að síður afar vel heppnað verk þar sem þau höfundareinkenni Rooney, sem fólk heldur hvað mest upp á, eru enn áberandi.

Textinn er tær eins og í fyrri verkum Rooney og flæðir einstaklega vel enda ekkert út á þýðingu Ingunnar Snædal að setja.

Hún er líka einstök nándin sem höfundinum tekst að skapa milli lesandans og persónanna og ekki síður nándin sem lesandinn skynjar persónanna í millum. Það ríkir einhver angurværð yfir verkinu sem smýgur inn að beini.

Snilldin felst í því hvernig Rooney tekst að lýsa samskiptum og samtölum fólks og draga um leið fram það varnarleysi sem felst í því að opna sig fyrir annarri manneskju og þann breyskleika sem oftar en ekki kemur í ljós.

Það má þó búast við að þetta verk fari í taugarnar á sumum lesendum og þeir hrópi upp yfir sig í pirringi: „Það gerist ekki neitt!“ En það virðist einmitt með ráðum gert eins og lesa má út úr bréfaskriftum Alice og Eileen þegar þær velta fyrir sér lífinu, tilverunni og skáldskapnum. Það má kannski segja að höfundurinn sé að gera bókmenntafræðilega tilraun um það hvort hægt sé að skrifa skáldsögu um „ekki neitt“. Eða kannski ekki „ekki neitt“ heldur öll þau agnarsmáu augnablik sem virðast svo ómerkileg en skipta í raun mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft.

Verkið Fagri heimur, hvar ert þú? hittir í mark hjá okkur sem trúum því að fegurð heimsins liggi í hinu smáa og hinu hversdagslega, í vináttu og ást, og að það sé einmitt hlutverk skáldskaparins að benda á það.

Ragnheiður Birgisdóttir

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir