Spenntur Gregory Buda, barþjónn frá The Dead Rabbit í New York, mixar brennivínskokteila á Jungle í kvöld.
Spenntur Gregory Buda, barþjónn frá The Dead Rabbit í New York, mixar brennivínskokteila á Jungle í kvöld. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Barþjónninn Gregory Buda kennir íslenskum barþjónum framúrskarandi tækni á sérstöku námskeiði í dag og í kvöld hristir hann heimsklassakokteila úr íslensku brennivíni ofan í áhugasama á Jungle Cocktail Bar í Austurstræti.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Barþjónninn Gregory Buda kennir íslenskum barþjónum framúrskarandi tækni á sérstöku námskeiði í dag og í kvöld hristir hann heimsklassakokteila úr íslensku brennivíni ofan í áhugasama á Jungle Cocktail Bar í Austurstræti.

Gregory Buda er einn kunnasti barþjónninn í kokteilbransanum í heiminum. Hann er kokteilsérfræðingur á hinum þekkta bar The Dead Rabbit í New York og hefur síðustu ár ferðast um heiminn til að koma fram á viðburðum og halda námskeið á sviði kokteilgerðar.

„Í veitingabransanum erum við oft að reyna að finna upp hjólið aftur og aftur. Við gerum mikið af mistökum, og lærum vonandi af þeim, en það er enn betra að geta lært af mistökum annarra,“ segir Buda sem kveðst á námskeiði sínu fara yfir margt það sem hefur skapað hið góða orðspor Dead Rabbit, svo sem leiðir til að tryggja gæði og áreiðanleika.

Gregory Buda kveðst trúa á smáatriðin og dýptina í kokteilum og þrífst á sköpunargáfunni sem fer í að búa til fágaðan kokteil. Þessi nálgun hans er eflaust komin frá bakgrunni hans á sviði vísinda en hann er með doktorsgráðu í grasafræði og hikar ekki við að nýta vísindin til að vinna með nýjungar í kokteilgerð.

Athygli vekur að Greg notast mikið við brennivín í kokteilum sínum en The Dead Rabbit, heimavöllur hans, er meðal söluhæstu staða á því vestanhafs. „Ég kynntist brennivíni fyrst þegar ég var barþjónn á litlum kokteilbar í West Village í New York sem kallast Up & Up. Ég var mjög hrifinn af brennivíni og heimsótti verksmiðjuna þar sem það er framleitt þegar ég kom síðast til Íslands. Nú er ég spenntur að fá að blanda nokkra frábæra ákavítiskokteila hér,“ segir hann.

Hann segir að fyrri heimsókn sín hingað til lands, í október síðastliðnum, hafi verið ævintýri líkust. Greg kveðst vera áhugasamur um klettaklifur, náttúruljósmyndum og ýmiss konar útivist. Hann kom hingað til að sækja námskeið í skyndihjálp fyrir útivistarfólk en eyddi svo viku í að ferðast um landið. „Alveg ótrúleg upplifun,“ segir hann.

Úlfar Árdal, framleiðslustjóri brennivíns hjá Ölgerðinni, segir að það sé hvalreki fyrir veitingageirann á Íslandi að Greg muni kenna landsliði íslenskra barþjóna nokkur vel valin trix. „Þeir gerast ekki mikið áhrifameiri en hann. Ég held að það væri galið að láta þennan viðburð í kvöld fram hjá sér fara,“ segir hann en leikar hefjast klukkan 20 á Jungle.