Ásvellir Adam Haukur Baumruk skoraði tvö síðustu mörk Hauka og þau fleyttu Hafnarfjarðarliðinu áfram í undanúrslit Íslandsmótsins.
Ásvellir Adam Haukur Baumruk skoraði tvö síðustu mörk Hauka og þau fleyttu Hafnarfjarðarliðinu áfram í undanúrslit Íslandsmótsins. — Ljósmynd/Þórir Tryggvason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Kristján Jónsson kris@mbl.is Haukar komust í gærkvöld í undanúrslitin um Íslandsmeistaratitil karla eftir að þeir náðu að leggja KA að velli í oddaleik og þriðja spennutrylli liðanna í átta liða úrslitunum á Ásvöllum í Hafnarfirði, 31:30.

Á Ásvöllum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Haukar komust í gærkvöld í undanúrslitin um Íslandsmeistaratitil karla eftir að þeir náðu að leggja KA að velli í oddaleik og þriðja spennutrylli liðanna í átta liða úrslitunum á Ásvöllum í Hafnarfirði, 31:30.

Haukar mæta því Eyjamönnum í undanúrslitum og liðin hefja einvígið á Ásvöllum á sunnudagskvöldið.

Eftir tvo spennuleiki á Ásvöllum og Akureyri buðu liðin upp á þann þriðja lengi vel í gærkvöld. Jafnt var á flestum tölum lengst af. Haukar voru yfir í hálfleik, 15:14. Liðin voru yfir til skiptis framan af seinni hálfleik en Haukar náðu að komast í 28:24 þegar tíu mínútur voru eftir.

Að sjálfsögðu kom sprettur frá KA og leikurinn var aftur æsispennandi eins og öll rimma þessara liða.

Þeir jöfnuðu metin í 29:29 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.

Adam Haukur Baumruk kom Haukum í 30:29 en Arnór Ísak Haddsson jafnaði að vörmu spori fyrir KA, 30:30.

Spenna í síðustu sókninni

Adam Haukur skoraði aftur, 31:30, þegar sjötíu sekúndur voru eftir af leiknum. Síðasta sókn leiksins hjá KA var löng og henni lauk með því að Einar Birgir Stefánsson fékk dauðafæri á línunni en hitti ekki markið á síðustu sekúndu leiksins. Hrikalega svekkjandi fyrir Einar og KA sem eru farnir í sumarfrí eftir rosalega rimmu.

*Adam Haukur skoraði 8 mörk fyrir Hauka, Geir Guðmundsson 5 og Heimir Óli Heimisson 4.

*Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði 9 mörk fyrir KA, Ólafur Gústafsson 6 og Patrekur Stefánsson 5.

*Átta liða úrslitunum lýkur í kvöld með oddaleik FH og Selfoss í Kaplakrika. Sigurliðið í þeirri viðureign mætir Íslands-, bikar- og deildarmeisturum Vals í undanúrslitunum.